Í DAG, 13. júlí, er tengdamóðir mín, þótt ótrúlegt sé, áttræð. Hún fæddist á Brekkubæ í Nesjum í Hornafirði 13. júlí 1927. Foreldrar hennar voru Bjarni Bjarnason bóndi, organisti og fræðimaður, fæddur á Brunasandi í Vestur-Skaftafellssýslu, og Ragnheiður Sigjónsdóttir, húsmóðir, fædd á Fornustekkjum í Nesjum.

Sigríður hlaut hefðbundna menntun heima á Hornafirði auk þess að stunda orgelnám hjá föður sínum.

Árin 1949-1950 stundaði Sigríður nám í Tónlistarskólanum í Reykjavík, meðal annars hjá píanókennaranum Lanski Ottó. Árið 1950 hóf hún nám í Húsmæðraskólanum í Reykjavík.

Árið 1949 kom ungur guðfræðinemi, Gísli H. Kolbeins, austur í Hornafjörð og rændi þessari blómarós þeirra Hornfirðinga.

Þau voru gefin saman 1951 og hófu búskap í Sauðlauksdal, en 1954 fluttu þau að Melstað í Miðfirði og bjuggu þar í 23 ár.

Ásamt því að reka stórt heimili með vinnufólki og sumarkrökkum var frú Sigríður organisti í Melstaðarprestakalli.

Kaflaskil urðu í lífi hennar, þegar þau hjónin fluttu til Stykkishólms og hún hóf að kenna á hljóðfæri í tónlistarskólanum þar. Af þessu hafði hún mikla ánægju og greinilega einnig nemendur hennar, því að sumir þeirra hafa náð mjög langt í tónlistinni.

Þau hjónin eignuðust fimm börn, og eiga auk þess 12 barnabörn og 3 barnabarnabörn.

Elsku tengdamamma, fyrir hönd fjölskyldu minnar óska ég þér innilega til hamingju með áttræðisafmælið og bið þér Guðs blessunar.

Þau hjónin munu eyða deginum í faðmi fjölskyldunnar.

Halldór Bergmann.