Kröftugur Geysilega kröftugur bíll en á sama tíma afskaplega öruggur enda útbúin góðum bremsum frá M3 CSL.
Kröftugur Geysilega kröftugur bíll en á sama tíma afskaplega öruggur enda útbúin góðum bremsum frá M3 CSL.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hönnunarstefna Chris Bangle hefur tryggt BMW mikla sölu hin síðustu ár en hönnun hans hefur tryggt frískleika BMW svo um munar og var engin vanþörf á eftir heldur hversdagslega bíla í lok níunda áratugarins.

Hönnunarstefna Chris Bangle hefur tryggt BMW mikla sölu hin síðustu ár en hönnun hans hefur tryggt frískleika BMW svo um munar og var engin vanþörf á eftir heldur hversdagslega bíla í lok níunda áratugarins. Fáir bílar fanga stefnu Bangle eins vel og BMW Z4 og er hinn nýi M Coupé, þakútgáfa Z4-bílsins, einnig efstur í fæðukeðjunni ef svo mætti segja þar sem M Coupé er án efa mesti harðkjarnabíllinn sem BMW framleiðir í dag.

Bílablaðið fékk á dögunum slíkan bíl til reynsluaksturs og gat tekið hann, nokkurn veginn, til kostanna í sól og blíðu.

Síðasta M-sexan

M Coupé er útbúin sex strokka línuvél og er að öllum líkindum síðasti M-bíllinn frá BMW sem mun fást með sexunni, um sinn í það minnsta því næsti M3 mun verða V8 og líklegt er að í framtíðinni muni V8-vélar einnig prýða arftaka Z4. Vélin skilar 343 hestöflum úr 3,2 lítrum af rúmmáli og nær bíllinn 100 km/klst á aðeins fimm sekúndum sem er síður en svo slæmt fyrir bíl í þessum flokki – reyndar bara nokkuð gott. M coupé fæst auk þess aðeins með beinskiptingu og er reyndar almennt frekar strípaður enda ætlaður sem akstursbíll. Þó má nefna að bíllinn er að sjálfsögðu útbúin Xenon-ljósabúnaði, leiðsögukerfi, leðursætum og rafmagn knýr flest sem hægt er að knýja með rafmagni. Þó má nefna atriði sem vantar eins og lyklalaust aðgengi og bluetooth-tengingu en slíkur búnaður mætti gjarnan vera staðalbúnaður í bílum í þessum verðflokki.

Z4 M Coupé er ætlað að taka slagin við Porsche Cayman S og munu kaupendur líklega taka valið með hliðsjón af útliti bílanna enda eru þeir mjög ólíkir, Cayman öllu hefðbundnari en M Coupé heldur óvenjulegri.

BMW Z4 M Coupé hefur flest það, ef ekki allt, sem þarf til að tryggja skemmtilegan akstur. Það fyrsta sem þarf til þess er drif á afturhjólin og svo koma ekki síður mikilvæg atriði eins og jöfn þyngdardreifing, mjög góð fjöðrun, góðar bremsur og frábær vél. Í blönduna hefur svo verið bætt, að hætti BMW, góðum sex gíra beinskiptum gírkassa sem hefur mjög stutt á milli gíra. Gírstöngin fer afskaplega vel í hendi en gírskiptingin og svo næmi stýrisins er punkturinn yfir i-ið því með þessum verkfærum er hægt að nýta sér bestu eiginleika bílsins.

Því miður var prófunarbíllinn á röngum dekkjum, vetrardekkjum í breiddinni 225/45 18 allan hringinn, en bíllinn ætti að vera á 255/40 18 að aftan og auðvitað helst á vönduðum sumardekkjum og munar um minna.

Áhersla á akstur

Einföld breyting sem þessi hefur mikil áhrif á aksturseiginleika bílsins og færir til dæmis allt jafnvægi bílsins til þar sem gripið að aftan er mun minna en ella. Það var því nauðsynlegt að reyna að gera sér í hugarlund eiginleika bílsins án dekkjanna og sem betur fer ljómaði bíllinn þrátt fyrir þennan galla.

