HINN 31. mars ganga Hafnfirðingar að kjörborðinu og kjósa um skipulagstillögu sem gerir ráð fyrir umtalsverðum stækkunarmöguleikum fyrir álverið í Straumsvík. Samfylkingarmeirihlutinn í bæjarstjórn Hafnarfjarðar ákvað að framselja skipulagsvald sitt til bæjarbúa og fylgja þannig eftir þeirri stefnu sinni sem mótuð var fyrir kosningarnar 2002 að virkja eigi hið beina lýðræði í þýðingarmiklum ákvörðunum. Ljóst er að stækkun álversins hefur umtalsverð áhrif á ásýnd og stöðu Hafnarfjarðar til frambúðar og því eðlilegt að bæjarbúar kjósi um þá ákvörðun.
Þess misskilnings virðist gæta m.a. hjá varaformanni Sjálfstæðisflokksins, Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, að þar með hafi Hafnfirðingar það alfarið á valdi sínu hvort álverið verður stækkað eða ekki. Það er einföldun á málinu. Hafnfirðingar hafa skipulagsþátt málsins á sínu valdi sem er mjög mikilvægur og felur í raun í sér neitunarvald. Hafni þeir skipulaginu verður stækkunin ekki að veruleika. Samþykki þeir það aftur á móti liggur fyrir mikilvæg forsenda stækkunar, en ekki sú eina. Ákvarðanir um virkjanir í Þjórsá eða á Hellisheiði eru ekki í höndum Hafnfirðinga og heldur ekki úthlutun á losunarheimild vegna útblásturs gróðurhúsalofttegunda. Þeir meta ekki arðsemi fjárfestingarinnar né heldur hvenær skynsamlegt sé að ráðast í hana út frá stöðu efnahagsmála. Þessir þættir málsins eru í höndum stjórnvalda, orkufyrirtækjanna og Alcan.
Samfylkingin hefur lagt til að gert verði hlé á stóriðju- og virkjanaframkvæmdum á næstu árum til að ná niður þenslu og til að ráðrúm gefist til að vinna rammaáætlun um náttúruvernd. Þetta er ábyrg afstaða gagnvart umhverfi okkar og efnahag. Verði skipulagstillagan í Hafnarfirði samþykkt mun Samfylkingin beita sér fyrir viðræðum milli allra þeirra aðila sem eiga þátt í undirbúningi stækkunar álversins í Straumsvík og freista þess að ná sátt um frestun þeirra ákvarðana og framkvæmda sem ekki eru orðnar að veruleika. Samfylkingin er flokkur sem ber virðingu fyrir leikreglum lýðræðisins, hún er flokkur samráðs og samninga og við munum fara þá leið í þessu máli.
Höfundur er formaður Samfylkingarinnar.