Sveinn Sigurðsson (svs@mbl.is): "Á örskömmum tíma hefur okkur næstum tekist að útrýma heilu vistkerfi í þessu landi en þeir, sem nú fara mikinn í umhverfisumræðunni, virðast ekki hafa af því neinar áhyggjur. Raunar opna þeir ekki munninn án þess að tala um "óspillta" náttúru þessa lands, þvert ofan í allar staðreyndir."

Umhverfismálin eru ofarlega á baugi um þessar mundir og ekki að ástæðulausu. Komið hefur út hver skýrslan eftir aðra þar sem fullyrt er, að mengun af mannavöldum valdi alvarlegum loftslagsbreytingum um allan heim. Okkur ber því skylda til að spyrna við fótum, hvort sem um er að ræða mengun frá stóriðju, bílum, skipum eða af öðrum toga. Það, sem ýmsum finnst þó dálítið skrítið, er, að aldrei er talað um að takast á við mesta umhverfisvandann í landinu, gróðureyðingu, ofbeit og uppblástur.

"Af öfugmælanáttúru sem íslendingum er lagin kappkosta sumir okkar nú að boða þá kenníngu innan lands og utan, einkum og sérílagi þó í ferðaauglýsingum og öðrum fróðleik handa útlendíngum, að Ísland sé svo landa að þar gefi á að líta óspilta náttúru. Margur reynir að svæfa minnimáttarkennd með skrumi og má vera að okkur sé nokkur vorkunn í þessum pósti. Hið sanna í málinu vita þó allir sem vita vilja, að Ísland er eina landið í Evrópu sem er gerspilt af mannavöldum. Því hefur verið spilt á umliðnum þúsund árum samtímis því að Evrópa hefur verið ræktuð upp."

Með þessum orðum hófst fræg grein eftir Halldór Laxness, sem hann birti í Morgunblaðinu á gamlársdag 1970. "Hernaðurinn gegn landinu" hét hún en þótt hún vekti mikla athygli, fór því fjarri, að henni væri tekið fagnandi. Svo bágt fékk Nóbelsskáldið fyrir, að sagt er, að bækur þess hafi verið hálfgerð bannvara í sumum plássum lengi á eftir.

Hálfur fjórði áratugur er liðinn frá því greinin birtist en síðan hefur lítið breyst. Hernaðinum gegn landinu hefur verið haldið áfram sleitulaust og nú sem aldrei fyrr glymur í eyrum okkar síbyljan um "óspillta", "óspjallaða" og "ósnortna" náttúru þessa lands. Það nýja er hins vegar, að nú kemur hún frá fólki, sem segist vera uppfullt af umhverfisáhuga og ást á landinu.

Hvernig er svo umhorfs hér í þessari "paradís" hinnar nýju umhverfisvakningar?

Ísland er land í tötrum. 56% af upphaflegu gróðurlendi eru horfin og afgangurinn víða illa á sig kominn. Þegar gróðurinn hverfur, hverfur kolefnisbindingin en í stað þess hefst rotnun lífrænna leifa í jarðveginum. Upp úr honum streyma síðan gróðurhúsalofttegundirnar. Við höfum komið okkur upp eyðimörkum þrátt fyrir næga úrkomu.

Lítum á mýrarnar. Af upphaflegu votlendi í þessu landi erum við búin að eyðileggja upp undir 77%! Ástandið er misjafnt eftir landshlutum en verst á Suðurlandi. Þar eru eftir aðeins 3%. Þegar mýrar eru ræstar fram, breytast þær í mikilvirka verksmiðju og afurðin er gróðurhúsalofttegundir, koltvísýringur (CO 2 ), metan eða mýragas (CH 4 ) og díköfnunarefnisoxíð (N 2 O). Rannsóknir sýna, að þessi losun er veruleg og umtalsverð af þeirri síðastnefndu. Hver N 2 O-sameind er 310-sinnum skaðlegri sem gróðurhúsalofttegund en hver CO 2 -sameind.

Með undirritun okkar undir Rammasamning Sameinuðu þjóðanna og Kyoto-bókunina við hann skylduðum við okkur til að greina frá allri mengun af mannavöldum hér á landi, ekki bara frá stóriðju, bílum, skipum og öðru slíku. Rannsókn á mengun frá því landi, sem við höfum eyðilagt, stendur nú yfir í samvinnu við háskólann í Gautaborg og viðbúið, að niðurstöðurnar verði fróðlegar. Það er nefnilega ekki ólíklegt, að mengun úr illa förnu landi sé meiri en frá allri annarri starfsemi okkar.

Laxness varaði í grein sinni við eyðileggingu votlendisins en það hafði ekki meiri áhrif en svo, að hún naut sérstakra ríkisstyrkja til 1998. Hann lýsti því líka hvernig landið væri eyðilagt með stjórnlausri beit og fordæmdi, að virkjunarfyrirtækjum væri veitt fríbréf til að "darka í landinu eins og naut í flagi". Vinstri grænir vitna oft til þess síðastnefnda en nefna aldrei hitt. Það passar þeim ekki.

Hvað þýðir þetta? Jú, á mettíma, innan við öld, erum við næstum búin að útrýma heilu vistkerfi. Ekki þarf að fjölyrða um afleiðingar þess fyrir lífríkið, t.d. fjölmargar fuglategundir.

Þrátt fyrir þetta er ekkert lát á söngnum um "óspilltu" náttúruna, hjá Framtíðarlandinu, hjá vinstri grænum og öðrum þeim, sem vilja láta á sér bera í "umhverfisvakningunni". Heiðarlegra væri að hugleiða það í alvöru hvort við erum ekki með mestu umhverfissóðum í heimi. Meðferðin á landinu bendir eindregið til þess.

Bjarni Harðarson, sem nú er í framboði fyrir Framsóknarflokkinn á Suðurlandi og orðinn umhverfisvænn í takt við tíðarandann, skrifaði nýlega grein í Blaðið og fagnaði því sérstaklega, að "öfgar" "leikkonu í Reykjavík" skyldu ekki hafa orðið ofan á í umhverfisumræðunni. Hér á Bjarni við Herdísi Þorvaldsdóttur en hún og Margrét Jónsdóttir á Akranesi hafa reynt að opna augu þessarar þjóðar fyrir þeim hermdarverkum, sem unnin hafa verið í íslenskri náttúru. Það eru "öfgar" að vekja athygli á því segir Bjarni og það skyldi þó aldrei vera, að sú skoðun hans megi heita eins konar samnefnari fyrir hina nýju umhverfisvakningu.

Nauðsynlegt er að berjast gegn því, að Ísland verði að einhverri meiriháttar álstöð en umhverfisvakning, sem hvorki vill né þorir að horfast í augu við mesta umhverfisvandann í þessu landi á ekki framtíðina fyrir sér.

Bullið um "óspilltu" náttúruna mun glymja í eyrum okkar fram að kosningum en síðan fer mestur vindurinn úr. Hann mun líða upp í loftið með menguninni frá því landi, sem við höfum gerspillt.

Sveinn Sigurðsson (svs@mbl.is)

Höf.: Sveinn Sigurðsson (svs@mbl.is)