Afmæli Erró verður 75 ára eftir tæpa viku og af því tilefni verður opnuð Erró-sýning í Klifi.
Afmæli Erró verður 75 ára eftir tæpa viku og af því tilefni verður opnuð Erró-sýning í Klifi. — Morgunblaðið/Sverrir
UM helgina verður Erró-sýning í félagsheimilinu Klifi í Ólafsvík í tilefni 75 ára afmælis listamannsins. Erró, skírður Guðmundur Guðmundsson, fæddist í Ólafsvík 19. júlí 1932 en bjó fyrstu æviárin á Kirkjubæjarklaustri.

UM helgina verður Erró-sýning í félagsheimilinu Klifi í Ólafsvík í tilefni 75 ára afmælis listamannsins. Erró, skírður Guðmundur Guðmundsson, fæddist í Ólafsvík 19. júlí 1932 en bjó fyrstu æviárin á Kirkjubæjarklaustri.

Lista- og menningarnefnd stendur fyrir sýningunni og fékk Þorbjörgu Gunnarsdóttur til þess að vera sýningarstjóri, en hún vann lengi hjá Listasafni Reykjavíkur og sá meðal annars um Erró-safnið. Verkefnið er styrkt af Menningarráði Vesturlands og Sparisjóði Ólafsvíkur auk Snæfellsbæjar. Myndirnar á sýningunni eru úr safni Listasafns Reykjavíkur. Þorbjörg segir þetta að mestu leyti grafík og vatnslitamyndir auk tveggja málverka og ná verkin allt frá árinu 1969 til 2006. Meðal mynda á sýningunni er Saga popplistarinnar sem var mikil lykilmynd á ferli Errós og Enginn maður skal sæta pyndingum, grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, sem nefnd er eftir fimmtu grein Mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna, en Erró var einn nokkurra listamanna sem fengnir voru til þess að myndskreyta hann.

Sýningin er opin laugardag og sunnudag frá kl. 13-17.

Í hnotskurn
» Þegar Kjarval kom austur að mála á sumrin stillti hann iðulega upp málverkum í skólahúsinu eða á bóndabænum og átti það til að gefa Erró hálftómar litatúpur og léreftsbúta.
» Erró málaði fyrst undir listamannsnafninu Ferró en felldi síðar F-ið út þegar franskur listamaður hótaði málssókn því nöfnin þeirra voru of lík.
» Hann hóf nám í Myndlistar- og handíðaskólanum í Reykjavík og hélt svo til Noregs þar sem hann lærði við Listaháskólann í Ósló árin 1951-54. Eftir það fór hann til Flórens á Ítalíu og fór þaðan til Ravenna þaðan sem hann lauk prófi í gerð mósaíkmynda.
» Árið 1957 flutti Erró svo til Parísar en nú dvelur nú til skiptis í Taílandi, París og Mallorca.