Soffía Ólafía Níelsdóttir fæddist í Húsey í Hróarstungu, N-Múlasýslu 10. ágúst 1926. Hún lést á Landspítalanum 5. mars sl.

Útför Soffíu fór fram 14. mars sl.

Yfir syngjandi sefinu

svífur fífan

drifahvít

eins og drottning himnanna

umkringd englum.

(Þorsteinn Valdimarsson)

Þetta fallega ljóð kemur upp í huga minn þegar ég minnist móðursystur minnar, Soffu.

Soffa var fædd og uppalin í Húsey í Hróarstungu, yngst þriggja systra en bróðir yngri. Í Húsey er fallegt og víðsýnt og í bernskuminningu minni syngur sefið í tjörninni fyrir neðan bæinn og Soffa er svífandi vera í blámóðu bernskunnar.

Andlát Soffu bar nokkuð brátt að því hún var ung andlega og líkamlega þrátt fyrir áttatíu ára jarðvist og baráttu við krabbamein í nokkur ár. Þá baráttu háði hún jákvæð og á sinn hljóðláta og hógværa hátt sem einkenndi alla framkomu hennar.

Bernskuminningar mínar um Soffu tengjast heimsóknum hennar í sveitina á æskuheimili mitt. Hún var fínleg og falleg og mér fannst fötin hennar svo fín og góð lyktin af henni. Hún var borgardama fram í fingurgóma, þótt sprottin væri upp í sveit, og barnið skynjaði óljóst en með eftirvæntingu annars konar veröld en í sveitinni. Vel man ég eftir þegar ég var níu ára og hún sat við rúmstokk minn á sjúkrahúsinu á Akureyri þegar ég vaknaði upp eftir svæfingu og fannst að ég væri að deyja. Þarna sat hún í hvítklædd eins og frelsandi engill, kunni og vissi allt enda nemi í hjúkrunarfræði þar á sjúkrahúsinu. Mér var borgið.

Unglingsstúlka dvaldi ég sumarlangt á heimili hennar og Gríms, eiginmanns hennar, á Selfossi. Þangað hafði Soffa ráðið sig sem hjúkrunarfræðingur við sjúkrahúsið og þar hófu þau Grímur sambúð. Þó að mér á sextánda ári fyndist þau þá rígfullorðin skynjaði ég rómantík í loftinu. Man að Soffa sagði við mig að ég skyldi ekki gifta mig fyrr en á fertugsaldri, það væri best.Þannig var því háttað hjá þeim Grími. Og það var best. Í minningunni frá Selfossdvölinni falleg föt Soffu og ilmur, hljóðlát handleiðsla hennar og traust á mér, Grímur að vinna eða lesa bækur og erlend tímarit. Vel lesinn og fróður.

Ári eftir sumardvöl mína hjá þeim á Selfossi eignuðust þau einkasoninn Hlyn Níels. Skömmu síðar fluttu þau til Reykjavíkur og hreiðruðu fljótlega um sig á Víðimelnum þar sem þau áttu heima allar götur síðan. Soffa sagði mér fyrir margt löngu að hún hefði gjarnan getað hugsað sér að búa í stórborg erlendis og þótti gaman að ferðast til stórborga. En henni þótti vænt um hverfið sitt og mér er minnisstætt hve nágrannar Soffu á Víðimelnum, Kínverjarnir, voru í miklu uppáhaldi hjá henni þó að segja megi að Soffu hafi ekki líkað kommúnismi. Mannkostir Kínverjanna voru henni ofar í sinni en pólitísk skoðun þeirra.

Soffa var gæfusöm, bæði í starfi og einkalífi. Hún vann lengst af sem hjúkrunarfræðingur á Landakotsspítala, mest á skurðstofu. Sama þar og annars staðar; hlý, nákvæm, fumlaus og samviskusöm ávann hún sér traust og virðingu samstarfsfólks sem sjúklinga. Eftir að starfsævinni lauk sat Soffa ekki auðum höndum heldur sótti hún ýmis námskeið. Myndlistin hafði líklega lengi blundað í henni og sér til mikillar ánægju sótti hún myndlistarnámskeið og fór að mála síðustu árin.

