"FJÖLSKYLDAN er mjög ánægð með þetta fyrirkomulag. Myndirnar eru nú komnar á sinn eina rétta stað," sagði Jóhannes Kjarval, barnabarn og alnafni listamannsins, við það tækifæri er Landsbankinn keypti verk eftir Jóhannes Kjarval; átta kolateikningar úr myndröðinni "Saltfiskfólkið".
Teikningarnar, sem fundust í Stýrimannaskólanum árið 1994, eru frummyndir hinna þekktu málverka listamannsins frá 1925 sem prýða veggi höfuðstöðva Landsbankans í Austurstræti 11.
"Saga Landsbankans og Jóhannesar Kjarvals er eins og allir vita samofin. Hér er um að ræða frummyndir af trúlega þekktasta listaverki frægasta málara Íslendinga. Þetta eru menningarverðmæti sem Landsbankinn er mjög stoltur af að varðveita. Ætlunin er að koma þessum glæsilegu teikningum fyrir á áberandi stað í nýrri byggingu Landsbankans og tengja þannig saman freskurnar í gamla bankanum og þessar teikningar í nýju bankabyggingunni," sagði Björgólfur Guðmundsson, formaður bankaráðs Landsbankans, við sama tækifæri.
Verðið á teikningum Kjarvals verður ekki gefið upp.