Ísland Alcan í Straumsvík verður hugsanlega hluti af Rio Tinto.
Ísland Alcan í Straumsvík verður hugsanlega hluti af Rio Tinto. — Morgunblaðið/Ómar
ENSK-ástralska námafélagið Rio Tinto hefur lagt fram yfirtökutilboð í kanadíska álfyrirtækið Alcan, móðurfélag Alcan á Íslandi sem rekur álverið í Straumsvík. Hljóðar tilboðið upp á 38,1 milljarð Bandaríkjadala, eða liðlega 2.

ENSK-ástralska námafélagið Rio Tinto hefur lagt fram yfirtökutilboð í kanadíska álfyrirtækið Alcan, móðurfélag Alcan á Íslandi sem rekur álverið í Straumsvík. Hljóðar tilboðið upp á 38,1 milljarð Bandaríkjadala, eða liðlega 2.300 milljarða íslenskra króna. Í yfirlýsingu frá Rio Tinto kemur fram að stjórn Alcan hafi samþykkt tilboðið. Talsmenn Alcan á Íslandi vilja að svo stöddu ekki tjá sig um þann möguleika að verða hluti af Rio Tinto.

Alcoa dregur tilboð sitt til baka

Tilboð Rio Tinto er um 33% hærra en fjandsamlegt yfirtökutilboð bandaríska álfyrirtækisins Alcoa, móðurfélags Fjarðaáls á Reyðarfirði. Alcoa lagði upphaflega fram tilboð í allt hlutafé Alcan í maímánuði síðastliðnum. Það átti að renna út í þessari viku en var framlengt til 10. ágúst næstkomandi. Stjórn Alcan hafnaði tilboði Alcoa á sínum tíma.

Sérfræðingar á fjármálamarkaði voru á því að það myndi reynast erfitt fyrir Alcoa að bjóða betur og þeir höfðu rétt fyrir sér því seint í gærkvöldi tilkynnti Alcoa að það hefði dregið tilboð sitt til bak.

Fram kemur í frétt á fréttavef breska blaðsins Daily Telegraph að verði af samruna Rio Tinto og Alcan verði það stærsti samruni námafélaga í heiminum til þessa. Sameinað fyrirtæki, sem muni væntanlega heita Rio Tinto Alcan, verði stærsta álfyrirtæki í heimi, stærra en United Company RusAl, sem varð til í mars síðastliðnum við samruna rússnesku álfyrirtækjanna RusAl og Sual og svissneska hráefnisfyrirtækisins Glencore International. Alcoa verði því þriðja stærsta álfyrirtækið.

Viðræður við Rio Tinto

Rio Tinto hefur raunar komið við sögu hér á Íslandi en seint á níunda áratugnum áttu íslensk stjórnvöld viðræður við erlend fyrirtæki um stóriðju á Íslandi og var Rio Tinto eitt þeirra og var þá einkum horft til þess að reisa nýtt álver í Straumsvík þar sem Alusuisse hafði þá ekki tök á að stækka álverið þar. Þá áttu fulltrúar iðnaðarráðuneytisins á svipuðum tíma einnig viðræður við Rio Tonto möguleikann á því að reisa hér kísilmálmverksmiðju.

Rio Tinto er með námavinnslu í sex heimsálfum en það varð til við samruna enska fyrirtækisins Rio Tinto plc. og ástralska fyrirtækisins Rio Tinto Limited. Breski hlutinn var stofnaður 873 til að vinna kopar á suðurhluta Spánar en sá ástralski árið 1905, og hét þá The Consolidated Zinc Corporation og vann sink í Nýja Suður-Wales í Ástralíu.