MORGUNBLAÐINU hefur borist eftirfarandi: Stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna hefur samþykkt eftirfarandi ályktun: "Samband ungra sjálfstæðismanna átelur harðlega afskipti einstakra sveitarfélaga af sölu á eignarhlut ríkisins í Hitaveitu...

MORGUNBLAÐINU hefur borist eftirfarandi:

Stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna hefur samþykkt eftirfarandi ályktun:

"Samband ungra sjálfstæðismanna átelur harðlega afskipti einstakra sveitarfélaga af sölu á eignarhlut ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja til einkaaðila. Kaup einkafyrirtækis á eignarhlut ríkisins voru grundvölluð á metnaðarfullum áætlunum um útrás íslenskrar sérþekkingar og hugvits. Með því að beita forkaupsrétti sínum til að koma í veg fyrir að eignarhlutur ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja færist til einkaaðila hafa viðkomandi sveitarfélög gengið gegn markmiði ríkisstjórnarinnar þar að lútandi.

Stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna lýsir yfir stuðningi við sjónarmið bæjarstjórans í Reykjanesbæ um að bærinn beiti forkaupsrétti sínum í þeim tilgangi að hinar upphaflegu áætlanir um aðkomu einkaaðila að Hitaveitu Suðurnesja nái fram að ganga. Afskipti annarra sveitarfélaga að málinu eru á gagnstæðum forsendum og eru þau harðlega átalin.

Mikla furðu vekur sú yfirlýsing ungliðahreyfingar Samfylkingarinnar í tengslum við mál þetta, að hvergi sé minnst á einkavæðingu orkufyrirtækja í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Í stjórnarsáttmálanum segir orðrétt: "Tímabært er að leysa úr læðingi krafta einkaframtaksins svo að íslensk sérþekking og hugvit fái notið sín til fulls í útrás orkufyrirtækja." Sala ríkisins á eignarhlut sínum í Hitaveitu Suðurnesja var og er í fullu samræmi við þetta markmið ríkisstjórnarinnar. Fullyrðingar ungliða í Samfylkingunni um annað eru óskiljanlegar.

Að mati ungra sjálfstæðismanna er það umhugsunarvert að sveitarfélög, sem alla jafna kvarta hástöfum yfir of lágum tekjustofnum til að standa undir lögboðnum verkefnum sínum, skuli verja milljörðum króna úr sveitarsjóðum til að halda einkafyrirtæki frá þátttöku í verkefnum á sviði umhverfisvænnar orkuöflunar og útrás íslenskrar sérþekkingar. Fráleitt er með öllu að ætla sveitarsjóðum sem eiga að standa undir sameiginlegum grunnþörfum samfélagsins beina þátttöku í slíkum áhættufjárfestingum. Ljóst er að innan viðkomandi sveitarfélaga er engri sérþekkingu til að dreifa sem gerir aðkomu þeirra að fyrirtækinu þess eðlis að útrásarmöguleikar vænkist.

Með svipuðum rökum og forsvarsmenn sveitarfélaga nota nú til að tryggja yfirráð sín yfir Hitaveitu Suðurnesja, hefði mátt koma í veg fyrir einkavæðingu bankanna. Í hvaða sporum væri íslenskt fjármálalíf í dag, ef stjórn bankanna væri í höndum sveitarstjórnarmanna?"