ALEXANDER Petersson verður ekki með íslenska landsliðinu í handknattleik sem tilkynnt verður í vikunni og tekur þátt í fjögurra þjóða móti í Frakklandi um páskana.

ALEXANDER Petersson verður ekki með íslenska landsliðinu í handknattleik sem tilkynnt verður í vikunni og tekur þátt í fjögurra þjóða móti í Frakklandi um páskana. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins stendur til að Alexander noti páskafríið, sem gefið verður frá keppni í þýsku 1. deildinni, til að fjarlægja málmplötur sem notaðar voru til þess að spengja saman kjálka Alexanders þegar hann kjálkabrotnaði í leik Íslands og Rússlands á Evrópumeistaramótinu í Sviss snemma á síðasta ári.

Eftir Ívar Benediktsson

iben@mbl.is

Tími þykir vera kominn til þess að gera þessa aðgerð frekar en að bíða þar til í sumar þegar keppni í þýsku 1. deildinni lýkur. Þá taka við æfingar og leikir við Serba hjá Alexander með íslenska landsliðinu í undankeppni Evrópumeistaramótsins í Noregi. Eins er mikil törn fram undan hjá Alexander með Grosswallstadt í þýsku 1. deildinni – tíu leikir á næstu tveimur mánuðum.

Ljóst er að Alfreð Gíslason landsliðsþjálfari verður ekki með sterkasta lið á mótinu í París og hugsanlegt að einhverjar breytingar verði á landsliðshópnum frá heimsmeistaramótinu í Þýskalandi í byrjun árs.

Á mótinu í París verður keppt við Evrópumeistara Frakka, Afríkumeistara Túnis og Pólverja, silfurlið heimsmeistaramótsins í Þýskalandi. Til stendur að landsliðið komi saman í Þýskalandi 3. apríl en mótið fer fram 6., 7. og 8. apríl.

Auk Alexanders er ljóst að Einar Hólmgeirsson verður ekki með eftir að hafa meiðst illa í kappleik í þýsku 1. deildinni um síðustu helgi. Einar gekkst undir aðgerð á sjúkrahúsi í morgun eftir að hafa verð greindur með brjósklos. Þá leikur einnig vafi á þátttöku Sigfúsar Sigurðssonar með landsliðinu í Frakklandsferðinni þar sem hann hefur glímt við meiðsli upp á síðkastið og lítið leikið með liði sínu, Ademar León á Spáni.

Logi Geirsson glímir einnig við meiðsli í baki undanfarinn hálfan mánuð. Hann mun þó vera á batavegi og var í skoðun hjá lækni í Bremen í gær.