Nýir Viðeyjarbúar Ýmsar vinnuvélar hafa sést í Viðey upp á síðkastið og ráku sumir upp stór augu þegar sást til steypubíls þar í vikunni enda umferð slíkra bíla ekki algeng þar.
Nýir Viðeyjarbúar Ýmsar vinnuvélar hafa sést í Viðey upp á síðkastið og ráku sumir upp stór augu þegar sást til steypubíls þar í vikunni enda umferð slíkra bíla ekki algeng þar. — Morgunblaðið/RAX
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Gunnar Pál Baldvinsson gunnarpall@mbl.is Fjölbreytt fuglalíf er í Viðey en æðarfugl er þar algengastur fugla en varptíma hans lýkur venjulega í upphafi júlímánaðar.

Eftir Gunnar Pál Baldvinsson

gunnarpall@mbl.is

Fjölbreytt fuglalíf er í Viðey en æðarfugl er þar algengastur fugla en varptíma hans lýkur venjulega í upphafi júlímánaðar. Aðrar algengar fuglategundir í eyjunni eru fýll, grágæs, hrossagaukur, sendlingur, og tjaldur en alls verpa þar um 30 fuglategundir. Þessir og aðrir íbúar eyjunnar úr dýraríkinu hafa hins vegar fengið sjaldséða nágranna: Steypubíl, skotbómulyftarara, skurðgröfu og dráttarvél en framkvæmdir eru nú í fullum gangi við friðarsúlu Yoko Ono.

Þótt Viðey sé ekki langt undan höfuðborginni gerir hafið sem á milli er það að verkum að flutningur á efnum og tækjum er háður ýmsum vandkvæðum. Ber þar helst að nefna að sigla þarf með efni,verkfæri og vinnuvélar yfir sundið. Jafnframt kann að reynast torvelt að skreppa út í næstu verslun ef eitthvað gleymist.

Í stað þess að steypubílnum sé ekið heim til steypustöðvar í hvert skipti til að sækja steypu hefur nokkru magni hráefnis verið landað í Viðey en því hefur síðan verið blandað saman í steypubílnum.

Þótt umfangsmiklar framkvæmdir hafi verið gerðar á eyjunni er nú orðið þó nokkuð síðan að þurft hefur slíkan tækjakost. Helst má nefna að þegar Reykjavíkurborg tók við eyjunni árið 1986 voru gerðar miklar endurbætur á Viðeyjarkirkju og Viðeyjarstofu en stórt jarðhýsi var þá steypt við Viðeyjarstofu.

Geislarnir munu hríslast upp

Stefnt er að því að friðarsúlan verði vígð þann 9. október næstkomandi eða á afmælisdegi Johns Lennons. Ekki hefur verið upplýst að fullu hvernig endanleg mynd listaverksins verður en Svanhildur Konráðsdóttir, sviðsstjóri menningar- og ferðamaálsviðs Reykjavíkurborgar segir að "súlan" verði í raun margir ljósgeislar sem muni hríslast upp frá jörðinni og sjást úr nokkurri fjarlægð. Hönnun verksins er ekki einföld og segir Svanhildur að áskorun verkefnsinsins hafi verið að finna leið til að koma sýn listamannsins í framkvæmd þannig að verkið falli að umhverfinu. "Það hefur tekið töluvert langan tíma og mikla leit að finna réttu ljósin, sem bæði eru af réttum lit og styrkleika og búa yfir þeim eiginleikum að ná fram þessum markmiðum sem Yoko Ono og við höfum sett."

Verkið er hringur sem er um 18 metrar í þvermál en í miðju hans verður síðan brunnur þaðan sem ljósið mun berast. Svanhildur segir íslenskt berg verða notað í verkið og það muni því falla mjög vel að umhverfinu þegar ekki verði kveikt á ljósgeislunum. Ekki er gert ráð fyrir að kveikt verði á súlunni allt árið um kring en í ár munu geislar berast frá verkinu frá og með 9. október til 8. desember, en sú dagsetning er táknræn fyrir að þann dag árið 1980 lést John Lennon . Einnig mun loga á súlunni á gamlársdag og því næst eina viku á vorjafndægrum á næsta ári sem og við sérstök tækifæri.