Ásta Kristinsdóttir fæddist í Reykjavík 2. október 1944. Hún lést á heimili sínu 11. mars sl.

Foreldrar hennar voru hjónin Kristinn Jónsson, f. 30. maí 1909, d. 16. júní 1994, og Sólveig Sumarrós Þorfinnsdóttir, f. 21. sept. 1912, d. 15. apríl 1974. Ásta giftist 12. júní 1965 Pétri Wiencke, f. 16. ágúst 1941, d. 15. okt. 1991, og eignuðust þau 3 börn. Þau eru: Sigrún, f. 16. nóvember 1964, búsett í Vogum á Vatnsleysuströnd, börn hennar eru Ásta, f. 1. okt. 1980, synir hennar eru Adam, f. 24. ágúst 1998, og Rikki, f. 26. júlí 2000, Hallgrímur, f. 1. júlí 1988, hans sonur, óskírður, f. 4. feb. 2007, Pétur Wiencke, f. 4. sept 1992, og Karen Björk, f. 19. okt. 1993, sambýlismaður hennar er Þór Ingi Árdal, f. 31. des. 1957; Bernhard Kristinn, f. 13. apríl 1966, d. 12. okt. 1992 af slysförum, sonur hans er Einar Þór, f. 28. júní 1988, yngst er Þórdís, f. 27. júní 1967, gift Axel Pétri Örlygssyni. búsett í Þýskalandi, hennar sonur er Georg Finnur, f. 5. sept. 1987, og sonur Þórdísar og Axels er Alexander Þór, f. 28. jan. 1996. Systkini hennar eru 1) Pálína Sigríður, f. 13. júlí 1940, gift Bergi Sveinbjörnssyni. 2) Þráinn, f. 11. maí 1942, giftur Vilborgu Pálsdóttur. 4) Ásgeir Þorfinnur, f. 9. nóv. 1948 giftur Hjörtfríði Olgu Herbertsdóttur. Eftir andlát Péturs lauk Ásta námi frá Skrifstofu- og ritaraskóla Íslands með hæstu einkunn. Fljótlega eftir það hóf hún skrifstofustörf hjá Þjónustuíbúðum aldraðra við Dalbraut og vann þar 3–4 ár. Eftir það hóf hún störf hjá Sjómannasambandi Íslands og vann þar til ársins 2002. 9. mars 2003 flutti Ásta búferlum til Þýskalands ásamt Þórdísi, dóttur sinni, og fjölskyldu. Í janúar 2004 flutti Ásta aftur heim til Íslands vegna veikinda sem hún átti við að stríða síðan 2000.

Ásta verður jarðsungin frá Fríkirkjunni í Reykjavík í dag, 21. mars, og hefst athöfnin kl. 15.

Hún Ásta systir mín er nú laus úr viðjum þjáninga, eftir langa baráttu kvaddi hún sátt við guð og menn og þökk sé dætrum hennar að hún fékk að vera heima til hinstu stundar. Nú er þrautum þínum á þessari jörð lokið, elsku Ásta, og í huganum ertu glöð og hress hjá Pétri og Benna sem þú saknaðir öll þessi ár. Þú trúðir því að héðan færir þú til þeirra. Þrátt fyrir veikindin vildir þú vera með í öllu, líka á ættarmóti í sumar, þó svo að sumir villtust smávegis af leið. Að leiðarlokum þökkum við Bergur samfylgdina, allar komurnar í Lyngás, þá var nú kátt í koti, ég tala ekki um þegar Stína kom líka og móttökurnar þegar við komum til þín. Sigrúnu, Þórdísi, Þór, Axel og barnabörnum Ástu vottum við samúð. Minningarnar munu orna um ókomna tíð og veit ég að þótt leiðir skiljist um stund munum við hittast síðar.

Sorg og gleði auður er

öllum þeim sem vilja.

Ég á margt að þakka þér

þegar leiðir skilja.

(Hulda.)

Blessuð sé minning þín.

Pálína systir.

Elsku amma mín. Ég vil þakka þér fyrir öll þessi ár sem þú hefur verið til staðar. Ég veit að þú vilt ekki missa af neinu núna frekar en áður fyrr. En þetta er allt breytt, núna ertu hjá okkur öllum svo þú getur verið óhrædd um að missa ekki af neinu. Ég lofa því að gera þig stolta.

Blessuð sé minning þín.

Þinn dóttursonur

Pétur Wiencke.

