FRAMBOÐ á olíu á heimsmarkaði er meira en nóg og það eru því ekki grundvallarþættir markaðarins sem valda hinu háa verði á gullinu svarta.

FRAMBOÐ á olíu á heimsmarkaði er meira en nóg og það eru því ekki grundvallarþættir markaðarins sem valda hinu háa verði á gullinu svarta. Þetta segir Ali Naimi , olíumálaráðherra Sádi-Arabíu, en að hans sögn eru það heimspólitískur órói og skortur á olíuhreinsunarstöðvum sem valda háu verði. Frá þessu er greint í Financial Times .

Ummæli Naimi, sem eru þau fyrstu um olíumarkaðinn sem borist hafa frá Sádi-Arabíu um nokkurra mánaða skeið, eru talin til marks um að landið muni ekki auka framleiðslu sína á olíu til þess að slá á verðhækkun síðustu vikna. Svipaðar vísbendingar hafa einnig borist frá Samtökum olíuframleiðsluríkja, OPEC , en aðalritari þeirra hefur þó gefið í skyn að aukist eftirspurn á markaði muni samtökin íhuga framleiðsluaukningu.