Daisaku Ikeda
Daisaku Ikeda
Dr. Daisaku Ikeda skrifar um sameiginlegar rætur alls mannkyns: "Ég trúi því að öruggasta leiðin til að sigrast á vandamálum kynþáttamismununar sé mannúðarbylting"

LÍFIÐ er fjölbreytt. Mannkynið er fjölbreytilegt því þannig er eðli lífsins.

Því miður hefur skoðanamunur á grunni menningar, þjóðernis og trúarbragða hvað eftir annað verið notaður til að sundra og aðgreina fólk með því að draga það í dilka og mismuna ákveðnum hópum manna. Sagan hefur sýnt okkur hvernig meðlimum í þeirri fjölskyldu sem mannkynið er, hefur verið sundrað og þeir dregnir inn í síendurtekin átök.

Ég dvaldi í Bandaríkjunum um skeið og þá varð ég vitni að atburði í almenningsgarði þar sem bandarískum dreng af afrískum uppruna var meinað að taka þátt í leik hvítra drengja á svipuðu reki og hljóp hann í burtu reiður og niðurlægður. Þarna fannst mér ég sjá bregða fyrir hinu myrka hyldýpi fordóma sem að baki lágu. Þetta atvik fékk mig til að íhuga af kostgæfni vandamál kynþáttafordóma.

Ólíkir menningarheimar mætast ekki alltaf á friðsamlegum nótum. Hvað getum við gert til að skapa jákvæð, einlæg samskipti milli manna?

Búddisminn kennir að við verðum að leita samhljóms á mun dýpri vettvangi. Við verðum að þroska með okkur slíka innri samúð að hún gerir okkur kleift að upplifa hið sammannlega til þess að yfirstíga það sem aðgreinir okkur frá öðrum. Hér er ekki verið að afneita einstaklingseðlinu. Heldur er verið að tala um að stækka þá takmörkuðu sjálfsvitund okkar, sem er fjötruð í sjálflægni, í átt að æðri sjálfsvitund sem er eins stórkostleg og takmarkalaus og alheimurinn.

Ég átti eitt sinn samtal við Bandaríkjamann af afrískum uppruna sem sagði mér að hann hefði alltaf verið heltekinn af uppruna sínum. Hann gat ekki losnað undan þeirri hugsun að fólk hans hafði verið flutt til Ameríku sem þrælar. Hann sagði "Ég fyrirleit hvíta Bandaríkjamenn. Þegar ég minntist þess hvernig við, foreldrar okkar, afar, ömmur og forfeður vorum arðrænd, svívirt og mismunað af hvíta manninum, var mér gjörsamlega ómögulegt að láta mér líka vel við þá. Frá því í æsku var ég alltaf minntur á það þegar ég var lagður í einelti eða varð fyrir mismunun að ég var svartur. Ég fór jafnvel að fyrirlíta það blóð sem rann í æðum mínum. Hins vegar þegar ég kynntist síðar sjónarmiðum búddismans um innbyrðistengsl allra lifandi vera, fór ég að sjá kynþáttaágreining í réttu samhengi. Ég gerði mér grein fyrir því að ég hafði eingöngu einblínt á ólíkan húðlit okkar."

Það er blekking að reyna að finna sameiginlegar rætur okkar í afmörkuðum kynþætti eða þjóðfélagshóp. Slík samsvörun er langt frá því að geta orðið sameiginlegur "vettvangur lífsins" sem við getum öll átt hlutdeild í, heldur mun hún aðeins auka bilið milli okkar og annarra og verða undirliggjandi orsök ágreinings og átaka. Ef meðlimir einstakra þjóðfélagshópa aðskilja sig frá öðrum og leita aðeins sinna eigin róta og uppruna, getur samfélagið vissulega sundrast í ótal einingar, sem aðgreina og aðskilja jafnvel nágranna, með hörmulegum afleiðingum.

Það sem er nauðsynlegt í dag er djúpstæð umbreyting á skilningi okkar á því hvað það merkir að vera mennskur. Við megum ekki láta þjóðerni okkar eða þjóðfélagshóp íþyngja okkur. Við megum ekki verða þrælar okkar eigin gena. Við búum öll yfir takmarkalausum og stórkostlegum möguleikum. Hver einstaklingur er hluti af og tilheyrir alheiminum.

Það eru margir sem hafa mátt þola miklar þjáningar, beiskar sorgir og erfiðleika vegna mismununar. Enda þótt lagasetningar eða aðrar endurbætur geti veitt einhverja vörn gegn mismunun, munu þær ekki færa fólki hamingju vegna þess að undirliggjandi orsökina er að finna í fordómum og hlutdrægni djúpt í hjarta fólks. Mismunun mun halda áfram að birtast meir og meir í enn auvirðilegra formi nema fólk breyti hugarfari sínu.

Það er afar mikilvægt að hver einstaklingur rækti með sér nýja og dýpri sýn á manninn. Sýn sem leggur áherslu á eðlislæga virðingu og jöfnuð allra manna.

Ég trúi því að öruggasta leiðin til að sigrast á vandamálum kynþáttamismununar sé mannúðarbylting. Mannúðarbylting er innri umbreyting á hugarfari einstaklings þar sem sjálflægni, sem réttlætir undirokun á öðrum, er leyst af hólmi af samúðarfullu viðhorfi sem metur aðra jafnt á við sjálfa sig og leggur sig fram við að efla friðsamlega sambúð allra manna.

Mismunun er algjörlega siðlaus. Hugir þeirra, sem mismuna öðrum eru svo fastir í neti blekkinga að þeir særa aðra jafnt sem sjálfa sig. Ég hef alltaf trúað því að við ættum að viðurkenna skoðanamun og þess vegna ættum við að erfiða enn meira til að læra að skilja og kynnast hvert öðru sem manneskjum. Þeir sem geta notið fjölbreytileikans og uppgötvað hina miklu fegurð og gildi sem í honum felast eru meistarar lífsins.

Jörðin fóstrar okkur öll. Hún nærir alla menn án aðgreiningar. Frá jarðvegi hennar flæðir lifandi uppspretta hreinnar umhyggju. Ef við getum fundið okkar dýpstu rætur í þessari umvefjandi uppsprettu alls lífs þá mun yfirborðslegur mismunur kynja og kynþátta ekki lengur aðskilja okkur heldur gera okkur öll ríkari.

Höfundur er heiðursforseti Soka Gakkai International, stofnandi Soka háskólanna og handhafi friðarverðlauna Sameinuðu þjóðanna.

Höf.: Dr. Daisaku Ikeda