Óvænt Breiðablik vann óvæntan sigur á Val í átta liða úrslitum bikarsins í gærkvöldi og hér verjast Blikar einni sókn Valskvenna.
Óvænt Breiðablik vann óvæntan sigur á Val í átta liða úrslitum bikarsins í gærkvöldi og hér verjast Blikar einni sókn Valskvenna. — Morgunblaðið/Brynjar Gauti
ÓVÆNT úrslit urðu á Kópavogsvelli í gærkvöldi þegar Valskonur voru slegnar út úr Bikarkeppni KSÍ af baráttuglöðu Breiðabliksliði.

ÓVÆNT úrslit urðu á Kópavogsvelli í gærkvöldi þegar Valskonur voru slegnar út úr Bikarkeppni KSÍ af baráttuglöðu Breiðabliksliði. Ólíkt er komið á með liðunum í deildarkeppninni þar sem Valur er á toppnum ásamt KR og hefur ekki tapað leik, en Breiðablik er í 5. sæti með 50% vinningshlutfall. En það er ekki spurt að því í bikarkeppninni og það voru Blikakonur sem voru grimmari og langaði meira til þess að komast í undanúrslitin. Leikurinn var spilaður við kjöraðstæður, frábært veður og mikið af áhorfendum.

Eftir Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Það tók Breiðablik ekki nema 25 mínútur að ná forystunni í leiknum en þar var að verki Greta Mjöll Samúelsdóttir eftir skyndisókn. Greta fékk boltann utarlega í teignum, lék á varnarmann og skoraði með fallegu skoti í fjærhornið. Kópavogskonur létu svo kné fylgja kviði aðeins tíu mínútum síðar þegar Sandra Sif Magnúsdóttir skoraði af harðfylgi, einnig eftir skyndisókn. Verulega óvænt staða og eftir síðara markið fór nánast allur vindur úr Valsliðinu um tíma.

Síðari hálfleikur fór heldur rólega af stað og ekki var útlit fyrir að Valur myndi gera atlögu að Breiðabliki. En smám saman tókst hinu geysisterka Valsliði að ná tökum á leiknum og sóknarþunginn jókst jafnt og þétt. Valsliðið skapaði sér nokkur verulega góð færi á stuttum kafla þegar um 20–25 mínútur lifðu af leiknum. Þær strönduðu hins vegar á bráðefnilegum markverði Breiðabliks, Petru Lind Sigurðardóttur, sem var eins og köttur á milli stanganna. Petra varði til að mynda þrívegis frá Dóru Maríu Lárusdóttur úr ágætum færum auk þess sem hún sá við Katrínu Jónsdóttur af stuttu færi. Á 86. mínútu bar sókn Vals loks ávöxt þegar Guðný Óðinsdóttir var felld í vítateignum og dæmd var vítaspyrna. Ekki var annað að sjá en þetta væri réttur dómur og Margrét Lára Viðarsdóttir afgreiddi vítaspyrnuna af öryggi í netið. Valskonur gerðu þó heiðarlegar tilraunir til þess að jafna leikinn en Blikakonur vörðust fimlega. Síðasta færið fékk Katrín í uppbótartíma en hún þrumaði rétt yfir markið frá vítateigslínu.

Breiðablik stefnir á bikarmeistaratitilinn

Guðrún Gunnarsdóttir miðvörður Breiðabliks var að vonum ánægð með sigurinn: ,,Við lögðum upp með að halda góðri vörn allan leikinn og sækja hratt fram. Við ætluðum að vera framar á vellinum en raunin varð en þetta virkaði. Þetta var æðislegt. Við erum búnar að missa níu leikmenn frá því í fyrra og eigum ekki lengur möguleika á að vinna deildina. Bikarkeppnin er því okkar möguleiki og við komum þvílíkt grimmar í þennan leik.

Þessi sömu lið háðu harða baráttu í bikarúrslitaleiknum í fyrra þar sem Valur sigraði eftir mikla dramatík.

Það var náttúrlega ekkert lítið svekkjandi að tapa fyrir þeim í vítaspyrnukeppni í fyrra og frábært að borga fyrir það núna. Við erum að byggja upp lið og erum með mjög unga leikmenn. En okkur tókst að vinna þetta á baráttunni. Eins stóð Petra sig frábærlega í markinu en það var einmitt verið að velja hana í 19 ára landsliðið. Það hefur verið stígandi í þessu hjá henni og þetta var hennar besti leikur í sumar. Fyrir framan hana reyndum við Guðrún Erla að skiptast á að valda Margréti Láru og varnarleikurinn gekk ágætlega. En eins og ég segi, þetta var frábært og við stefnum á þennan titil," sagði Guðrún.