Risi Fyrsta farþegaflug risaþotunnar Airbus A-380 vakti töluverða athygli í Bandaríkjunum. Innanborðs er rúmgott og lítill hávaði frá hreyflunum.
Risi Fyrsta farþegaflug risaþotunnar Airbus A-380 vakti töluverða athygli í Bandaríkjunum. Innanborðs er rúmgott og lítill hávaði frá hreyflunum. — Reuters
HAFÞÓR Hafsteinsson, stjórnarformaður Avion Aircraft Trading (ATT), var meðal þeirra tæplega 500 farþega sem flugu með risaþotunni Airbus A-380 frá Frankfurt til New York á mánudag en þetta var í fyrsta skipti sem vél af þessari tegund flýgur vestur um...

HAFÞÓR Hafsteinsson, stjórnarformaður Avion Aircraft Trading (ATT), var meðal þeirra tæplega 500 farþega sem flugu með risaþotunni Airbus A-380 frá Frankfurt til New York á mánudag en þetta var í fyrsta skipti sem vél af þessari tegund flýgur vestur um haf. Nokkrum mínútum síðar lenti önnur samskonar vél í Los Angeles en þeirri hafði verið flogið hinn hringinn, þ.e. frá Frakklandi til austurstrandar Bandaríkjanna.

"Þegar ég kom um borð tók ég strax eftir því hversu rúmgott og bjart var inni í vélinni og var breiður Titanic-stigi upp á efra þilfar og tvær setustofur í vélinni þar sem hægt var að spjalla og tveir barir sem hægt var að sitja við og fá sér hressingu á leiðinni," segir í tölvuskeyti sem Hafþór sendi Morgunblaðinu um ferðina.

Það hafi staðið upp úr hversu hljóðlát vélin var, allar flughreyfingar sérlega þægilegar. Þá hafi loftið um borð í vélinni verið sérlega gott en ekki þurrt eins og oft er raunin í farþegaflugvélum.

Í vélinni eru myndavélar í stéli, við nefhjól og undir búknum og var farþegum sýnd vélin frá ýmsum sjónarhornum. Sem stjórnarformanni sæmir fékk Hafþór pláss á viðskiptafarrými og sagði hann að sætin hefðu verið sérlega rúmgóð og þægileg og búin framúrstefnulegu afþreyingarkerfi. Hið sama ætti við um venjulega farrýmið, betra rými væri milli sæta en áður hefði tíðkast.

Í áhöfn vélarinnar voru 23 flugfreyjur og fimm flugmenn, öll frá þýska flugfélaginu Lufthansa en það félag hefur pantað 15 A-380.

Flugtími var áætlaður sjö klukkustundir og 45 mínútur og var lent á John F. Kennedy-flugvelli í New York klukkan 12.10 að staðartíma, á hárréttum tíma til að komast í hádegisfréttir sjónvarpsstöðva þar vestra. Fyrsta farþegaflugið var nefnilega ekki einungis í tilraunaskyni, kynningarþátturinn er ekki síður mikilvægur enda hefur ekkert bandarískt flugfélag pantað A-380 enn sem komið er. Spennan vegna komu vélarinnar fór ekki framhjá farþegum og var ekki laust við að sumum liði eins og Bítlunum hefur líklega liðið um árið þegar þeir komu þangað í fyrsta skipti.