Lionel Messi, leikmaður Barca
Lionel Messi, leikmaður Barca
TVÍTUGI knattspyrnusnillingurinn Lionel Messi skoraði sannkallað gull af marki í 3:0 sigri Argentínu á Mexíkóum í Ameríkukeppninni í fyrrinótt.

TVÍTUGI knattspyrnusnillingurinn Lionel Messi skoraði sannkallað gull af marki í 3:0 sigri Argentínu á Mexíkóum í Ameríkukeppninni í fyrrinótt. Messi fékk boltann við hægra horn vítateigsins, lagði hann fyrir sig og vippaði frábærlega yfir varnarmann og markvörð Mexíkóa. Hreinlega mögnuð útsjónarsemi hjá Messi, sem leikur með Barcelona á Spáni.

Margir líkja tilþrifum kappans í gær við þau sem knattspyrnugoðið Maradona, samlandi Messis, sýndi á sínum ferli. Síðastliðinn vetur skoraði Messi einnig tvö mörk sem minntu á fræg mörk Maradona. Annað eftir frábæran einleik frá eigin vallarhelmingi, en hitt með hendi. Hann virðist því ætla að standa ágætlega undir því að verða arftaki Maradona.

Gabriel Heinze, leikmaður Manchester United, skoraði fyrsta mark leiksins stuttu fyrir leikhlé, eftir aukaspyrnu frá einum af bestu mönnum mótsins, Juan Riquelme.

Mark Messis kom hálftíma fyrir leikslok og það var síðan Riquelme sjálfur sem innsiglaði 3:0 sigur, með marki úr vítaspyrnu, fjórum mínútum síðar. Riquelme virðist kunna vel við sig í Venesúela, þar sem keppnin er haldin, en þetta var hans fimmta mark í keppninni.

Argentínumenn mæta Brasilíu, sem vann Úrúgvæ í hinum undanúrslitaleiknum, aðfaranótt mánudags í draumaúrslitaleik keppninnar. Þessi lið mættust einnig í úrslitum síðustu keppni, en þar vann Brasilía í vítaspyrnukeppni.