Eftir Grétar Júníus Guðmundsson
gretar@mbl.is
STÆRSTA samheitalyfjafyrirtæki Indlands, Ranbaxy Laboratories, er hætt við að taka þátt í samkeppninni um samheitalyfjahluta þýska efna- og lyfjafyrirtækisins Merck. Frá þessu var greint í indverskum fjölmiðlum í gær. Keppendunum við Actavis hefur því fækkað.
Í frétt Reuters -fréttastofunnar segir að ástæðan fyrir því að Ranbaxy hafi hætt við sé sú að allt stefni í að verðið verði of hátt. Gengi hlutabréfa Ranbaxy hækkaði um 6% í kauphöllinni í Mumbai á Indlandi í kjölfar þessara frétta.
Bloomberg -fréttastofan sagði frá því í síðustu viku að Merck hefði listað upp fimm aðila sem fyrirtækið teldi helst koma til greina sem mögulega kaupendur samheitalyfjahluta fyrirtækisins. Þetta væru auk Ranbaxy, Actavis, ísraelska fyrirtækið Teva, hið bandaríska Mylan Laboratories, auk þess sem fjárfestingasjóðir og fleiri aðilar, sem hefðu tekið sig saman um að skila sameiginlegu tilboði, væru á þessum lista Merck. Segir Reuters indverskt fyrirtæki, Torrent Pharmaceuticals, nýlega hafa bæst í þann hóp.
Fjárhæðin sem nefnd hefur verið sem hugsanlegt kaupverð á samheitalyfjahluta Merck er frá 4 milljörðum evra og upp í allt að 6 milljarða. Reuters segir að indverskir sérfræðingar telji að þetta hátt verð myndi skapa mikla erfiðleika fyrir Ranbaxy. Markmið fyrirtækisins sé þó enn að verða á meðal fimm stærstu samheitalyfjafyrirtækjanna í heiminum. Stjórnendur Actavis hafa lýst því yfir að þeir stefni að því að verða í þriðja sæti á þeim markaði.