Karl Steinar Valsson
Karl Steinar Valsson
ALGER sprenging hefur orðið í svokölluðum götumálum á þessu ári hjá fíkniefnadeild lögreglunnar og eru nú ákveðnir menn undir eftirliti vegna gruns um að dreifa fíkniefnum til ungra neytenda.

ALGER sprenging hefur orðið í svokölluðum götumálum á þessu ári hjá fíkniefnadeild lögreglunnar og eru nú ákveðnir menn undir eftirliti vegna gruns um að dreifa fíkniefnum til ungra neytenda. Nýlega barst Morgunblaðinu ábending um tiltekinn aðila í einu hverfi í austurborginni sem hefur komið sér upp tengslaneti ungs fólks á aldrinum 15 til 17 ára og hefur lögregla staðfest að viðkomandi sé með undir eftirliti eins og ýmsir aðrir vegna götudreifingar á fíkniefnum til unglinga.

Til að uppræta götudreifingu hefur lögreglan haft menn í að fylgjast með tónleikum, partíum og öðrum áþekkum samkomum ungs fólks þar sem grunur er um fíkniefnadreifingu og á þessu ári hafa lögreglumenn tekið nærri tvö kíló af hassi, hálft kíló af amfetamíni, 100 skammta af LSD auk fleiri efna.

Lögreglan er á varðbergi gagnvart sumartímanum vegna þess að sölumenn fíkniefna beina sjónum sínum að ungu fólki sem er að ljúka grunnskóla eða í upphafi menntaskólanáms.

"Við vitum að það er verið að nálgast krakka á aldrinum 15-17 ára og bjóða þeim fíkniefni," segir Karl Steinar Valsson aðstoðaryfirlögregluþjónn. "Og við þessu erum við að reyna að bregðast."

Salan fer þannig fram að fólk ekur um á bílum og hittist á ákveðnum stöðum fyrir viðskiptin. Karl Steinar segir að þessir sölumenn velji staði með það í huga að hafa víðsýnt til allra átta til að geta fleygt efnum frá sér ef þeir sjá einhvern nálgast, einkum lögreglu. Stór bílastæði eru notuð í þessum tilgangi eða önnur bersvæði, rétt í útjaðri borgarinnar.

Fjölmargir hafa verið handteknir á þessu ári fyrir að selja unglingum fíkniefni á götunni.

"Markmiðið er að gera fíkniefnasölu á götunni eins erfiða og mögulegt er," bendir Karl Steinar á.