— Morgunblaðið/G. Rúnar
Eftir Ásgeir H. Ingólfsson asgeirhi@mbl.is HARPA Þorvaldsdóttir hóf nám í Menntaskólanum á Akureyri haustið 1996.

Eftir Ásgeir H. Ingólfsson

asgeirhi@mbl.is

HARPA Þorvaldsdóttir hóf nám í Menntaskólanum á Akureyri haustið 1996. Blaðamaður var einn fjórðubekkjarníðinganna sem busaði hana og bekkjarfélaga hennar en að kvöldi busadags var nýnemunum boðið í partí þar sem fram fór hefðbundið gítargutl og misfalskur söngur undir. En svo laumar þessi litla snót sér inn og það sem eftir var kvölds létum við hin okkur flest nægja að hreyfa varirnar og syngja eins lágt og við gátum svo við heyrðum betur í þessari mögnuðu söngkonu sem við höfðum eytt vikunni í að kvelja.

Ég hitti svo Hörpu aftur rúmum áratug síðar, nánar tiltekið í gær. Hún heldur á vínglasi og er að fagna milljóninni sem hún hafði hlotið í styrk úr Söngmenntasjóði Marinós Péturssonar, en styrkurinn er námsstyrkur enda söngnám ekki ódýrt. En hvernig byrjaði þessi klassíski söngferill? "Ég byrjaði að læra söng 18 ára gömul en hafði lengst af verið leika mér í poppi."

Evróputúrinn endaði í Salzburg

Fyrir tveimur árum fór hún svo í klassíkina af fullri alvöru og flutti síðasta haust til Salzburgar með fjölskyldu sinni. Ástæðan var söngkennari að nafni Martha Sharp. "Ég fann kennarann minn þar og leist ótrúlega vel bæði á hana og borgina. Martha er einstök manneskja, óskaplega fær kennari og færir manni ekkert á silfurfati heldur lætur mann vinna. Virkilega flott kona í alla staði."

Áður hafði Harpa þó verið einn tíundi af rödd Íslands í sönghópnum Raddir Evrópu. "Þetta var eins árs verkefni, rosalegur góður skóli. Við vorum tíu saman frá Íslandi og eins voru tíu saman frá hinum menningarborgunum átta (Avignon, Bergen, Bologna, Brüssel, Kraká, Helsinki, Prag og Santiago de Compostela). Við sungum í öllum borgunum nema Prag og líka í Tallinn þannig að þetta var einn allsherjar Evróputúr. Á tónleikunum sungum við verk frá hverju landi."

Harpa segir afar dýrmætt að fá þennan styrk enda tónlistarnám afskaplega dýrt og þessa milljón hefði hún þurft að fá að láni frá LÍN að öðrum kosti. Hún hefur nú í haust tveggja ára mastersnám við óperudeild Mozarteum í Salzburg, skóla sem þarf að hafna margfalt fleirum en þeim fáu sem komast inn. Auk þess er á döfunni að syngja í Þýskalandi og ljóst að það verður nóg að gera næstu tvö árin. Eftir það heldur harkið þó áfram. "Óperusöngvarar þurfa flestallir að syngja lengi út um allar trissur áður en þeir fá nokkra fasta vinnu," fullyrðir Harpa sem líst þó ágætlega á tilhugsunina, enda virðist henni ekki finnast neitt leiðinlegt að syngja.

Harpa syngur í Gamla bíói

SÓPRANSÖNGKONAN Harpa Þorvaldsdóttir söng í gær fjögur lög fyrir gesti eftir að hafa fengið afhentan styrk úr Söngmenntasjóði Marinós Péturssonar. Allt gerðist þetta í Gamla bíói sem nú hýsir Íslensku óperuna.
Í hnotskurn
» Söngmenntasjóður Marinós Péturssonar hefur úthlutað styrkjum í ellefu skipti frá árinu 1992 en takmark sjóðsins er að styrkja efnilega íslenska söngvara til framhaldsnáms erlendis.
» Marinó Pétursson fæddist 21. febrúar árið 1908 í Þistilfirði, elstur sjö barna. Hann rak lengi útgerðarfyrirtæki en eyddi síðustu æviárunum sem trillukarl á Bakkafirði.
» Hann dó barnlaus en spilaði reglulega tónlist í frístundum og kenndi meðal annars börnum á Bakkafirði á píanó síðustu æviárin. Því ákvað hann að ánafna allar sínar eigur Söngmenntasjóðnum sem var fyrst veitt úr árið 1992 að honum nýlátnum.
» Í ár bárust fimmtán umsóknir sem allar töldust mjög frambærilegar.