Elsku amma. Ég þakka þér allt það sem við höfum átt saman. Þú varst alltaf til staðar í blíðu og stríðu. Þó ég sakni þ

Elsku mamma mín, núna ertu loksins búin að fá hvíldina eftir harða og erfiða baráttu og ert komin til pabba og Benna. Efast ég ekki um að þar hafi orðið fagnaðarfundir, þó mér hafi þótt þetta allt of fljótt. Margs er að minnast er litið er til baka. Þú varst frábær mamma, amma og síðast en ekki síst frábær vinur sem talaðir við mig á hreinni íslensku ef þér fannst það hæfa.

Minningarnar um okkar samveru ætla ég að geyma, minningar um gleði og félagslyndi, minningar um óbilandi kjark í baráttu við illvígan sjúkdóm og ekki síst ótakmarkaða forvitni um hvað næsti dagur byði upp á.

Langar mig að þakka þér innilega fyrir allt sem þú gafst mér, Þór og börnunum okkar. Við eigum aldrei eftir að geta endurgoldið þér það.

Elskulega mamma mín

mjúk er alltaf höndin þín

tárin þorna í sérhvert sinn

er þú strýkur vangann minn

Þegar stór ég orðin er,

allt það skal ég launa þér.

(Höf. ókunnugur)

Blessuð sé minning þín.

Þín dóttir

Sigrún.

ín mikið þá veit ég að þú ert komin á betri stað, til afa og Benna frænda. Ég vona að þið komið og pikkið í okkur bara smá og þú verðir dugleg að láta mig taka til í herberginu mínu, eins og þegar þú varst hérna með okkur. Ég mun gera þig stolta í framtíðinni.

Blessuð sé minning þín.

Ástar, ástar, ástar kveðjur.

Karen Björk.

Minningarnar frá æskuárum fimmta ártugarins koma upp í hugann í dag þegar við kveðjum frænku okkar Ástu Kristinsdóttur. Við frændsystkinin ólumst upp í nálægð við hvert annað í Þingholtunum og vorum þess aðnjótandi að afi okkar og amma Pálína Þorfinnsdóttir og Magnús Pétursson á Urðarstígnum voru miðdepill tilveru okkar. Þar var okkar skjól, þar hittumst við oft við leik og lærðum að við vorum hluti af góðri samheldinni fjölskyldu.

Á áttunda ári flutti Ásta í Þykkvabæinn með foreldrum sínum, þeim heiðurshjónum Sólveigu S. Þorfinnsdóttur og Kristni Jónssyni, ásamt systkinum sínum Pöllu, Þráni og Ásgeiri. Þrátt fyrir ungan aldur voru þau systkin samtaka í öllu sem sneri að búinu og unnu hörðum höndum ásamt foreldrum sínum. Ásta sýndi snemma jafnlyndi og styrk sem átti eftir að verða hennar einkenni. Dugnaður fjölskyldunnar í Vatnskoti varð okkur hinum ljós í návist þeirra, margan sólbjartan dag við heyskap og kartöflutínslu.

Með Pétri Wiencke eignaðist Ásta sinn besta vin og eiginmann og sína eigin samheldnu góðu fjölskyldu þau Þórdísi, Benna og Sigrúnu sem hún unni af öllu hjarta. Sorgin var því nístandi þegar þeir feðgar féllu frá með stuttu millibili. Sýndi frænka okkar ótrúlegt hugrekki og styrk á þeim erfiðu tímum. Í baráttunni við veikindi síðustu ára kom fram hin sanna en viðkvæma sál sem helgaði sig dætrum sínum og barnabörnunum sem hún dáði.

Við vottum Sigrúnu og Þórdísi og fjölskyldum þeirra okkar innilegustu samúð við fráfall okkar góðu frænku.

Frændsystkinin,

áður á Urðarstíg 10.

Ertu horfin? Ertu dáin?

Er nú lokuð glaða bráin?

Angurs horfi ég út í bláinn,

autt er rúm og stofan þín,

elskulega mamma mín.

Gesturinn með grimma ljáinn

glöggt hefur unnið verkin sín.

Ég hef þinni leiðsögn lotið,

líka þinnar ástar notið.

Finn hvað allt er beiskt og brotið,

burt er víkur aðstoð þín

elsku góða mamma mín. –

Allt sem gott ég hefi hlotið,

hefir eflst við ráðin þín.

