Eftir Gunnar Pál Baldvinsson gunnarpall@mbl.is ÖSSUR Skarphéðinsson iðnaðarráðherra segir íslensk stjórnvöld sér meðvitandi um mikilvægi orkuöryggis og reglulega sé skoðað hvort taka eigi skref til að tryggja betur aðgang Íslendinga að eldsneyti.

Eftir Gunnar Pál Baldvinsson

gunnarpall@mbl.is

ÖSSUR Skarphéðinsson iðnaðarráðherra segir íslensk stjórnvöld sér meðvitandi um mikilvægi orkuöryggis og reglulega sé skoðað hvort taka eigi skref til að tryggja betur aðgang Íslendinga að eldsneyti.

Össur segir að frá stofnun Alþjóðaorkumálastofnunarinnar (IEA) hafi verið skoðað hvort Íslendingar ættu að gerast aðilar en aldrei hafi verið talið að þess væri brýn þörf. Mörg iðnríki eru aðilar að stofnuninni en markmið hennar er að tryggja að hægt sé að bregðast við ef skortur verður á olíu frá olíuframleiðsluríkjum. "Í fyrsta lagi eru þar á ferðinni ríki sem eru mun háðari olíu hvað varðar brýnustu lífsnauðsynjar eins og hita og ljós. Íslendingar eru hins vegar sjálfbærasta þjóð í heimi hvað þetta varðar vegna vatnsaflsvirkjana. Þetta hefur valdið því að við höfum ekki talið okkur þurfa á aðild að þessum samtökum að halda. Í öðru lagi þurfa aðildarríki að koma sér upp 90 daga olíubirgðum og slíkt birgðahald myndi kalla á mikla fjárfestingu sem myndi væntanlega skila sér í hærra verði til neytenda," segir Össur.

"Það breytir þó ekki hinu að þær aðstæður kunna að skapast að Íslendingar ættu að skoða aðild og hugsanlegt birgðahald af þessu tagi. Við teljum að sú staða sé ekki komin upp í dag en á því kynnu að verða breytingar ef það yrðu alvarlegar viðsjár í heiminum eins og stríð í Mið-Austurlöndum."

Málefnið reglulega rætt á vettvangi NATO

Össur segir að aðild að IEA væri líklega sú leið sem beinast lægi við ef talið yrði nauðsynlegt að tryggja aðgang Íslands að eldsneyti. Aðspurður hvort tvíhliðasamningar við olíuframleiðsluríki komi til greina segir Össur að slíkt kæmi vel til greina. Bendir hann á að Íslendingar eigi í frændgarð að sækja hjá Norðmönnum og vaxandi öryggissamstarf sé nú milli landanna tveggja. "Orkuöryggi er líka eitt af því sem nú er komið á dagskrá hjá alþjóðasamtökum eins og NATO þegar kemur að samvinnu á sviði öryggismála. Þetta er eitt af því sem dómsmálaráðherra hefur tekið upp í ræðum sínum um öryggismál erlendis og jafnframt ritað um. Það má því segja að ríkisstjórnin hafi þessi mál til stöðugrar athugunar hjá ýmsum stofnunum."
Í hnotskurn
» Alþjóðaorkumálastofnunin getur hleypt olíubirgðum aðildarríkja á markað ef skortur verður.
» Ísland er ekki aðili að stofnuninni en iðnaðarráðherra segir aðstæður geta skapast þar sem hún verði æskileg.