Alls staðar Klám og tilvísanir í klám birtast unglingum jafnt í fjölmiðlum sem á almannafæri, t.d. við verslunargötur í miðborginni. Nefna þau nokkur auglýsingar súludansstaða og kynlífsbúða í því sambandi.
Alls staðar Klám og tilvísanir í klám birtast unglingum jafnt í fjölmiðlum sem á almannafæri, t.d. við verslunargötur í miðborginni. Nefna þau nokkur auglýsingar súludansstaða og kynlífsbúða í því sambandi. — Morgunblaðið/Golli
Eftir Sunnu Ósk Logadóttur sunna@mbl.is "Þetta er úti um allt á Netinu," segir sextán ára strákur um klám sem fyrirfinnst á Netinu. Honum, líkt og 27 öðrum unglingum á aldrinum 14–16 ára sem tóku þátt í viðtalsrannsókn sl.

Eftir Sunnu Ósk Logadóttur

sunna@mbl.is

"Þetta er úti um allt á Netinu," segir sextán ára strákur um klám sem fyrirfinnst á Netinu. Honum, líkt og 27 öðrum unglingum á aldrinum 14–16 ára sem tóku þátt í viðtalsrannsókn sl. sumar, finnst klám of aðgengilegt. Ekki þurfi meira til en að "gúgla" orðið banani eða Rússland – klámsíða gæti birst á skjánum. Það er því varla hægt að tala um "klámkynslóðina" enda oftast ekki unglingarnir sjálfir sem velja að skoða klám, því er hreinlega þröngvað upp á þá.

Unglingarnir virðast allir, samkvæmt rannsókninni, telja að klám hafi áhrif á samskipti kynjanna og viðhorf karla til kvenna vegna þeirrar hlutgervingar sem á sér stað. Bæði kynin töldu líklegt að klám hefði víðtæk áhrif á samfélagið m.a. valdatengsl og ofbeldi.

"Það var mjög áberandi að unglingarnir sögðu klámi vera troðið upp á þá, það væri hreinlega óhjákvæmilegt að sjá klám á Netinu," segir Andrea Ólafsdóttir, nemi í uppeldisfræði í Háskóla Íslands, sem gerði rannsóknina ásamt Hjálmari Sigmarssyni mannfræðingi. Rannsóknin var styrkt af Nýsköpunarsjóði námsmanna. Tekin voru djúp viðtöl við unglingana í hópum. Andrea segir merkilegt að sjá hverjar afleiðingar klámsins séu að mati unglinganna. "Stelpurnar voru sammála um að klám væri niðurlægjandi, ógeðslegt, óraunverulegt og fáránlegt." Um þetta voru flestir strákarnir einnig sammála.

"Markmiðið með þessari rannsókn var að fá fram raddir unglinganna og þeirra tilfinningar," segir Hjálmar. "Þau vita heilmikið um þessi mál og hafa á þeim sterkar skoðanir."

Eiga strákar að "fíla" klám?

Unglingarnir töldu mjög mikilvægt að efla kynlífsfræðslu í skólum og umræðu um klám og innihald þess. "Þau komu mörg inn á það að ef klám væri fyrstu kynni unglinga af kynlífi myndi það gefa falshugmyndir um hvernig kynlíf og samskipti kynjanna ættu að vera," segir Hjálmar. Í því sambandi megi nefna að í máli eins stráksins hafi komið fram að í klámmyndum væri komið fram við konur eins og "tuskudýr."

Í viðtölunum kom m.a. fram að sú krafa væri gerð til stráka að þeir ættu að "fíla" klám. Það væri hreinlega ekki í boði að vera andvígur klámi. Þetta sýnir að mati Hjálmars, að klám "eigi" að vera eðlilegt fyrir stráka og það sé "karlmannlegt" að horfa á það.

"Ég tel augljóst að meiri þörf er nú en nokkru sinni á fræðslu," segir Hjálmar. "Það verður að tryggja að unglingar fái ekki upplýsingar frá aðeins einum mjög einhæfum miðli sem er fullur af staðalímyndum, fyrirlitningu og ofbeldi. [...] Innihald klámsins hefur breyst mjög mikið, það fær gífurlega mikla dreifingu og unglingar hafa aðgang að klámi sem er mun grófara en var fyrir nokkrum árum."

Eru svartsýn á að hægt sé að banna klám alfarið

ÞRÁTT fyrir að gera sér grein fyrir víðtækum áhrifum sem klám hefur á samfélagið og samskipti kynjanna finnst unglingunum sem tóku þátt í rannsókninni eins og ekki sé hægt að banna það. Það kom sérstaklega fram hjá blandaða hópnum, sem í voru strákar og stelpur á aldrinum 17–18 ára, að það þýddi ekki að banna klám. Nöfnin sem hér fara á eftir eru dulnefni.

Arnar: Af hverju. Ég held að það mundi bara frekar auka svartamarkaðsbrask. Þar sem er bara verið að gera virkilega "cheap" myndir.

Viggó : Ég held að það sé ekki hægt að banna þetta.

Daníel: Ég held ekki heldur.

Guðrún: Ég held að það sé ekki hægt að útrýma klámi úr samfélaginu.

Þórunn: Það virkar ekki að banna eiturlyf...hvernig á það að virka að banna klám?

Unglingarnir í blandaða hópnum töluðu um hvernig viss viðhorf hjá strákum gagnvart stelpum væru orðin áberandi. Strákar væru orðnir líklegri til þess að vera háværir um hvernig þeim fyndist að stelpur ættu að vera. Misræmi væri á þeim mælikvarða sem strákum og stelpum væri settur varðandi kynlífsiðkun.

Í umræðu um aukin áhrif kláms segir einn strákurinn úr hópnum þau geta leitt af sér neikvæða stöðu fyrir konur.

Arnar: Klámmyndir sýna konur óæðri en karla. Að karlinn ráði yfir þeim og það kyndir svolítið undir kynferðislega áreitni gagnvart konum.

www.mbl.is/itarefni