Paul Torday – Salmon Fishing in The Yemen. Wedenfeld & Nicholson gefa út 2007.

Það er vitanlega galin hugmynd að hefja laxarækt í Jemen, gersamlega galin, en það er nú svo að þeir sem ekki eru til í galna hluti sitja fastir í sama farinu alla ævi. Það er í það minnsta rauði þráðurinn í þessari skondnu bók. Hún segir frá steinrunnum fiskifræðingi sem lifir í ást- og ástríðulausu hjónabandi og er bara býsna sáttur við það. Þegar honum er þröngvað til að taka þátt í verkefni sem miðar að því að gera ársprænu í Jemen að laxveiðiá koma brestir í skelina sem hann hefur brynjað sig með og út úr glufunum gægist hugsjónamaður sem trúir á drauma, líka galna drauma.

Smám saman tekur þessi galni draumur á sig mynd, að búa til laxveiðiá uppi í fjöllum á Arabíuskaga, og allir hrífast með, líka forsætisráðherra Breta og fjölmiðlar, sem verður eins konar aukasaga í sögunni því breskir stjórnmálamenn og fjölmiðlafulltrúar þeirra fá til tevatnsins.

Bókin er sett saman úr tölvupóstum, skýrslum, minnismiðum, fréttaúrklippum og svo má áfram telja, einkar haganleg úrklippubók. Torday tekst afskaplega vel að sýna okkur hvernig aðalpersóna bókarinnar, fiskifræðingurinn Alfre Jones, áttar sig smám saman á því að það eina sem menn eiga að trúa á er hið ómögulega – credo quia absurdum, ég trúi því það er ótrúlegt.

Árni Matthíasson

Höf.: Árni Matthíasson