Bjarni Harðarson
Bjarni Harðarson
Bjarni Harðarson fjallar um kvótann og hvalveiðar: "Það er samt margt sem bendir til að útilokað sé að byggja þorskstofninn upp nema með stórauknum hvalveiðum"

EINAR Kristinn Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra hefur tekið þá ákvörðun að fylgja algerlega ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar og færa þorskkvóta landsmanna í 130 þúsund tonn. Bakland ríkisstjórnarinnar sem er óvanalega sterkt um þessar mundir hefur lokið þar lofsorði á og talað um kjarkmikla ákvörðun. En er það réttmæt einkunn?

Lét Hafró hræða sig?

Sjálfstæðisflokkurinn hefur nú farið með stjórn sjávarútvegsmála í 16 ár og á sama tíma hefur þorskstofninn verið í stöðugri afturför. Skýring vísindamanna Hafrannsóknastofnunar á þeirri þróun er að ekki hafi að fullu verið farið að þeirra ráðum. Veiði umfram ráðleggingar nemi milljón tonnum á nokkurra ára bili. Engu að síður er viðurkennt að veiði umfram ráðleggingar sé miklum mun minni en var fyrir nokkrum áratugum og að veiðin í heild sé aðeins svipur hjá sjón miðað við það sem var. Ef sjávarútvegsráðherra hefði enn einu sinni skautað örlítið fram úr Hafrannsóknastofnun hefði hann kallað yfir sig þá hættu að fræðimenn þar hefðu getað sagt við þjóðina – þarna sjáið þið!

Það er frammi fyrir þessari mynd sem sjávarútvegsráðherra stóð og ég get einhvern veginn ekki lýst ákvarðanatöku hans sem kjarkmikilli. Menn geta auðvitað haft þá skoðun að hún hafi verið varfærin og jafnvel skynsamleg en það er erfitt að sæma hana sæmdarheitinu kjarkmikil.

Getur rústað samstöðu útgerðar og stjórnvalda

En hvers vegna hefði yfir höfuð átt að taka einhverja aðra ákvörðun? Var einhver skynsemi í því að fara fram yfir veitta ráðgjöf enn einu sinni og var einhver leið til að réttlæta slíka ákvörðun? Svarið við báðum þessum spurningum er já en það þurfti kjark til að fylgja þeim niðurstöðum.

Í fyrsta lagi þá skapar 130 þúsund tonna kvótasetning í þorski þá hættu að ekki takist að veiða aðrar tegundir sem Hafrannsóknastofnun telur samt óhætt að sækja í. Þetta á einkum við um ýsuna. Afleiðing af svo mikilli kvótaskerðingu getur því hæglega orðið til að auka brottkast og mótþróa sjómanna og útgerðar gagnvart kvótakerfinu. Hvað sem annars er sagt um íslenska kvótakerfið þá hefur náðst um það viðunandi sátt milli sjómanna og útgerðar annarsvegar og stjórnvalda hinsvegar. Það hefur oft verið lag að fylgja ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar út í æsar án þess að stofna þeirri sátt í hættu og þá hefðu menn betur gert það. Í ár er það aftur á móti ekki staðan. Þær aðstæður gætu skapast að brottkast þorsks ykist til muna þegar útgerðir sem berjast fyrir lífi sínu reyna að ná á land kvóta annarra tegunda. Víða í Evrópu er ríkjandi mikil togstreita og allt að því stríðsástand milli útgerða og fiskveiðistjórnunar. Það er óskandi að slíkar aðstæður skapist ekki hér á landi.

Þar með tel ég mig hafa svarað fyrri hluta spurningarinnar. Það er að það eru ákveðin rök fyrir því að skerða þorskkvótann ekki eins mikið og Hafrannsóknastofnun lagði til. Það er ekki Hafrannsóknastofnunar að leggja pólitískt mat á það hversu langt er hægt að ganga í niðurskurði án þess að stefna fiskveiðistjórnuninni í hættu. Það er stjórnmálamanna að meta þau áhrif og með tilliti til þeirra töldum við Framsóknarmenn rétt að halda þorskkvótanum í 150 þúsund tonnum sem er nálægt þeirri tillögu sem Landssamtök útvegsmanna töldu ásættanlega.

Mótvægisaðgerðir með hvaladrápi

En þá að síðari lið spurningarinnar. Hefði verið einhver leið til að réttlæta slíka ákvörðun gagnvart þeim umhverfisverndarsjónarmiðum sem Hafrannsóknastofnun talar fyrir? Hefði slík ofveiði ekki stefnt þorskstofninum í hættu? Að óbreyttu, jú. En ekki ef sjávarútvegsráðherra hefði sýnt þann kjark að heimila niðurskurð hvalastofnsins til mótvægis við meinta ofveiði. Það er óumdeilt að hvalurinn einn og sér étur mun meira af þorski en sem nemur allri veiði þjóðarinnar, aðeins er spurning um það hversu margfalt meiri hans afli er. Því er það aðeins reikningsdæmi fiskifræðinga hversu mörg stórhveli þyrfti að aflífa á móti hverju tonni sem veitt væri umfram ráðgjöf. En til þessa hefði sjávarútvegsráðherra þurft kjark.

Sjálfur er ég ekki í vafa um að slíkt hvaladráp væri mörkuðum okkar og orðspori léttvægt. Við erum hvort sem er að veiða hvali og hvort þeir eru fleiri eða færri breytir þá litlu. Vandræðalegast hefði ef til vill verið ef rétt er að ekki megi finna markaði fyrir hvalinn, en þá mætti vel ræða þá hugmynd að drepa skepnur þessar á afmörkuðum svæðum án þess að flytja skrokka þeirra í land. Við fyrstu sýn kann þetta að þykja nokkuð róttæk hugmynd í þeirri fárkenndu umræðu sem er á móti hvalveiðum. Það er samt margt sem bendir til að útilokað sé að byggja þorskstofninn upp nema með stórauknum hvalveiðum enda voru bestu þorskveiðiár okkar Íslendinga einmitt þegar útlendingar höfðu nánast útrýmt hvalskepnum við landið. Svo langt skulum við þó aldrei ganga en hvalirnir eru falleg dýr og lífríkinu dýrmæt.

Um mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar og raunverulegar mótvægisaðgerðir mun ég skrifa í næstu grein og vonast þá til að hafa um sinn rekið slyðruorð það af stjórnarandstöðunni sem Staksteinum Morgunblaðsins er annars tíðrætt um.

Höfundur situr á Alþingi fyrir Framsóknarflokkinn