ÞAÐ verður aldrei lögð of mikil áhersla á það hversu mikilvægt gott leikhús er fyrir börn. Börn eiga ekki auðvelt með að segja okkur hvers vegna þau eru reið, hrædd eða fyrir hvað þau skammast sín og við eigum stundum erfitt með að giska á það.

ÞAÐ verður aldrei lögð of mikil áhersla á það hversu mikilvægt gott leikhús er fyrir börn. Börn eiga ekki auðvelt með að segja okkur hvers vegna þau eru reið, hrædd eða fyrir hvað þau skammast sín og við eigum stundum erfitt með að giska á það. Vandaðar leiksýningar og góðar sögur eru þeirra sálgæsla. Góð saga sem hefur slípast í meðförum kynslóð eftir kynslóð og býður þeim afgerandi lausn þar sem allt fer vel að lokum og hið góða sigrar hið illa – hún getur hjálpað þeim að greiða úr sterkum tilfinningum. Það sama gildir um vel unna og úthugsaða barnaleiksýningu.

Það virðist vera í tísku að slá um sig með fullyrðingum um að leikhúsið sé dautt. Sorglegt ef satt væri, því kannski hefur aldrei verið meiri þörf fyrir leikhús en einmitt núna. Bæði fyrir börn og fullorðna. Og þó einkum fyrir börn. Og helst fyrir fullorðna með börnum – núna þegar hraðinn er svo mikill að börnin gleymast – jafnvel á sunnudögum. Þegar fæstir kunna lengur – eða gefa sér tíma til – að segja börnum sögur á kvöldin. Bilið milli barna og fullorðinna virðist stöðugt halda áfram að breikka. Við fullorðna fólkið erum smám saman að hverfa brott úr umhverfi barnanna. Kynslóðirnar eru hólfaðar eftir aldri og börn eru í æ ríkara mæli meðhöndluð sem hópur – í leikskólanum, í skólanum og jafnvel í áhorfendasalnum. Það er fátt skemmtilegra en að fara með börnum í leikhús. Ég get ekki séð neitt sem kemur í staðinn fyrir nánd leikhússins, þetta hlýja myrkur sem jafnframt er svo öruggt af því við erum þarna öll saman í eigin persónu. Sumir að hlusta og horfa – aðrir að leika og segja frá.

Það er eðli barna að lifa í núinu og það skyldi þó ekki vera að sú ofvirkni sem herjar á börn í dag stafi að hluta til af því að við gefum okkur ekki tíma vegna okkar mikilvægu starfa að koma inn í núið til þeirra. Þvert á móti erum við stöðugt að reyna að draga þau með okkur inn í okkar hröðu tilveru. Galdur leikhússins er einmitt fólginn í andartakinu. Og galdurinn í góðu barnaleikhúsi er fólginn í að veita áhorfendum sínum þessa öryggistilfinningu sem fylgir því að vera saman í sögu sem grípur okkur – einmitt í þessu andartaki – núna.

Börn hugsa mikið um framtíðina og kannski er munurinn á þeim og okkur fullorðna fólkinu fólginn í því að þau trúa því að hægt sé að leysa vandamál. Ég tek undir með þeim og trúi því að við eigum bara að halda áfram að leggja okkur fram við að skapa gott barnaleikhús. Þá fer allt vel að lokum!

Til hamingju með daginn.

Hallveig Thorlacius.