LITLU mátti muna að alvarlegt slys yrði á Reykjanesbrautinni í gær, þegar há skjólborð fuku af vörubíl og skullu á aðvífandi bílum. Lögregla og slökkviliðsmenn voru kallaðir á vettvang og varð að loka Reykjanesbraut að hluta á meðan unnið var á vettvangi við krefjandi aðstæður. Óhappið var lýsandi fyrir ástand víða á vegum í gær en grenjandi sunnanstormur og úrkoma reyndust erfið viðfangs og settu fyrirætlanir margra í uppnám. Þrátt fyrir mikinn veðurham og ófá óhöpp urðu ekki alvarleg slys, þótt litlu mætti muna á köflum. Til þess sjaldgæfa ráðs þurfti að grípa þegar veðrið var sem verst að loka Hellisheiði fyrir umferð í tvær klukkustundir en þá var allnokkur fjöldi ökumanna kominn í óviðráðanlegar aðstæður í blindbyl og hálku. Björgunarsveitarmenn voru sendir upp á heiði og aðstoðuðu fólk á bílum sínum.
Erfiðar aðstæður á Kjalarnesinu
Á Kjalarnesi sköpuðust erfiðar aðstæður vegna veðurofsans og lenti strætisvagn utan vegar og fólksbíll rann út af vegi og lenti í skurði.Sunnanstormurinn er síst yfirstaðinn því næstu daga er spáð hvössum vindi úr suðri, eða 18–23 metrum á sekúndu í dag, miðvikudag á vorjafndægrum. Á morgun, fimmtudag, er sömuleiðis spáð mjög hvassri sunnanátt og fram eftir vikunni allri er spáð þrálátum sunnanáttum.