Indriði H. Þorláksson
Indriði H. Þorláksson
UMRÆÐA um skatta og skattapólitík hér á landi hefur verið lítil og næsta yfirborðskennd. Það hefur gert það mögulegt að skattalagabreytingar hafa verið fræðilega illa undirbúnar og greiningu áhrifa ábótavant. Þetta er mat Indriða H.

UMRÆÐA um skatta og skattapólitík hér á landi hefur verið lítil og næsta yfirborðskennd. Það hefur gert það mögulegt að skattalagabreytingar hafa verið fræðilega illa undirbúnar og greiningu áhrifa ábótavant.

Þetta er mat Indriða H. Þorlákssonar, hagfræðings og fyrrverandi ríkisskattstjóra, í grein hans sem birtist í nýjasta tölublaði veftímaritsins Stjórnmál og stjórnsýsla (www.stjornmalogstjornsysla.is).

Í greininni gagnrýnir Indriði þau vinnubrögð að leggja skattalagafrumvörp seint fram og takmarka umfjöllun um þau því það hafi gert alla meðferð löggjafans og umræðu um skattamál meðal almennings og í fræðaheiminum handahófskennda og ómarkvissa. Telur hann umræðuna því fremur hafa mótast af hentifræði en fagmennsku.

Er skattkerfið sanngjarnt?

Rannsóknarspurning Indriða í grein hans er: "Er skattkerfið sanngjarnt og hvernig nýtast ívilnanir þess?" Í samtali við Morgunblaðið sagðist Indriði ekki vilja svara þeirri spurningu öðruvísi en að draga fram talnalegar staðreyndir og fela það í hendur lesenda að svara spurningunni út frá eigin verðmætamati.

Indriði bendir í grein sinni á að heildarskattbyrði landsmanna sé allfrábrugðin tekjuskattsdreifingunni. "Skerfur hinna tekjulægstu í skattgreiðslum er meiri en fyrirfram mætti ætla og byrjunarpunkturinn því allhár. Stígandin í heildarskattbyrðinni er í upphafi meiri en í tekjuskattinum einum og er hámarksskattbyrði náð mun fyrr en í tekjuskattinum einum eða við 7-9 m.kr. árstekjur, sem er ekki fjarri meðaltekjum hjóna. Skattbyrðin vex þannig úr um 19% við lægstu tekjur í yfir 40% við meðaltekjur og fellur síðan í um 21% við hæstu tekjur."