Kínverskt Í eldhúsinu eru allir starfsmenn kínverskir og er mest hráefnið sérinnflutt frá Kína til að tryggja ekta kínverska upplifun.
Kínverskt Í eldhúsinu eru allir starfsmenn kínverskir og er mest hráefnið sérinnflutt frá Kína til að tryggja ekta kínverska upplifun. — Morgunblaðið/G.Rúnar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Gamla Naustið hefur tekið miklum breytingum undanfarið og hefur nú fegnið á sig kínverskan svip. Ingvar Örn Ingvarsson leit í heimsókn og fékk uppskriftir að kínverskum krásum.

Eftir gagngerar breytingar í vetur er gamla Naustið horfið og nýr kínverskur veitingastaður hefur verið opnaður. Naustið þótti nokkuð sérstakur staður enda voru innréttingarnar orðnar gamlar og barn síns tíma, hannaðar árið 1954 af Sveini Kjarval innanhússarkitekt en undir það síðasta bar staðurinn sig ekki lengur og hafði húsið staðið autt í um hálft ár áður en athafnamaður frá Hong Kong taldi sig sjá tækifæri á íslenskum markaði og hófst handa við að breyta húsinu í kínverskan veitingastað.

Frá meginlandi Evrópu til Íslands

Það er Tan M. C. Alaam framkvæmdastjóri staðarins sem hefur staðið fyrir endurbótunum en hann hefur víðtæka reynslu af rekstri kínverskra veitingahúsa og hefur m.a. rekið kínversk veitingahús í Belgíu, Hollandi, Lúxemborg og Frakklandi og á reyndar og rekur enn veitingahús á meginlandinu.

Það var í gegnum kunningja í ferðaiðnaði sem Tan frétti af Íslandi og ákvað hann að slá til og athuga hvort ekki væri svigrúm fyrir kínverskan veitingastað á Íslandi sem byði upp á hátt þjónustustig að evrópskum hætti og jafnvel góð vín en Tan er menntaður sem vínþjónn.

Ekta kínverskur

Kínamúrinn er á margan hátt dæmigerður kínverskur veitingastaður, eins og vera ber. Innréttingar eru allar sérinnfluttar frá Kína, dökkur viður, þykk teppi, kínverskir skrautmunir og lýsing prýðir allt húsið og gefur veitingasalnum rólegheita yfirbragð. Hnífapör, borðdúkar og diskar er allt vandað enda á þjónustustigið á staðnum að vera sams konar því sem finnst á betri kínverskum veitingastöðum á meginlandinu.

"Allt starfsfólkið mitt kemur frá Kína en sjálfur kem ég frá Hong Kong þó ég hafi búið í Evrópu síðastliðin 20 ár. Sama er að segja með viðskiptafélaga minn. Ætlun okkar er að bjóða evrópskt þjónustustig en ég hef rekið veitingastaði í 28 ár," segir Tan sem leggur mikla áherslu á gæði þjónustunnar og reynslu sína en veitingastaðurinn fær stóran hluta hráefnisins sendan frá Kína til að tryggja að hann sé eins ekta og mögulegt er.

Hádegi og kvöld

Á Kínamúrnum er gott pláss til að taka á móti hádegisverðargestum enda salurinn stór. Í hádeginu er hlaðborð í boði þar sem boðið er upp á hefðbundna kínverska rétti s.s. sterka og súrsæta súpu, steiktar núðlur og allar tegundir af kjöti og grænmeti í mismunandi sósum og svo að sjálfsögðu djúpsteiktar rækjur sem eru ómissandi. Á kvöldin er það svo matseðillinn sem ræður ríkjum og má þar sérstaklega benda á sérstakan eftirrétt sem er algengur á kínverskum veitingastöðum í Evrópu en það er djúpsteiktur ís – nokkuð sem hljómar ómögulegt en er nú samt hægt.

Kjúklingur með salti og pipar

fyrir fjóra

920 g kjúklingur, skorinn í strimla

100 g laukur, skorin í sneiðar

80 g gulrætur, skornar langsum í sneiðar

2 tsk. sykur

2 tsk. salt

2 tsk. hvítur pipar

Byrja skal á að setja hrísgrjón í pott svo þau verði tilbúin á undan matnum. Notið góð hrísgrjón, t.d. basmati eða jasmin. Gott er að setja 2 bolla af vatni á móti einum bolla af hrísgrjónum, láta suðu koma upp, setja hrísgrjónin út í, slökkva undir hellunni og láta lokið vera á pottinum. Með þessu móti fást þétt og rök grjón sem ættu að vera tilbúin þegar búið er að elda matinn.

Fyrir kjúklinginn er best að steikja laukinn fyrst á pönnu í skvettu af olíu og bæta grænmetinu út í þegar laukurinn er farinn að svitna. Þegar grænmetið er farið að mýkjast er kjúklingurinn settur út í og er hann byrjar að brúnast er sykri, salti og hvítum pipar bætt út í. Kjúklingurinn er svo steiktur í gegn og borinn fram með hrísgrjónum.

Steiktar rækjur með sterkri sósu

fyrir fjóra

920 g stórar rækjur, t.d. tígrisrækjur, en einnig má nota humar

120 g laukur

120 g ferskur rauður chili

2 tsk. kínversk chili-sósa

4 tsk. kjúklingakraftur

2 tsk. salt

2 tsk. kartöflumjöl

Hrísgrjónin elduð með sama hætti og áður.

Fyrir rækju eða humar er best að steikja grænmetið á pönnu í skvettu af olíu.

Þegar grænmetið er orðið mjúkt er sósu, kjúklingakrafti, salti og kartöflumjöli bætt út í. Þegar sósan er svo orðin heit og vel blönduð er rækjunum bætt saman við, hrært í og blandan síðan tekið af hellunni svo sjávarmetið steikist ekki um of.

Borið fram með hrísgrjónum.