Með þeim Soffu og Grími var jafnræði. Yfirvegun, reglusemi, hógværð og virðing einkenndi þau og heimilislíf þeirra. Sonurinn Hlynur var augasteinn Soffu.Svo kom tengdadóttirin Lísa og litlu ömmustrákarnir tveir. Fyrst Egill Smári sem hún sá ekki sólina fyrir og svo nú Kjartan Nói sem aðeins fær að kynnast ömmu sinni af afspurn.

Að morgni mánudags heimsótti ég móðursystur mína í síðasta sinn. Að kvöldi var hún öll.

Að leiðarlokum vil ég þakka móðursystur minni alúð og tryggð við mig og ekki síst hlýju í garð yngri sonar míns og áhuga á velferð hans. Hvíli hún í friði

...drifahvít

eins og drottning himnanna

umkringd englum.

Við systkinin frá Skjöldólfsstöðum sendum Grími, Hlyni, Lísu og litlu ömmustrákunum okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Ragnhildur Skjaldardóttir.

Þú unga tíð, þú unaðsvor,

sem ísköld máir dauðans spor

og lætur lífið glæðast,

vorn hjartans kulda' og klaka þíð

og kenn þú öllum Drottins lýð

í anda' að endurfæðast.

Þú glaða tíð, um loft og láð

er lofar Drottins miklu náð

með unaðslegum ómi,

oss minn á gæsku gjafarans,

svo glaðir þökkum miskunn hans

með vorum veika rómi.

Þú fagra tíð, er fjall og dal

með fagurt þekur blómaval

og skrýðir grænu skrúði,

vor hjörtu fögru skrúði skrýð

og skærum dyggða blómum prýð

þú Drottins dýra brúði.

Þú frjóa tíð, er frækorn smá

svo fóstrar vel, að þroska ná

á dýrum sumardegi,

oss minn þú á, að einnig vér

þann ávöxt skulum bera hér,

er Guði geðjast megi.

Þú hraða tíð, er flýgur fljótt

og fyrr en varir hverfur skjótt,

en kemur eitt sinn aftur,

oss kenn, hve ótt að ævin þver,

en eilíft líf í skauti ber

Guðs sterki kærleikskraftur.

(V. Briem)

Elsku frænka, ég líki þér við vorið, með allri sinni fegurð, þannig varst þú þegar ég hugsa til þín.

Ég þakka þér allt sem þú gerðir fyrir mig á mínum fyrstu búskaparárum.

Það var yndislegt að hafa góða frænku eins og þig, nánast í næstu götu, og geta leitað til þín, fengið að þvo þvottinn hjá þér, heyra þig dást að mér og henni Evu minni, með þinni ljúfu fallegu rödd. Evu passaðir þú stundum fyrir mig, og þá var hann Grímur þinn nú aldeilis liðtækur í því hlutverki líka, og alltaf var allt svo sjálfsagt hjá ykkur. En ég veit að það var ekki í þínum anda að láta dást að þér, þessvegna hef ég þetta ekki lengra, elsku frænka. Þakka þér fyrir allt, berðu mömmu kveðju mína og öllu okkar fólki, ég veit að ykkur líður vel, í faðmi drottins.

Kæri Grímur, Hlynur, Elísa og synir, guð gefi ykkur styrk í sorginni.

Kristín Árnadóttir.

