Myndavélasafn Ottó varðveitir fjölmargar myndavélar og önnur ljósmyndatæki sem hann hefur eignast um ævina og sýnir í Sögusetrinu.
Myndavélasafn Ottó varðveitir fjölmargar myndavélar og önnur ljósmyndatæki sem hann hefur eignast um ævina og sýnir í Sögusetrinu. — Morgunblaðið/Steinunn Ósk Kolbeinsdóttir
Eftir Steinunni Ósk Kolbeinsdóttur Hvolsvöllur | Opnuð hefur verið sýning á ljósmyndum Ottós Eyfjörð í Sögusetrinu á Hvolsvelli. Ottó er sannkallaður alþýðulistamaður og náttúrubarn.

Eftir Steinunni Ósk Kolbeinsdóttur

Hvolsvöllur | Opnuð hefur verið sýning á ljósmyndum Ottós Eyfjörð í Sögusetrinu á Hvolsvelli. Ottó er sannkallaður alþýðulistamaður og náttúrubarn.

Áhugi Ottós á ljósmyndun er sprottinn af þörf hans fyrir að teikna og mála. "Þegar ég var strákur í Vestmannaeyjum var ég sífellt að teikna og mála. Ég eignaðist mína fyrstu myndavél um 11 ára gamall í þeim tilgangi að taka myndir af mótívum til að mála eftir.

Áhuginn á ljósmyndunum óx síðan með árunum og mig fór að langa til að eignast alvöru myndavél," segir Ottó sem dó ekki ráðalaus. Á þessum árum var hann farinn að keyra fyrir Kaupfélagið og hóf að safna rafgeymum á sveitabæjunum. Vinur hans fór síðan með þá til Þýskalands og keypti forláta myndavél fyrir Ottó.

Fermingarmyndir í uppáhaldi

"Þetta var Vogländer-vél sem ég eignaðist þarna og má segja að þetta hafi verið mín fyrsta alvöru myndavél, hún var með sérstökum takka til að hægt væri að spóla nógu hratt svo hægt væri að taka margar myndir á skömmum tíma. Seinna eignaðist ég Hasselblad, samskonar vél og farið var með til tunglsins. Ég tók mest á þessa vél og man ég að eftir að ég fór að taka myndir fyrir Morgunblaðið fannst mér alltaf að mig vantaði aðdráttarlinsu. Ég hafði ekki ráð á að kaupa slíka linsu og sagði Matthíasi Johannessen ritstjóra frá þessu. Hann sagðist myndu útvega mér linsuna, ég tæki bara myndir fyrir."

Ottó ferðaðist mikið um hálendi Íslands með ferðafélagi sem hét Áfangar. Tók hann þá mikið af myndum af hálendinu. Hann tók einnig myndir af öllum sveitabæjum í Rangárvallasýslu og er hægt að kaupa þær myndir af honum á geisladiskum. Mannlífið á Hvolsvelli var aðalmyndefni Ottós árum saman og á hann þúsundir mynda af ýmsum atburðum í gegnum tíðina, bæði opinberum viðburðum og einkasamkvæmum, og víst er að margir hafa gaman af að upplifa gamla tíma í gegnum myndir hans.

Aðspurður um uppáhaldsmyndefni sagðist Ottó alltaf hafa haft gaman af því að taka mannamyndir, en hann rak stúdíó heima hjá sér árum saman. "Fermingarmyndirnar voru mitt uppáhald, ég hafði gaman af því að taka myndir af fermingarbörnum bæði í kyrtlunum og í fermingarfötunum og reyndi alltaf að vanda mig sérstaklega við þessar tökur og taka margar myndir svo nóg væri að velja úr."

Ottó hefur ekki aðeins tekið myndir, hann framkallaði alla tíð sjálfur, svarthvítar myndir, litmyndir og litskyggnur. "Ég framkallaði litskyggnur á þeim tíma sem slíkt var aðallega gert í útlöndum, þetta var mjög flókið en ég held að ég hafi haft þetta á þrjóskunni. Ef eitthvað mislukkaðist hélt ég bara áfram því ég vissi að úr því það var hægt að gera þetta ætti ég líka að geta gert þetta. Þannig tókst mér að þreifa mig áfram og læra tæknina."

Stafræn bylting

Í dag hefur Ottó tekið stafrænu tæknina í sínar hendur. Hann tekur enn dálítið af myndum heima hjá sér en mest er hann að laga gamlar myndir, t.d. fyrir Byggðasafnið á Skógum. "Ég á fullkominn skanna og hef skannað nokkuð af filmusafni mínu, einnig á ég góðan litaprentara og get prentað út myndir allt að A3. Þetta er svo mikil bylting að það er ekki hægt að bera þetta saman. Eftir að stafræna tæknin kom til sögunnar fór ég á námskeið og lærði að taka stafrænar myndir og vinna í Photoshop," segir hinn síungi Ottó sem lætur Elli kellingu ekki bíta á sér en hann verður áttræður á næsta ári. Sýning Ottós í Sögusetrinu stendur til 20. júlí.
Í hnotskurn
» Ottó Eyfjörð Ólason er fæddur í Vestmannaeyjum á árinu 1928. Hann fluttist í Landsveitina um fermingu og á Hvolsvöll 1947.
» Hann starfaði hjá kaupfélaginu á Hvolsvelli í hálfa öld, lengst af sem bílstjóri.