Eftir Gunnar Pál Baldvinsson gunnarpall@mbl.is BÆJARRÁÐ Hafnarfjarðarbæjar og Reykjanesbæjar samþykktu í gær samkomulag um samstarf sveitarfélaganna við Geysi Green Energy (GGE) og Orkuveitu Reykjavíkur (OR) um rekstur Hitaveitu Suðurnesja (HS).

Eftir Gunnar Pál Baldvinsson

gunnarpall@mbl.is

BÆJARRÁÐ Hafnarfjarðarbæjar og Reykjanesbæjar samþykktu í gær samkomulag um samstarf sveitarfélaganna við Geysi Green Energy (GGE) og Orkuveitu Reykjavíkur (OR) um rekstur Hitaveitu Suðurnesja (HS). Virðist þar með vera komin niðurstaða í þá togstreitu sem komin var upp varðandi eignarhald á hitaveitunni.

Sú uppstokkun sem orðið hefur í eigendahópnum hófst með sölu ríkisins á sínum hlut í upphafi maímánaðar en málið tók óvænta stefnu um síðustu mánaðamót. Seldu þá þau sveitarfélög sem minni hluti áttu til GGE en áður höfðu átt sér stað þreifingar um að OR keypti hlut nokkurra sveitarfélaga. Í kjölfarið nýttu sveitarfélögin Reykjanesbær, Hafnarfjarðarbær og Grindavíkurkaupstaður sér forkaupsrétt sinn í hlut ríkisins sem seldur hafði verið til GGE og framseldu þau tvö síðarnefndu hlutina til OR. Sagði Árni Sigfússon, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, þá að Reykjanesbær gæti ekki tekið þá áhættu að annað orkufyrirtæki, sem ekki hefði gefið upp fyrirætlanir sínar með hitaveituna, réði henni.

Gert hefur verið hluthafasamkomulag og kaupsamningur um hvernig eignarhaldi hluthafanna verði háttað og hverjar framtíðaráherslur HS verða. Einnig er kveðið á um aðkomu OR og GGE að ýmsum málum á Suðurnesjum, þ.m.t. málum sem varða starfsemi Keilis á varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli. Jafnframt munu OR og GGE veita fjárhagslegan og félagslegan stuðning við menningar-, íþrótta- og áhugafélög á starfssvæði HS.

Eigendurnir virðast sáttir

Árni Sigfússon segir mikilvægt að Reykjanesbær verði áfram ráðandi og stærsti eignaraðili og mál hafi skýrst mjög í viðræðum við OR síðustu daga. "Þeirra hugur liggur fyrir og það er full ástæða til að við náum að vinna vel saman." Hann segir sýn hluthafanna um framtíðina vera skýra og þá sömu í meginatriðum. Ljóst er að sjálfstæði HS er grundvallaratriði í hans huga. "Grundvallaratriðið er að HS sé sjálfstætt fyrirtæki með höfuðstöðvar hér á Suðurnesjum sem sinni orkuvinnslu, -öflun og -sölu jafnframt því að virkja ný tækifæri vegna jarðvarma." Í viðræðunum spurðu fulltrúar Reykjanesbæjar ákveðið hvort til stæði hjá OR að ná yfirhöndinni í, og síðan sameinast HS, og reyndist svo ekki vera.

Gert er ráð fyrir að stjórn HS verði skipuð 7 mönnum, þremur frá Reykjanesbæ, tveimur frá GGE, einum frá OR og einum frá Hafnarfjarðarbæ. Árni segir að eftir viðræðurnar sé ekki hægt að segja að blokkir séu í stjórninni.

Gunnar Svavarsson, bæjarfulltrúi í Hafnarfirði, segir hluthafasamkomulagið vera sigur fyrir Hafnarfjörð í málinu. Samkomulagið tryggi Hafnarfjarðarbæ og öðrum eigendum neitunarvald við stórum breytingum á fyrirtækinu. "Frá upphafi vildum við tryggja að við lokuðumst ekki inni með okkar tæplega 16% eignarhlut. Við gætum t.d. komið í veg fyrir að okkar hlutur yrði étinn upp ef hlutafé yrði aukið." Hann segir sátt vera í hitaveitunni nú og á næstu misserum verði stefnumótun hennar endurunninn. "Það liggur fyrir að menn vilja sjá þetta félag verða enn öflugra og hugsanlega mun þetta þýða að það verður meiri samvinna milli OR og HS en verið hefur. Ég segi fyrir mitt leyti að ég tel allt slíkt vera vel séð."

Tilboð OR til Hafnarfjarðarbæjar um að OR kaupi hlut bæjarins í HS stendur enn og segir Gunnar að bæjarstjórnin muni á næstunni taka faglega afstöðu til þess hvort hyggilegt sé að bærinn selji sig úr HS. Slíkt komi vel vel til greina enda sé hátt verð í boði og e.t.v. takist ekki að skapa þá arðsemi sem nýir aðilar gera væntingar til.

Ásgeir Margeirsson, forstjóri GGE, segist ánægður með niðurstöðuna og að sér sýnist allir í eigendahópnum vera það einnig. Hlutur GGE í HS verður nú rúmlega helmingi stærri en til stóð eftir sölu ríkisins og segir Ásgeir ljóst að 32% hlut fylgi meiri áhrif en 15% hlut. Spurður um sýn GGE á framtíðina segist Ásgeir vilja að rekstur og þjónusta HS verði treyst og efld og vöxtur fyrirtækisins jafnframt. Einnig sér hann fyrirtækið sem grunn að útrás GGE á erlendan orkumarkað enda sé þekking á umhverfisvænum orkugjöfum mikil hér á landi og eftirspurnin mikil. Auk vaxtar innanlands séu það fyrst og fremst tækifæri erlendis sem geri HS ákjósanlegan fjárfestingarkost.

Í hnotskurn
» Árni Sigfússon segir að með samkomulaginu sé tryggt að Hitaveita Suðurnesja verði sjálfstætt félag með aðsetur á Suðurnesjum.
» Gunnar Svavarsson segir hagsmuni Hafnarfjarðarbæjar tryggða með því neitunarvaldi sem felst í hluthafasamkomulaginu. Staða bæjarins sé tryggð en til greina komi að bærinn selji engu að síður.
» Ásgeir Margeirsson, forstjóri Geysis, segir ljóst að áhrif fyrirtækisins í hitaveitunni verði meiri en ef fyrirtækið hefði bara eignast hlut ríkisins.