Þegar ég frétti um andlát Soffíu fann ég þörf til þess að minnast hennar með nokkrum orðum. Soffíu kynntumst við Hörður maðurinn minn þegar við hófum sambúð okkar fyrir tæpum átta árum síðan í lítilli kjallaraíbúð að Víðimel 30 í Reykjavík. Fyrir ofan okkur á miðhæðinni bjuggu þau Soffía og Grímur og tóku okkur strax opnum örmum. Það var ósjaldan sem við Soffía töfðum hvor aðra á spjallinu í þvottahúsinu, eða í garðinum þar sem hún svo gjarnan var að sýsla við beðin af mikilli natni. Smám saman tókst með okkur góður vinskapur. Það var óneitanlega gott að vita af þeim hjónum fyrir ofan okkur og það varð æ algengara að ég kíkti upp til Soffíu í kaffi og spjall. Hún var einnig boðin og búin að aðstoða ef okkur vantaði hitt og þetta við bakstur eða annað, þar sem við Hörður höfðum ekki komið okkur upp öllu því sem nauðsynlegt var í búið. Ég á ennþá kökukeflið sem Soffía gaf mér, hún vildi ólm gefa mér það, sagði að sig munaði ekki um það að missa þetta kefli því hún átti annað. Ekki vantaði heldur umhyggjuna fyrir mér og mínum, ég man sérstaklega eftir einu skipti þar sem ég lá lasin í rúminu og Soffía hafði haft spurnir af því. Þá kom hún niður til mín með vöfflur, rjóma og sultu og gaf mér síðan góð ráð til að ná bata eins og hjúkrunarkonu einni sæmir. Þau Soffía og Grímur höfðu einnig gaman af stjúpsyni mínum sem þá var bara lítill leikskólastrákur og hann fékk stundum að sitja uppi hjá þeim hjónum ef við þurftum að skreppa örstutt, í búð eða annað. Sá stutti og Grímur sátu þá og ræddu um íþróttirnar í sjónvarpinu meðan Soffía stjanaði í kringum hann eins og lítinn prins.

Við Soffía áttum þar að auki sameiginlegt áhugamál. Það var að mála myndir. Soffía vissi að ég hafði sótt námskeið í olíumálun og hún fylgdist með þegar ég var að mála fyrir sýningu sem ég hélt svo síðar. Það kom að því að hún dreif sig á myndlistarnámskeið og hún kom niður til mín með hverja einustu mynd sem hún málaði á námskeiðinu til að fá álit mitt og spjalla um myndirnar. Það voru góðar stundir.

Það kom þó að því að fjölskylda okkar Harðar átti að stækka og við þurftum stærri íbúð. Við heimsóttum hjónin í einhver skipti eftir flutningana en auðvitað hefði það mátt vera mun oftar. Við munum þó aldrei minnast okkar fyrstu sambúðarára án þess að muna eftir Soffíu og elsku hennar í okkar garð. Við kunnum svo sannarlega að meta þessi kynni og munum geyma minningu Soffíu í hjarta okkar um ókomna tíð.

Við vottum Grími og aðstandendum Soffíu okkar dýpstu samúð

Kristín Berta Guðnadóttir og Hörður Sveinsson.

Það er með söknuði sem kveðjuorðin um Soffíu eru rituð. Soffía var okkur kær og er eftirsjá að jafn ljúfri og nærgætinni konu.

Skemmtileg kvöld rifjast upp frá menntaskólaárunum, sem við skólafélagarnir áttum á Víðimelnum heima hjá Hlyni. Það var oftar en ekki verið að glíma við tilraunaskýrslur langt fram á kvöld og ávallt var Soffía með kvöldkaffi á boðstólum og sá til þess að okkur liði sem allra best við ritsmíðarnar. Það má því segja að öllum tók hún með opnum örmum og bauð inn á sitt góða heimili þeirra Gríms.