Þó skal ekki víla og vola,

veröld þótt oss brjóti í mola,

það var alltaf hugsun þín,

elsku góða mamma mín. –

Og úr rústum kaldra kola

kveiktirðu skærust blysin þín.

Flýg ég heim úr fjarlægðinni,

fylgi þér í hinsta sinni,

krýp með þökk að kistu þinni,

kyssi í anda sporin þín,

elsku góða mamma mín. –

Okkur seinna í eilífðinni

eilíft ljós frá Guði skín.

(Árni Helgason.)

Þú styrktir mig á sorgarstundum og hlóst með mér á gleðistundum, en nú ert þú horfin og engin mun koma í þinn stað. Það er sárt að sakna en það sem við huggum okkur við á þessum erfiðum tímum er að núna er mamma loksins kominn til pabba og Benna og laus við allar þjáningarnar.

Ótal minningar streyma fram nú þegar að kveðjustund er komið og get ég ekki annað en þakkað fyrir þann tíma sem Guð gaf okkur með mömmu, þó svo að mér finnist sá tími allt of stuttur.

Allar góðu stundirnar og allt það sem þú hefur gefið mér er ógleymanlegt. Þér var annt um samferðafólk þitt og barst hag fjölskyldu þinnar alltaf fyrir brjósti, börnin þín og barnabörn skiptu þig öllu máli. Þó svo að áföll og veikindi væru tíður gestur hjá þér þá vorum það alltaf við sem vorum í fyrirrúmi og þú varst okkar stoð og stytta fram á síðustu stundu. Það er svo mikill missir að mömmu okkar og þeim styrk og leiðarljósi sem hún hefur veitt okkur. ,,Einstök" er orð sem lýsir þér best.

Elsku mamma, það sem þið pabbi gáfuð okkur systkinunum í veganesti er ómetanlegt. Að mínu mati áttum við þá allra bestu barnæsku sem foreldrar geta gefið. Pabbi og Benni minn, þið fóruð of fljótt og allt of snöggt, en nú er mamma komin til ykkar og ég veit innst í hjarta mínu að þið eruð saman komin og njótið samvistar á ný. Og fyrir það er ég þakklát.

Það er svo ótalmargt sem maður vill deila með öðrum á stundu sem þessari en erfitt er að setja það niður á blað, allt of margs að minnast.

Elsku, elsku mamma, við biðjum guð að geyma þig um leið og við kveðjum þig með söknuði.

Takk, takk fyrir allt.

Ég sendi þér kæra kveðju,

nú komin er lífsins nótt.

Þig umvefji blessun og bænir,

ég bið að þú sofir rótt.

Þó svíði sorg mitt hjarta

þá sælt er að vita af því

þú laus ert úr veikinda viðjum,

þín veröld er björt á ný.

Ég þakka þau ár sem ég átti,

þá auðnu að hafa þig hér.

Og það er svo margs að minnast,

svo margt sem um hug minn fer.

Þó þú sért horfin úr heimi,

ég hitti þig ekki um hríð.

Þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sig.)

Hvíl í friði, elsku mamma.

Þín

Þórdís (Systa)

Rokið og rigningin, sem skók og lamdi bílinn á leið okkar eftir Reykjanesbrautinni, var í takt við líðan mína eftir að hafa setið við dánarbeð kærrar vinkonu, Ástu Kristinsdóttur, á heimili hennar. Gráminn yfir öllu hafði lamandi áhrif um stund. En eins og alltaf í tilverunni skiptast á skin og skúrir, og skíma í vestrinu minnti á að dauðinn þarf ekki að vera það versta eða endalok alls heldur jafnvel nýtt upphaf og að hennar væri beðið og yrði vel fagnað í landi ljóss og yls.

Við kynntumst fyrir löngu, þá ungar konur með fjölskyldur og ung börn, þegar við urðum nágrannar í nýju fjölbýlishúsi. Það var í þá gömlu góðu daga þegar algengara var en nú að ungar mæður væru heimavinnandi. Við Ásta báðar nutum þeirra forréttinda og höfðum töluvert saman að sælda og fylgdumst að í dagsins önn. Mér finnst eins og alltaf hafi verið sól á þessum árum og ég minnist glaðra daga þegar við tvær og margar fleiri í okkar ágæta og barnvæna umhverfi, röðuðum okkur í sólbað í garðinum við húsið með barnaskarann allt um kring. Framtíðin var björt og áhyggjur og sorgir víðs fjarri.

