— Ljósmynd/Albert Eiríksson
HÚSIÐ Manon á Fáskrúðsfirði, sem var að mestu leyti byggt úr viði frönsku skútunnar Manon, var rifið í gær. "Þetta er menningarslys í bænum," segir Albert Eiríksson, forstöðumaður safnsins Fransmenn á Íslandi.

HÚSIÐ Manon á Fáskrúðsfirði, sem var að mestu leyti byggt úr viði frönsku skútunnar Manon, var rifið í gær. "Þetta er menningarslys í bænum," segir Albert Eiríksson, forstöðumaður safnsins Fransmenn á Íslandi. Loðnuvinnslan í bænum keypti lóðina sem húsið stóð á og sótti um leyfi til bæjarstjórnar til að rífa húsið. Albert segist sýnast að húsið hafi verið rifið til þess eins að rífa það. Að hans sögn var húsið í góðu ásigkomulagi og að auki fallegt, svo það var ekki lýti í umhverfinu.

Albert segir niðurrif hússins setja skugga á Franska daga sem haldnir verða á Fáskrúðsfirði helgina 27.-29. júlí en hann hefur fengið allmörg símtöl frá bæjarbúum sem og fólki annars staðar af landinu þar sem það lýsir yfir vonbrigðum sínum með ákvörðun bæjarstjórnarinnar. Hann undrast að engar áætlanir um fyrirhugaða notkun á lóðinni hafi verið lagðar fram.