Veturinn 2002-´03 var Soffía svo elskuleg að vera til staðar fyrir syni okkar þegar þeir komu heim úr skólanum síðdegis. Áttu þeir mjög góðar stundir með henni og fyrir sex og sjö ára gutta að koma heim og fá nýbakaðar pönnukökur og annað veislubrauð var sannkallað prinsalíf. Þarna komu eiginleikar Soffíu vel fram. Hún náði vel til þeirra sem hún kom nærri og var alltaf tilbúin að gera allt sem í hennar valdi stóð til að láta litlum hjörtum líða vel. Það voru því alsælir og þakklátir foreldrar sem lofuðu velvild Soffíu þennan skólavetur. Umhyggjusemi og væntumþykja voru henni í blóð borin.

Soffíu þótti afskaplega vænt um ömmubörnin sín, þá Egil Smára og Kjartan Nóa. Þeir kveðja núna frábæra ömmu, sem umvafði þá hlýju og kærleika.

Grímur, Hlynur, Elísa, Egill og Kjartan, við vottum ykkur samúð okkar og varðveitum minningu um hana Soffíu í hjörtum okkar um aldur og ævi. Guð geymi ykkur öll.

Gunnar Skúlason og fjölskylda.

Fallin er frá kær skólasystir og vinkona, Soffía Níelsdóttir hjúkrunarfræðingur. Það var haustið 1957 að við hittumst í Hjúkrunarkvennaskóla Íslands, eins og hann hét þá, 22 stúlkur sem hugðust hefja nám í hjúkrun.

Við bjuggum saman í heimavist, lærðum og störfuðum saman næstu rúmlega þrjú árin. Góð vinátta tókst fljótlega með okkur "hollsystrunum", vinátta sem haldist hefur og dafnað í 50 ár.

Nokkur aldursmunur var á milli Soffíu og okkar flestra sem hófu námið saman en aldrei fundum við fyrir því, svo auðveldlega féll hún að hópnum og var okkur oft stoð og stytta og góður ráðgjafi á sinn hógværa hátt.

Soffía var einstaklega hlý og vönduð manneskja og lagði mikla alúð við störf sín. Síðustu árin átti Soffía við vanheilsu að stríða en hún hélt reisn sinni til hinstu stundar.

Við kveðjum mæta konu með söknuði og virðingu.

Eiginmanni Soffíu og einkasyni og fjölskyldu hans sendum við innilegar samúðarkveðjur.

Hollsystur úr Hjúkrunarskóla Íslands.

Fallin er frá mikil sómakona, Soffía Níelsdóttir hjúkrunarfræðingur. Soffíu kynntist ég lítill pjakkur í Vesturbænum eftir að hafa kynnst "augasteininum" hennar, honum Hlyni Níelsi við tuðruspark í bakgarðinum. Með okkur Hlyni tókst mikil vinátta og oftlega var ég gestur á heimili þeirra þar sem faðir Hlyns, Grímur Jósafatsson var sá sem allt virtist vita milli himins og jarðar um íþróttir og vísindi. Hann kynnti til leiks Mark Spitz og Háskóla Íslands og einhvern veginn smellpassaði Soffía inn í þetta með sinni skynsemi, hlýju og yfirvegun. Það var alltaf stutt í brosið og stuðninginn frá henni. Hún fylgdist vel með því hvað við guttarnir aðhöfðumst og gaf góð ráð eða hló með okkur að tiltækjunum. Það vantaði ekki húmorinn. Ég eignaðist minn fyrsta íþróttagalla sem gjöf frá Soffíu, Grími og Hlyni, en á þeim árum voru slíkar flíkur nýmæli. Þessi gjöf var mér meira virði en margt annað sem ég hef eignast um ævina. Í henni fólst svo mikil hvatning og velvilji í garð lítils drengs að því mun ég aldrei gleyma. Stundirnar á Víðimel 30 eru mér hjartfólgnar og ég tel mig heppinn að hafa orðið aðnjótandi þess stórhugar sem Soffía hafði yfir að búa. Ég og fjölskylda mín vottum Grími, Hlyni, Elsu og barnabörnum, okkar innilegustu samúð og von um styrk á erfiðri stundu.

Svanur Sigurbjörnsson.