[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Skagapilturinn Arnór Smárason hélt uppteknum hætti í fyrrakvöld og skoraði eitt marka hollenska úrvalsdeildarliðsins Heerenveen þegar það vann stórsigur, 10:0, á áhugamannaliðinu Hollandia T í æfingaleik. Arnór spilaði seinni hálfleikinn.

Skagapilturinn Arnór Smárason hélt uppteknum hætti í fyrrakvöld og skoraði eitt marka hollenska úrvalsdeildarliðsins Heerenveen þegar það vann stórsigur, 10:0, á áhugamannaliðinu Hollandia T í æfingaleik. Arnór spilaði seinni hálfleikinn. Hann hefur nú leikið þrjá æfingaleiki með aðalliði Heerenveen á undanförnum dögum og skorað í þeim öllum, samtals fjögur mörk. Þjálfari Heerenveen, Gertjan Verbeek , segir á vef félagsins að hann sé mjög ánægður með frammistöðu ungu leikmannanna í hópnum í undanförnum leikjum og telur þar upp Arnór ásamt fimm öðrum piltum.

Pólski knattspyrnumarkvörðurinn Jerzy Dudek er genginn í raðir Spánarmeistara Real Madrid. Hann fer á frjálsri sölu frá Liverpool þar sem hann hefur leikið frá árinu 2001, og meðal annars orðið Evrópumeistari. Dudek, sem er 34 ára, mun væntanlega ætlað það hlutverk að verða varamarkvörður liðsins en spænski landsliðsmaðurinn Iker Casillas hefur staðið milli stanganna hjá Real síðustu ár. Dudek fer því sennilega af einum varamannabekknum yfir á annan.

Fulham festi í gær kaup á Chris Baird , norður-írska landsliðsmanninum í knattspyrnu frá Southampton , fyrir rúmar 3 milljónir punda, um 375 milljónir króna. Hann virtist vera á leið til Sunderland , sem hafði samþykkt að greiða sömu upphæð fyrir þennan öfluga varnarmann, en valdi að flytja frekar til London .

A rsenal keypti í gær franska knattspyrnumanninn Bacary Sagna frá Auxerre en kaupverðið var ekki gefið upp. Sagna leikur aðallega sem hægri bakvörður en getur líka spilað í öðrum stöðum í vörninni og á miðjunni. Hann samdi við félagið til fjögurra ára. Sagna er 24 ára gamall og hefur verið fastamaður í liði Auxerre undanfarin þrjú ár. Hann hefur ekki leikið A-landsleik en var í landsliðshópi Frakka í síðasta mánuði.

L iverpool keypti í gær hollenska kantmanninn Ryan Babel frá Ajax fyrir 11 milljónir punda, um 1.400 milljónir króna, en hann semur við félagið til fimm ára. Babel er tvítugur og vakti mikla athygli með hollenska 21 árs landsliðinu í knattspyrnu sem varð Evrópumeistari í síðasta mánuði. Babel hefur spilað 14 A-landsleiki fyrir Holland og skorað 4 mörk. Liverpool hefur lengi haft augastað á Babel.