Menn okkar Ástu, Hörður og Pétur, urðu einnig mestu mátar og það hélst óbreytt þó að fjölskyldurnar flyttu hvor í sína áttina. Heimsóknir á milli voru tíðar og minnist ég sérstaklega matarboðanna hjá Ástu og Pétri því þau voru bæði gestrisin mjög og nutu þess að veita.

Eins er mér minnisstætt þegar þau sátu hjá okkur kvöldstund fyrir tæpum 19 árum, og biðu hjá okkur eftir fréttum af fæðingu fyrsta barnabarns okkar og skáluðu svo með okkur í kaffi og líkjör fyrir nýfædda drengnum og nýfengnum ömmu- og afatitli okkar. Þau voru þá sjálf löngu orðin amma og afi.

Pétur var mikill öðlingsmaður og okkur mjög kær. Skyndilegt fráfall hans haustið 1992, svo og fráfall Benna sonar þeirra ári síðar, var fjölskyldunni og öllum þeim sem þekktu þá feðga mikið áfall. Ásta mætti þessum áföllum með undraverðri stillingu og reisn, líkt og hún mætti svo öðru andstreymi síðari ára. Hún bognaði kannski en brotnaði ekki. Stöðug og áralöng baráttan við krabbameinið tók sinn toll en hún neitaði að láta það buga sig. Hún vildi lifa lífinu lifandi, hafði gaman af að ferðast, taka þátt og hitta fólk og var óhrædd við að takast á við nýja hluti. Hún var einnig stolt og gerði miklar kröfur til sjálfrar sín, stóð á meðan stætt var. U.þ.b. 2 árum eftir að Ásta veiktist, seldi hún íbúðina sína í Kópavogi og flutti með Þórdísi dóttur sinni og hennar fjölskyldu til Þýskalands og tók þátt í undirbúningi að framtíðarheimili og atvinnu þeirra þar. Það tæpa ár sem Ásta gat heilsu sinnar vegna verið í Þýskalandi var henni mjög mikils virði og hún var stolt af því að hafa farið og spennt yfir hverju skrefi sem verkinu miðaði fram. En heilsu hennar hrakaði og hún varð að fara heim.

Sigrún og hennar fjölskylda búa í Vogunum og þótt mikið veik væri orðin ákvað Ásta að flytja í nágrenni við þau og keypti sér þar íbúð í smíðum. Það var ótrúlegt hvernig hún af áhuga og krafti valdi innréttingar og annað sem þurfti með. Það var eins og hún byggist við að búa þar um langa framtíð þó hún vissi betur en nokkur annar að tíminn yrði skammur, sem líka varð raunin, aðeins rúmt ár. Fjölskyldan gerði henni kleift að vera heima þar til yfir lauk, og vék Sigrún varla frá móður sinni síðustu vikurnar né heldur Systa þann tíma sem hún gat verið hér á landi.

Ásta vissi vel að hverju stefndi og var sátt. Það var helst að henni fyndist þetta taka of langan tíma. "Það er ekki eftir neinu að bíða, ég er búin með mína köku," sagði hún við mig fyrir stuttu. Hún trúði á framhaldslíf og að þeir feðgarnir Pétur og Benni biðu eftir henni hinum megin. Aðspurð svaraði hún mér fáum dögum fyrir andlátið: "Kvíðin? Nei, ég kvíði ekki fyrir dauðanum, það er bara eins og að taka skrefið yfir."

Ég vona að henni hafi orðið að trú sinni og að skíman í vestrinu á andlátsdeginum hafi einmitt verið að vísa henni veginn til framtíðarlandsins.

Að leiðarlokum þökkum við Höddi elskulegri vinkonu okkar samfylgdina og vináttuna og biðjum henni blessunar Guðs.

Innilegar samúðarkveðjur frá okkur og fjölskyldu okkar til Sigrúnar, Systu og fjölskyldna þeirra.

Freyja K. Þorvaldsdóttir.

Elsku besta amma okkar.

Okkur bræðurna langar til að þakka þér allar góðu stundirnar sem áttum við með þér. Í hjarta okkur verður þú alltaf höfuð fjölskyldunnar. Við munum ávallt minnast þín og prakkarinn í þér mun alltaf vera okkur minnisstæður.

Takk fyrir allt, amma mín.

Þótt jöklar og dalir skilji okkur að

ávallt skaltu muna það

að hvað sem gerist og hvert sem þú ferð

aldrei skal ég gleyma þér.

(Höf. ókunnur)

Georg og Alexander.