Bíllinn er vel stífur í akstri en þó mun mýkri í glímu sinni við holur og ójöfnur í malbiki en fyrirrennarinn Z3 M Coupé var. Öll áhersla við hönnun bílsins hefur verið lögð á aksturseiginleika hans og akstursupplifun og þar hefur tekist sérlega vel til. Bíllinn hegðar sér óaðfinnanlega innanbæjar en lifnar allur við þegar stefnan er tekin á fáfarinn og kræklóttan sveitaveg. Ökumaður situr mjög aftarlega í bílnum og finnst sem hann sitji hreinlega á milli afturdekkjanna en langt húddið á stóran þátt í því að skapa þessa tilfinningu.

Stýri bílsins er þykkt og hárnákvæmt og þarf aðeins litlar hreyfingar til að bíllinn skipti um stefnu – allt eftir vilja ökumanns.

Gírskiptingin er stíf, en nákvæm og virkar þannig að mjög gaman er að láta gírkassa og vél vinna saman en það hefur lengi verið aðalsmerki BMW og er þessi skipting í raun ekki svo frábrugðin því sem maður á að venjast almennt í BMW – nema auðvitað styttra á milli gíra og með mun meira afli að spila úr.

Vélin er togmikil, hljómfögur og einstaklega lífleg enda býr hún yfir nógu afli. Með því að þrýsta á "sport"-hnappinn við gírstöngina má svo breyta allri hegðan bílsins úr ljúfum kraftabíl í hið mesta óargadýr því þá er eins og bíllinn hnykli alla sína vöðva og búi sig undir átök. Bensíngjöfin verður mun næmari og fjöðrunin stífnar og bíllinn hreinlega breytir um eðli þegar ýtt er á þennan ágæta hnapp. Reyndar er best að láta þennan hnapp vera innanbæjar því bíllinn verður öllu erfiðari viðfangs með hann á, og því er ekki eins auðvelt að aka mjúklega – enda ekki til þess ætlast á svona bíl þegar sport-hnappurinn er virkur.

Bremsur bílsins eru líka magnaðar enda eru þær frá gamla M3 CSL-bílnum sem er einn sá þekktasti sem BMW hefur sent frá sér og var síðasti harðkjarnabíllinn á undan Z4 M Coupé. Þessi blanda tryggir að M Coupé er t.d. fljótari að aka Nordschleife-brautina alræmdu í Þýskalandi en síðasta kynslóð BMW M3. Bremsurnar eru líklega mikilvægasti þátturinn í því, ásamt fjöðrun og svo auðvitað driflæsingu sem er staðalbúnaður í bílnum, en þar gæti Porsche lært ýmislegt af BMW því mikið hefur verið kvartað undan að Cayman S hafi ekki driflæsingu.

BMW Z4 M Coupé er því bíll sem hefur flest það sem þarf að prýða sportbíl. Undirritaður kann afskaplega vel við línur bílsins og telur þennan bíl einn þann best heppnaða sem BMW hefur sent frá sér ásamt hinum topplausa bróður hans.

Spurning um stíl og notkun

Það er hins vegar ljóst að bíladellan þarf að vera á háu stigi til að taka M Coupé fram yfir t.d. Z4 M Roadster í sömu útgáfu. Sætin eru bara tvö og við íslenskar aðstæður, þar sem ekki er hægt að þeysa mikið á meðan engin er brautin til að leika sér á, væri líklega hægt að hafa enn meiri ánægju út úr BMW Z4 M Roadster.

Hvað stíl varðar hallast ég þó að M Coupé. Eigandi bíls af þessu tagi sendir ákveðin skilaboð um smekk, fágun og fleira í þeim dúr og sýnir líka að hann, eða hún, lætur sér í léttu rúmi liggja hvað öðrum finnst.

Sportbílar vekja oft blendnar tilfinningar hjá fólki en öllum sem komu nálægt Z4 M Coupé meðan á reynsluakstrinum stóð þótti hann hreint út sagt æðislegur.

BMW Z4

Vél: sex strokka línuvél, 3,2 l.

Afl: 343 hö.

Eldsneytisnotkun: 12.1 l/100km

CO 2 -útblástur: 292 g/km

Snerpa: 5 sek. upp í 100 km/klst.

Dekk: 225/45 R18 - 255/40 R18.

Drif: Afturdrif með drif læsingu.

Þyngd: 1495 kg.

Staðalbúnaður: Xenon-ljósabúnaður, leðursæti, leiðsögutæki, sjónvarp, bakkskynjarar o.fl.

Verð á þessu eintaki: 8.300.000 kr.

Umboð: B&L

ingvarorn@mbl.is

Höf.: ingvarorn@mbl.is