Samningur í höfn Magnús Kristinsson og Kresten Krogaard-Jensen brostu breitt í gær þegar þeir höfðu skrifað undir samninginn.
Samningur í höfn Magnús Kristinsson og Kresten Krogaard-Jensen brostu breitt í gær þegar þeir höfðu skrifað undir samninginn.
M. KRISTINSSON Danmark A/S, sem er í eigu Magnúsar Kristinssonar eiganda Toyota á Íslandi, hefur fest kaup á danska fyrirtækinu Krogsgaard-Jensen, stærsta söluaðila Toyota í Danmörku.

M. KRISTINSSON Danmark A/S, sem er í eigu Magnúsar Kristinssonar eiganda Toyota á Íslandi, hefur fest kaup á danska fyrirtækinu Krogsgaard-Jensen, stærsta söluaðila Toyota í Danmörku.

Krogsgaard-Jensen er rótgróið fjölskyldufyrirtæki og er stærst og umsvifamest af þeim 30 fyrirtækjum sem selja Toyota-bifreiðar í Danmörku og rekur fimm útsölu- og þjónustustöðvar á Kaupmannahafnarsvæðinu. Þá mun fyrirtæki Magnúsar eignast 100% í fasteignafélagi KKJ Ejendommen, og fasteignum sem eru í eigu Krogsgaard Holding. Kaupverð er trúnaðarmál en velta Krogsgaard nam um fimm milljörðum íslenskra króna í fyrra og eru starfsmenn um 130 talsins.

Krogsgaard-Jensen seldi um 1.560 nýja bíla í fyrra sem er um 8% af nýskráðum Toyota-bifreiðum í Danmörku en til samanburðar má geta þess að Toyota á Íslandi seldi 5.285 nýja bíla á síðasta ári.

Spurður um ástæðu útrásar til Danmerkur svarar Magnús Kristinsson því til að sér hefði verið ljóst að mjög erfitt yrði að auka markaðshlutdeild Toyota á Íslandi enda fyrirtækið með 25% markaðshlutdeild. "Ég fór því að líta í kringum mig í Evrópu og Skandinavíu. Fyrir nokkrum mánuðum kom það upp að það væri mögulegt að kaupa þetta fyrirtæki í Danmörku og þá lagði ég mikla áherslu á að komast yfir fyrirtæki í Kaupmannahöfn."

Magnús segir að stefnan sé að efla Krogsgaard-Jensen á allan mögulegan máta og gera það í Danmörku sem hafi gengið vel á Íslandi. "Hér hljóta að vera nokkur tækifæri þar sem Toyota er ekki með nema 8-9% markaðshlutdeild þannig að við ætlum að reyna að gera betur."

Spurður um hugsanleg frekari kaup erlendis svarar Magnús því til að hann geti trauðla fullyrt að hann sé hættur og viðurkennir að auðvitað væri skemmtilegt að komast yfir Toyota í einhverju öðru landi og þá kannski helst í Skandinavíu.