[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Íslenska stúlknalandsliðið í golfi tapaði 4-1 fyrir Englendingum í fyrstu umferð holukeppninnar á EM í Noregi í gær.

Íslenska stúlknalandsliðið í golfi tapaði 4-1 fyrir Englendingum í fyrstu umferð holukeppninnar á EM í Noregi í gær. Jafnt var eftir fjórmenninginn, Ragna Björk Ólafsdóttir og Heiða Guðnadóttir unnu sinn leik 1/0 en Elísabet Oddsdóttir og Valdís Þóra Jónsdóttir töpuðu 1/0 eftir að hafa verið yfir lengst af. Allir þrír tvímenningsleikirnir töpuðust síðan síðdegis, Valdís Þóra 4/3, Elísabet 2/1 og Ragna Björk 3/2. Stúlkurnar léku aðeins níu holur í tvímenningnum þar sem fresta varð leik vegna mikillar rigningar.

Michael Ball skrifaði í gær undir nýjan tveggja ára samning við Manchester City. Þessi 27 ára vinstri bakvörður kom til City frá PSV í janúar og þá var gerður við hann hálfs árs samningur

Þýska liðið Hertha Berlín samþykkti í gær tilboð Tottenham í Kevin-Prince Boateng , hinn tvítuga miðjumann. Tilboð Tottenham hljóðaði upp á 620 milljónir króna. Hertumenn höfnuðu á dögunum tilboði frá Sevilla í Boateng.

Gengið var frá fjögurra ára samningi milli Liverpool og ísraelska landsliðsmannsins Yossi Benayoun , en hann hefur leikið með West Ham síðustu tvö árin. Eggert Magnússon og félagar í West Ham fá sem nemur 615 milljónum króna fyrir kappann.

Spænska liðið Sevilla og enska liðið Chelsea hafa komist að samkomulagi um að hollenski varnarmaðurinn Khalid Boulahrouz verði í láni hjá Sevilla á næstu leiktíð. Hann gekk til liðs við Chelsea frá þýska liðinu Hamborg fyrir sjö milljónir punda fyrir ári en hefur átt erfitt uppdráttar hjá Chelsea. Jose Mourinho, stjóri Chelsea, hefur verið ósáttur við frammistöðu hans og tók hann ekki með til Bandaríkjanna í æfingaferð í vikunni, en Boulahrouz kom við sögu í 23 leikjum Chelsea á síðustu leiktíð.

F ilippo Pozzato frá Ítalíu kom fyrstur í mark í fimmta áfanga Frakklandshjólreiðanna, Tour de France , í gær. Þetta er í annað sinn sem hann kemur fyrstur í mark í einum áfanga keppninnar en síðast gerði hann það árið 2004.

Svissneski hjólreiðakappinn Fabien Cancellara heldur forystunni enn, en hann hjólar fyrir danska CSC- liðið sem Bjarne Riis stjórnar, en Daninn sigraði í keppninni 1996.

Búið er að ákveða að Indianapolis verði ekki vettvangur bandaríska kappakstursins í Formúlu 1 á næsta ári. Ekki er raunar ákveðið að keppt verði vestra, en ef það verður þá er ljóst að ekki verður keppt í Indianapolis.