Sigríður Guðlaugsdóttir fæddist á Guðnastöðum í Austur-Landeyjum 23. janúar 1931. Hún andaðist á líknardeild Landakotsspítala 4. júlí síðastliðinn. Foreldrar hennar voru hjónin á Guðnastöðum, Guðlaugur Magnús Ólafsson, f. 18.11. 1893, d. 25.3. 1970, frá Eyvindarholti og Júlía Jónasdóttir, f. 28.7. 1899, d. 27.5. 1974, frá Hólmahjáleigu í Austur-Landeyjum. Foreldrar Guðlaugs voru Ólafur Ólafsson bóndi í Eyvindarholti, frá Hólmi í A-Landeyjum, og kona hans Sigríður Ólafsdóttir frá Múlakoti í Fljótshlíð. Foreldrar Júlíu voru Jónas Jónasson bóndi og formaður í Hólmahjáleigu og kona hans Ragnheiður Halldórsdóttir frá Ósabakka á Skeiðum. Systkini Sigríðar eru: 1) Ragnheiður, f. 23.4. 1927, d. 25.6. s.á. 2) Jónas fyrrv. rafveitustjóri í Hafnarfirði, f. 21.4. 1929, kv. Dórótheu Stefánsdóttur gæslukonu. Þau áttu fjögur börn. 3) Ólafur tæknifræðingur, f. 7.2. 1933, d. 19.10. 2000. Sambýliskona Ólafs var Guðrún Þorgerður Vilhjálmsdóttir snyrtifræðingur, f. í Vestmannaeyjum 21.1. 1933. 4) Ragnar fyrrv. bóndi á Guðnastöðum, f. 5.5. 1934, kv. Margrit Strupler frá Weinfelden í Sviss. Þau eiga fimm börn. 5) Ingibjörg Jóna, fyrrv. matráðskona í Reykjavík, f. 27.3. 1940. Var gift Sturlu Einarssyni húsgagna- og byggingameistara. Þau skildu. Börn þeirra eru þrjú.

Sigríður giftist 6.5. 1967 Ingólfi Majassyni húsgagna- og innanhússarkitekt, f. á Leiru í Grunnavíkurhreppi 22.7. 1919. Foreldrar Ingólfs voru hjónin í Leiru Guðrún Elísabet Guðmundsdóttir, f. 8.10. 1884, d. 19.6. 1974, og Majas Jónsson, f. 19.5. 1881, d. 7.9. 1919. Dóttir Sigríðar og Ingólfs er Júlía Guðrún Ingólfsdóttir innanhússhönnuður, f. 18.2. 1968.

Sigríður ólst upp við venjuleg sveitastörf. Hún var í nokkra vetur vinnukona hjá læknishjónunum á Stórólfshvoli, þeim Oddnýju Guðmundsdóttur og Helga Jónassyni. Hún vann eina vertíð við fiskvinnslu í Vestmannaeyjum og var einn vetur í Húsmæðraskólanum í Reykjavík. Hún vann á Kópavogshælinu um skeið, einnig nokkur ár í versluninni Exeter í Reykjavík. Hún vann um tíma við ræstingar í Hvassaleitisskólanum en síðast vann hún í býtibúri hjá Barnaspítala Hringsins í 18 ár.

Útför Sigríðar verður gerð frá Hallgrímskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 13.

Kær systir, Sigríður Guðlaugsdóttir, hefur kvatt þennan heim eftir erfið veikindi. Þegar horft er til baka eru endurminningarnar ljúfar, þrátt fyrir að fráfall hennar snerti viðkvæmar taugar í brjósti manns. Hún var alltaf kölluð Sísí af vinum og vandamönnum, en það nafn gaf hún sjálfri sér þegar hún fór að tala. Hún ólst upp við venjuleg sveitastörf en fór snemma að vinna annars staðar. Hún var m.a. í nokkur ár vinnukona hjá læknishjónunum á Stórólfshvoli en þar komst hún í kynni við umönnun sjúkra, sem síðar átti eftir að koma henni vel. Hún vann í nokkur ár á Kópavogshælinu og við ræstingastörf og verslunarstörf en lengst starfaði hún í 18 ár í býtibúri Barnaspítala Hringsins og var þar þangað til hún hætti vegna aldurs. Í tilefni af því var henni ýmis sómi sýndur af starfsfólki spítalans. Sísí var alls staðar í uppáhaldi þar sem hún vann.

Hún var einn vetur í Húsmæðraskólanum í Reykjavík.

