Porsche Hraðskreiðir bílar eru ekki vel séðir í Nottinghamskíri.
Porsche Hraðskreiðir bílar eru ekki vel séðir í Nottinghamskíri. — Morgunblaðið/Kristinn
SÝSLUMAÐURINN í Nottinghamskíri á Englandi, söguslóðum Hróa hattar, hefur skorið upp herör gegn ökuföntum og eigendum hraðskreiðra bíla.

SÝSLUMAÐURINN í Nottinghamskíri á Englandi, söguslóðum Hróa hattar, hefur skorið upp herör gegn ökuföntum og eigendum hraðskreiðra bíla. Til að uppræta hávaða sem fylgir metingi er slíkir mætast hefur verið gripið til þess ráðs að banna samkomur hraðskreiðra bíla.

Frá og með nýliðnum mánaðamótum og fram í júní árið 2009 verða hvers konar samfundir fimm eða fleiri akandi eða kyrrstæðra bíla bannaðir í Nottinghamskíri. Mega þeir heldur ekki aka saman í hóp eða reyna með sér á vegum.

Til bannsins er gripið til að auka á umferðarsiðferði í sýslunni sem þótt hefur heldur losaralegt. Gerð var mun vægari ráðstöfun í október í fyrra sem lítinn árangur hefur borið. Lögregla mun fylgjast með því í eftirlitsmyndavélum sem víða er að finna hvort bannið sé virt. Getur hún gripið fljótt inn í rísi einhver "Hrói" upp gegn sýslumanni.

Þannig sást um miðjan mánuð í myndavélum til þriggja unglinga spreyta sig á mótorhjóli í bæ nokkrum í sýslunni. Lögregla skundaði á staðinn og í ljós kom að þótt eigandi hjólsins væri tryggður til að aka því voru hinir unglingarnir það ekki. Gerði hún mótorhjólið upptækt og krafðist 200 punda lausnargjalds, auk þess sem eigandinn var sektaður um 80 pund á staðnum fyrir "óviðeigandi orðbragð".