Gaman Vill Black Books á skjáinn.
Gaman Vill Black Books á skjáinn.
ÞEGAR ég kveikti á sjónvarpinu um daginn var lögfræðingaþáttur í gangi. Daginn eftir voru það hins vegar löggur sem ræddu ábúðarfullar saman. Daginn þar á eftir voru svo lögfræðingarnir mættir aftur.

ÞEGAR ég kveikti á sjónvarpinu um daginn var lögfræðingaþáttur í gangi. Daginn eftir voru það hins vegar löggur sem ræddu ábúðarfullar saman. Daginn þar á eftir voru svo lögfræðingarnir mættir aftur.

Ég man ekkert hvaða þættir þetta voru né nöfnin á neinum persónum – og venjulega hef ég límheila á alla tilgangslausa þekkingu um sjónvarpsþætti og bíómyndir. En þessir þættir eru allir eftir sama forminu og nota allir sömu sviðsmyndina og gott ef ekki sama myndatökumann. Sem er mikil synd því sumir þessir þættir eru alveg þokkalega skrifaðir og taka á ágætlega forvitnilegum málum – en þessar starfsstéttir eru bara svo yfirgnæfandi á sjónvarpsskjánum að þættirnir eru löngu farnar að renna saman í eitt.

Lausnin er ósköp einföld – og að maður hefði haldið markaðsvæn – að fá fleiri starfsstéttir á skjáinn. Læknar hafa sömuleiðis fengið sinn skammt en hvar eru kennararnir, blaðamennirnir og bókabúðarstarfsmennirnir?

Hér nefni ég bara þrjú af fjórum síðustu störfum sem ég hef unnið við (ég verð að viðurkenna að sjónvarpsþættir um næturverði yrðu seint sérstaklega spennandi ef þeir ættu að vera eitthvað í ætt við raunveruleikann), en flestir vilja sjá eitthvert kunnuglegt drama á milli allra glæpaþáttanna. Svo gæti það líka þýtt nýja seríu af Black Books , einhverri bestu gamanseríu síðari ára. Eða sjónvarpsþætti í ætt við þá mögnuðu bíómynd Network .

Ásgeir H. Ingólfsson