Áður en Sísí festi ráð sitt hélt hún til um skeið hjá vinafólki sínu á Kópavogsbraut 45, hjá þeim hjónum Sigríði Gísladóttur og Ólafi Jónssyni. Þar í heimili var Fanney systir Sigríðar Gísladóttur sem hafði verið á Guðnastöðum þegar Sísí var á ungaaldri. Þær systur voru miklar hannyrðakonur og þarna vann Sísí ýmsa handavinnu, en hún var mjög myndarleg í höndum og t.d. bróderaði hún fallegar landslagsmyndir.

Það var mikið gæfuspor hjá Sísí þegar hún kynntist manni sínum Ingólfi. Bjuggu þau sér fagurt heimili í Mjóuhlíð 14 í Reykjavík. Þangað var alltaf gott að koma og hjálpuðu þau okkur ómetanlega við að gæta barna okkar þegar við þurftum á því að halda, sem verður seint fullþakkað. Veiðiferðir voru vinsælar og áttu fjölskyldurnar góðar stundir í þeim.

Við Dóróthea vottum þeim Ingólfi og Júlíu Guðrúnu okkar dýpstu samúð.

Jónas Guðlaugsson.

Elskuleg móðursystir okkar hefur kvatt.

Yndislegri frænku er varla hægt að hugsa sér. Hún hafði stórt hjarta og setti ávallt aðra framar sjálfri sér.

Það var alltaf gaman að spjalla við Sísí frænku. Hún fylgdist vel með því sem var efst á baugi í þjóðfélaginu og hafði einlægan áhuga á fólki. Sísí var líka sérlega gestrisin. Það horfði stundum til vandræða hversu hörð hún var á því að maður þyrfti ávallt að þiggja veitingar þegar maður kom í heimsókn. Hún gat snarað fram fínasta kaffihlaðborði á örskotsstundu áður en nokkrum mótmælum varð komið við.

Sísí var mikil barnagæla og fengum við systkinin sannarlega að njóta þess þegar hún gætti okkar sem börn. Kannski var það einmitt þá að það myndaðist sérstakur kærleiksþráður á milli okkar Sísíar, sem aldrei slitnaði, þótt stundum liði langt á milli heimsókna og símtala.

Við þökkum fyrir tímann sem við höfðum saman og kveðjum okkar kæru frænku með þessu fallega ljóði:

Þig faðmi friður guðs

og fái verðug laun,

þitt góða hjarta, glaða lund

og göfugmennska í raun.

Við kveðjum þig með þungri sorg

og þessi liðnu ár

með ótal stundum ljóss og lífs

oss lýsa gegnum tár.

––

Vér munum þína högu hönd

og hetjulega dug,

og ríkan samhug, sanna tryggð

og sannan öðlingshug.

Guð blessi þig. Þú blóm fékkst grætt

og bjart um nafn þitt er,

og vertu um eilífð ætíð sæl

vér aldrei gleymum þér.

(Jón Trausti)

Elsku Ingólfur og Júlía Guðrún, við sendum ykkur okkar innilegustu samúðarkveðjur. Minning um ástkæra frænku mun ávallt lifa í hjörtum okkar.

Guðlaug Júlía, Einar og Atli.

Kæra frænka og föðursystir Sísí, það er sárt að missa þig, en nú hefur þú fengið hvíld eftir löng og erfið veikindi.

Ég man fyrst eftir þér sem lítill drengur og tengjast margar þær æskuminningar ættaróðali Guðlaugs afa og Júlíu ömmu á Guðnastöðum.

Þú varst dugleg að leika við mig sem og líta eftir mér og varst alltaf einstaklega góð við mig.

Foreldrar mínir áttu þig alltaf að ef það þurfti að fá pössun fyrir strákinn.

Það var alveg toppurinn á tilverunni að fá að vera í pössun hjá Sísí frænku, þá var mikið gaman að vera til.

Veiðitúrar að Hlíðarvatni og Djúpavatni voru fastir punktar í tilverunni frá því ég man eftir mér, þar áttum við margar góðar stundir saman með fjölskyldum okkar.

Ég gleymi ekki hörkunni í þér þegar þú mættir að Djúpavatni í fyrrasumar, þá orðin mikið veik, en áhuginn fyrir að mæta og kasta fyrir fisk var öllu ofar.

Þín var sárt saknað við Djúpavatnið þetta sumarið.

Það sem upp úr stendur í minningunni um þína persónu er að þú varst alltaf góð við mig og vildir allt fyrir mig gera. Þú varst alltaf kát, brosmild og í góðu skapi, hvað sem á bjátaði, og hef ég aldrei nokkurn tímann hitt nokkra manneskju eins ríka af þessum eiginleikum, og það virkaði á mig eins og þú geislaðir ætíð af lífsgleði.

Nú er dagur runninn að kveldi og veiðitúrarnir verða ekki fleiri í þessari tilveru.

