Eftir Andra Karl andri@mbl.

Eftir Andra Karl

andri@mbl.is

"HÖFUÐATRIÐIÐ er að þeir segja það, strákar sem keyra hjá fyrirtækjum, að þeim sé bannað að læsa," segir Ágúst Ísfjörð ökukennari sem telur töluvert bera á því að festingum gáma við ökutæki sé ekki læst, þannig að þeir velti af tengivagninum í stað þess að taka hann með sér, þegar slíkar aðstæður koma upp. Hann hefur bent lögreglu á vandamálið.

Á mánudag stöðvaði lögreglan á Suðurnesjum ökumann vöruflutningabifreiðar einmitt fyrir að ganga ekki frá festingum gáms á bifreiðinni. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni er talsvert um að bifreiðastjórar gleymi að festa gámana og segir varðstjóri að þetta sé ekki nýtt fyrirbæri. "Ef þú skoðar gámaflutningabíla í Reykjavík sérðu hvað við erum að tala um," segir varðstjórinn sem telur meira um ófesta gáma á höfuðborgarsvæðinu en á Suðurnesjum en þar hefur verið gert átak. Hann segir engin slys hafa orðið vegna ófestra gáma að undanförnu en menn geti rétt ímyndað sér hvað gerist ef slíkur gámur fellur á bifreið.

Festist með fjórum farmlásum

Ágúst segist telja að um tryggingavandamál sé að ræða því að ef tengivagninn skemmist fæst hann ekki bættur nema búið sé að kaskótryggja hann. "Ekki er hægt að kaskótryggja vagninn nema foktryggja hann einnig og svona vagn kostar 11–13 milljónir króna. Við erum þá að tala um 120–150 þúsund króna iðgjöld á ári, og ef ég á tíu vagna þá er upphæðin orðin gríðarleg," segir Ágúst sem kennir stjórnun stórra ökutækja. Hann segist fara mjög vel yfir þessi atriði með nemendum sínum og brýna fyrir þeim að keyra ekki nema með gámana vel festa.

Í reglugerð um hleðslu, frágang og merkingu farms kemur fram að gáma skuli festa með a.m.k. fjórum farmlásum sem næst hornum. Farmlásar eru skilgreindir í reglugerðinni sem "vélrænar festingar sem festa farm við ökutæki og eru skrúfaðar, klemmdar eða þess háttar".