Brött Herdís lætur lítinn bilbug á sér finna. Hún segir starfið ekki sérstaklega hættulegt og að hún sé "mjög róleg yfir þessu öllu".
Brött Herdís lætur lítinn bilbug á sér finna. Hún segir starfið ekki sérstaklega hættulegt og að hún sé "mjög róleg yfir þessu öllu". — Morgunblaðið/Sverrir
Eftir Önnu Pálu Sverrisdóttur og Jóhann Bjarna Kolbeinsson HERDÍS Sigurgrímsdóttir, 26 ára fjölmiðlamaður, er á leið til starfa á vegum Íslensku friðargæslunnar í Bagdad.

Eftir Önnu Pálu Sverrisdóttur

og Jóhann Bjarna Kolbeinsson

HERDÍS Sigurgrímsdóttir, 26 ára fjölmiðlamaður, er á leið til starfa á vegum Íslensku friðargæslunnar í Bagdad. Þar mun hún starfa sem upplýsingafulltrúi NATO en Íslendingar hafa lagt til friðargæsluliða í stöðuna frá 2005. Herdís verður í Írak í hálft ár frá apríl næstkomandi og tekur við starfinu af Steinari Sveinssyni sem hefur gegnt starfinu í eitt ár. Áður gegndi Börkur Gunnarsson því í fimmtán mánuði.

NATO vinnur að þjálfun yfirmanna í íraska hernum með það að markmiði að heimamenn geti tekið við stjórn öryggismála. Upplýsingafulltrúinn sinnir miðlun upplýsinga út á við ásamt innra upplýsinga- og fréttastarfi. Hann býr á "græna svæðinu" í Bagdad sem er nokkuð öruggt, afgirt svæði.

"Þetta er auðvitað Írak," segir Steinar sem þar er núna. Hann ítrekar þó að starfsmenn NATO búi við eins mikið öryggi og hægt sé að tryggja. Um 200 manns starfa að verkefni NATO og enginn hefur slasast á tveimur og hálfu ári.

"Sjálf fer ég ekkert að rölta úti á götu," segir Herdís, enda séu allar nauðsynjar inni á græna svæðinu. Þar hafi enginn látist í nokkur ár.

Steinar segir þetta "skemmtilegt starf í fjölþjóðlegu umhverfi." Góð enskukunnátta Íslendinga skipti afar miklu, en ekki séu fulltrúar allra þjóða sleipir í henni. Dagarnir taki á sig ýmsar myndir og í gær hafi hann m.a. flogið með fjölmiðlamönnum og öðrum æðsta manni alþjóðaheraflans í Írak, til herakademíu og liðsforingjaskóla sem er tíu km utan við græna svæðið.

Herdís segir orðum aukið að starfið sé sérstaklega hættulegt. NATO vinni ekki á vígvellinum, heldur að uppbyggingu, sem sé áhugavert.

Í hnotskurn
» 29 stöður eru nú mannaðar af Íslensku friðargæslunni, í sex löndum. Þar af verða ellefu konur með Herdísi.
» Hún er 26 ára en mun gegna stöðu majórs. Anna Jóhannsdóttir, forstöðumaður friðargæslunnar, segir að tignin fylgi þessari stöðu og ekki sé vilji til að lækka hana, m.a. vegna aðbúnaðar.