Ég þakka þér Sísí frænka fyrir allar góðu stundirnar sem við áttum saman. Ég votta Ingólfi og Júlíu Guðrúnu samúð mína, mikill er missir ykkar.

Stefán Jónasson.

Kæra Sísí frænka, þá er komið að kveðjustund. Í minningu minni er farin skemmtileg, glaðleg og góð kona. Ég minnist þess úr æsku minni þegar foreldrar mínir voru erlendis og ég varð þess heiðurs aðnjótandi að fá að vera hjá ykkur á meðan. Ég hlakkaði alltaf ákaflega mikið til því á þínu heimili leið mér vel og mikið var tekið vel á móti litla frænda úr Hafnarfirði. Fyrir mér var það ævintýri líkast að vera hjá þér. Júlía Guðrún lék við mig og saman fórum við í fótbolta á Miklatúni, niður í bæ á sólríkum sunnudögum, í Tónabíó að sjá kvikmyndir og á morgnana fór ég í sund með Ingólfi. Svo má ekki gleyma þeim frábæru stundum sem við áttum við að spila á spil við eldhúsborðið. Þetta voru skemmtilegir tímar fyrir lítinn dreng að vera hjá þér í höfuðborginni Reykjavík og jafnframt að upplifa þann frið og ró sem ríkti á þínu heimili.

Hjá þér Sísí lærði ég að borða súrmjólk og brauð með kæfu í morgunmat og fannst það gott. Einnig gleymi ég aldrei góða lambakjötinu og brúnu sósunni sem að var himnesk og var upphafið að áhuga mínum á sósugerð síðar á lífsleiðinni, að ógleymdu ískalda kranavatninu sem var betra og áhugaverðara en gosdrykkir.

Einnig minnist ég þeirra frábæru stunda sem fjölskyldur okkar áttu við Djúpavatn á Reykjanesskaga við silungsveiðar. Þó oft á tíðum hafi fiskurinn ekki verið stór áttu fjölskyldur okkar góðar stundir saman úti í náttúrunni.

Á þessum degi vil ég og fjölskylda mín votta Ingólfi og Júlíu samúð okkar. Í huga og anda erum við með ykkur á þessum erfiðu tímum. Að lokum vil ég minnast Sísí frænku, þessari frábæru manneskju á eftirfarandi hátt:

Deyr fé,

deyja frændur,

deyr sjálfur ið sama;

en orðstír

deyr aldregi,

hveim er sér góðan getur.

(Úr Hávamálum.)

Guðmundur Jónasson.

Kveðja frá Barnaspítala Hringsins

Barnaspítali Hringsins hefur notið þess að afbragðsfólk hefur valist til starfa á spítalann. Sigríður Guðlaugsdóttir var í þeim hópi og starfaði á Barnaspítala Hringsins í tæpa tvo áratugi.

Sigríði þótti afskaplega vænt um Barnaspítala Hringsins og þó fyrst og fremst um börnin, sem þar dvöldu. Hún var einstaklega umhyggjusöm og vann störf sín af mikilli alúð. Börnin, sem dvöldu lengi á spítalanum, þekktu Sigríði oft sem "góðu konuna". Hlýtt viðmót hennar og væntumþykja fyrir börnunum létti þeim oft dvölina og mörg eiga góðar minningar um Sigríði.

Sigríður var einnig kankvís og glöð með góða lund. Í býtibúrinu var því oft skrafað og spjallað mikið og það varð að eins konar miðstöð, þar sem hægt var að fá gott kaffi og jákvætt viðmót. Stundum flutu einnig með sögur frá Sigríði frá því er hún var lítil stúlka í sveitinni eða frá veiðiferðum í silungsveiði.

Starfsfólk Barnaspítala Hringsins er þakklátt fyrir ánægjulegt samstarf og góðar minningar um yndislega konu. Fyrir hönd Barnaspítala Hringsins sendi ég eiginmanni Sigríðar, börnum og öðrum aðstandendum innilegustu samúðarkveðjur.

Ásgeir Haraldsson.

Að leiðarlokum langar mig að minnast Sísíar með örfáum orðum. Sísí var einstaklega ljúf og barngóð kona sem börn hændust að.

Rósarækt var henni hugleikin og eins og fyrir einhverja galdra gat hún ræktað gullfallegar rósir úr nánast engu, þekki ég engan annan sem hafði þennan hæfileika.

Að vera nálægt Sísí var alltaf gaman og gott því hún heillaði mann með líflegum frásögnum, fallega dillandi hlátrinum sínum og heillandi, tindrandi augnaráðinu sínu.

Það er með kæru þakklæti sem ég kveð þessa fallegu og lítillátu konu og votta Ingólfi og Júlíu Guðrúnu dýpstu samúð.

Guð blessi minningu Sísíar.

Guðrún Elísabet.