Djúpivogur | Fiskurinn steinsuga barst á land á Djúpavogi síðastliðinn þriðjudag. Slæddist hún með afla sem fjórmenningarnir á Auði Vésteins lönduðu. Hún hafði sogið sig fasta við þorskræfil en það er einmitt á þann hátt sem steinsuga nærist.

Djúpivogur | Fiskurinn steinsuga barst á land á Djúpavogi síðastliðinn þriðjudag. Slæddist hún með afla sem fjórmenningarnir á Auði Vésteins lönduðu. Hún hafði sogið sig fasta við þorskræfil en það er einmitt á þann hátt sem steinsuga nærist. Kemur þetta fram á vef Djúpavogshrepps.

Steinsugan er kjálkalaus fiskur með tenntan hringlaga munn sem virkar líkt og sogskál. Flestar steinsugur sjúga sig fastar við aðra fiska og nærast á blóði þeirra. Steinsuga er því ekkert sérstaklega vinsæl meðal annarra sjávartegunda en hún er til dæmis ein af fáum óvinum beinhákarlsins. Stundum er hægt að sjá beinhákarl reyna að losa sig við slík sníkjudýr með því að kasta sér upp úr sjónum eða nudda sér við hafsbotninn, að því er fram kemur á vísindavef Háskóla Íslands.

Steinsugunni var komið fyrir í kari fullu af sjó og meðferðis fékk hún matarbita í formi ýsutitts. Hún virtist þó engan áhuga hafa á ýsunni en menn gátu sér þess til að hún vildi hafa matinn sinn lifandi.