Kjartan Sigurgeirsson
Kjartan Sigurgeirsson
Kjartan Sigurgeirsson skrifar um Landsmót UMFÍ sem haldið var í Kópavogi: "Væri ekki jákvætt endurmat á landsmóti UMFÍ eðlilegra en neikvætt niðurrifstal?"

SÚ umræða sem hefur þróast í kjölfar stórglæsilegs landsmóts UMFÍ er mér algerlega óskiljanleg. Ég sé ekki fyrir mér hvernig íþróttaviðburðir hér á landi geta orðið öllu glæsilegri en nýliðið landsmót. Ég verð að viðurkenna að ég er ekki vanur að sækja slíka viðburði og getur því verið að orð mín séu sögð af vanþekkingu og biðst ég þá velvirðingar á því.

Sem greinastjóri siglinga á landsmóti get ég ekki orða bundist um að mér hefði þótt tíma sjónvarps allra landsmanna betur varið í að sýna þó ekki væri nema örlítið brot af stórgóðri keppni í siglingum ásamt fjölda annarra keppnisgreina sem ekki voru gerð nein skil, heldur en að birta langt, neikvætt og órökstutt niðurrifstal "sérfræðings" í landsmótum.

Minn skilningur hefur verið að markmið ungmennafélaganna sé að fá sem flesta með í íþróttir og uppbyggjandi félagsstarf, þar skipti ekki aðalmáli að vinna heldur að vera með, sjálfum sér og öðrum til skemmtunar. Sé sá skilningur minn réttur get ég ekki komið auga á hvað gerir pönnukökubakstur göfugri en kappleik í knattspyrnu milli nörda, hvorutveggja er gert til gamans, og sama má segja um vatnsbyssuslag. Það skyldi þó aldrei vera að vatnsbyssuslagur verði viðurkennd keppnisgrein á landsmótum framtíðar.

Mér er ljóst að íþróttamót af þessari stærðargráðu er ekki hægt að halda án þess að hafa mikinn fjölda starfsmanna, bæði launaða og sjálfboðaliða. Að mínu mati vann þetta fólk allt mjög gott starf, lagði sumt nótt við dag í margar vikur til að gera einn stærsta viðburð í íþróttasögu þjóðarinnar að veruleika. Það hvort margir eða fáir mæta á mótið eða hvaða fjöldi gistir tjaldstæði er frekar mál hreyfingarinnar í heild enn mótshaldara.

Mótshaldarar buðu upp á fyrirmyndaraðstöðu, bæði á tjaldstæði og áhorfendasvæðum. Eftir því sem mér er frekast kunnugt var það allt frítt. Það hvarflar aðeins að manni að þrátt fyrir glæsilega aðstöðu hafi hún ekki verið samkeppnishæf við önnur gistiúrræði sem höfuðborgarsvæðið hefur upp á að bjóða. Einnig getur hugsast að önnur afþreying sem í boði er hér á höfuðborgarsvæðinu, svo sem Smáralind og Kringla, hafi haft meira aðdráttarafl fyrir hluta aðkomufólks en kappleikir, þar er ekki heldur við mótshaldara að sakast.

Ég hef trú á að stór hluti starfsmanna mótsins, jafnt launaðra sem og sjálfboðaliða, upplifi þetta sem blauta tusku í andlitið og lítið þakklæti hreyfingarinnar fyrir vel unnið starf. Því tel ég það verðugra viðfangsefni stórvesíra hreyfingarinnar að þakka vel unnin störf og vinna svo að því fram að næsta landsmóti að finna hvar skórinn kreppir og koma þeirri reynslu yfir til næstu mótshaldara.

Mér þykir allt þetta niðurrif einkennast af annarsvegar öfund yfir aðstöðu sem önnur sveitarfélög hafa ekki upp á að bjóða og hinsvegar því að nauðsyn þyki að koma höggi á formann landsmótsnefndar, en hvorugt þykir mér íþróttahreyfingunni til sóma.

Höfundur er áhugamaður um siglingar.

Höf.: Kjartan Sigurgeirsson