Árni Guðbergur Guðmundsson fæddist á Neðri-Grund í Grindavík 8. september 1925. Hann lést á Landspítalanum við Hringbraut 25. júní síðastliðinn. Foreldrar hans voru Eiríka Jóhanna Oktovía Árnadóttir símstöðvarstjóri í Grindavík, f. 2. október 1901, d. 11. janúar 1973 og Guðmundur Erlendsson formaður á bát í Grindavík, f. 29. mars 1898, d. 7. mars 1933. Albróðir Árna er Erlendur, f. 11. janúar 1930. Hálfsystur hans, sammæðra, eru Erla Guðmunda Olgeirsdóttir, f. 13. desember 1936 og Guðborg Kristín Olgeirsdóttir, f. 20. janúar 1941.

Árni kvæntist 3. apríl 1958 Vigdísi Ágústu Sigurðardóttur, f. 14. október 1931. Foreldrar hennar voru Sigurður G. Hafliðason, f. 1908, d. 1998 og Klara Tómasdóttir, f. 1913, d. 1993. Börn Árna og Vigdísar eru: 1) Klara Sigríður, f. 1952, maki Jóhann Kristjánsson, f. 1952, börn þeirra Adda Sigríður, Smári Freyr og Eva Sif. 2) Guðmundur Jóhann, f. 1957, maki Ingunn Jónsdóttir, f. 1959, börn þeirra Jón Árni, Guðmundur Karl, Guðrún Ósk og Ágúst Ingi. 3) Sigurður Hafliði, f. 1960, maki Berglind Káradóttir, f. 1958, börn þeirra Anna Margrét og Atli Gunnar. 4) Jóhanna Guðbjörg, f. 1965, maki Ingimar Cizzowitz, f. 1962, börn þeirra Gísli Þór, Vigdís Bára, Árni Guðbergur, Daníel Ingi, Jóhanna Rut og Ingimar Kristinn. Árni átti auk þess sjö langafabörn.

Árni Guðbergur starfaði í slökkviliðinu og á trésmíðaverkstæði Reykjavíkurflugvallar alla sína starfsævi eða til 1995.

Útför Árna verður gerð frá kirkju Óháða safnaðarins í dag og hefst athöfnin klukkan 13.

Elsku pabbi minn. Það er ótrúlegt að þú skulir vera horfinn úr þessum heimi og við hin þurfum að halda áfram án þín.

Þegar ég hugsa til baka man ég þegar þú fórst með okkur systkinin upp í Rauðhóla á sunnudagsmorgnum, til að sigla bátunum okkar. Á meðan fékk mamma frið til að elda sunnudagssteikina. Og öll ferðalögin sem fjölskyldan fór saman á bjöllunni. Það voru góðir tímar.

Þegar þið mamma ákváðuð að byggja sumarbústað í Kjósinni tók öll fjölskyldan þátt í því. Það var yndislegt að vera þar.

Eftir að ég fékk mér mann, hann Ingimar, sem tók upp á því að kalla þig tengdakallinn við góðar undirtektir og við eignuðumst börnin okkar 6 vorum við alltaf velkomin í Kjósina, til afa og ömmu. Krakkarnir nutu sín þar, undir þinni leiðsögn.

Þegar við hjónin fórum að ferðast sjálf komuð þið mamma oft með okkur. Það var gaman. Alltaf varst þú tilbúinn að hjálpa okkur, þegar þurfti að smíða eitthvað eða lagfæra. Þú töfraðir fram heilu innréttingarnar. Þar nutu smiðshæfileikar þínir sín til fullnustu.

Við þökkum fyrir þann tíma sem við fengum með þér. Þín er sárt saknað.

Við kveðjum þig með lítilli bæn sem þú kenndir mér þegar ég var lítil.

Þú, Guð, sem stýrir stjarna her

og stjórnar veröldinni,

í straumi lífsins stýr þú mér

með sterkri hendi þinni.

(Valdimar Briem.)

Þín dóttir,

Jóhanna Árnadóttir og

fjölskylda.

Með örfáum orðum langar okkur að kveðja hann afa.

Það virðist oft vera þannig að í minningargreinum líta flestir út fyrir að vera hálfgerðir dýrlingar, þrátt fyrir að í raunveruleikanum séu það fæstir, eða í rauninni enginn! Í huga okkar systkinanna kemst afi okkar þó næst því. Öll okkar upplifun af honum er jákvæð. Hann var sá sem vildi allt fyrir mann gera og meira til ef hann gat. Þrátt fyrir að aldurinn hafi verið farinn að færast yfir og heilsunni farið að hraka sló hann ekki slöku við. Hann var mættur til okkar með verkfærin sín til að gera við, laga og græja áður en nokkur bað um aðstoð. Það er óumdeilanlegt að afa leið best þegar hann hafði nóg að gera, enda var hann ekki sérlega mikið fyrir að slappa af. Honum leið best með hamarinn í hendinni. Hann smíðaði meðal annars undir styrkri verkstjórn ömmu eigin sumarbústað, bátaskýli og árabáta, ásamt ótalmörgu öðru sem tæki margar blaðsíður að telja upp.

Það eru einmitt endalausar minningar úr Kjósinni sem rifjast upp fyrir okkur. Við minnumst til dæmis afa og ömmu að taka á móti okkur á nærfötunum í sólinni! Enda var alltaf gott veður í Kjósinni! Hin árlega Kjósarhátíð sem þau komu á laggirnar, var sérlega eftirminnileg úr barnæskunni. Oft var spilað, sungið og trallað fram á nótt. Þarna upplifðum við margar ógleymanlegar samverustundir fjölskyldunnar.

Árnagarður á Vigdísarvöllum, eins og vinin var kölluð, var klárlega aðaláhugamál ömmu og afa, fyrir utan stórfjölskylduna sem var alltaf númer 1, 2 & 3. Saman gátu afi og amma endalaust verið að dunda sér í ýmsum endurbótum, stækkunum, viðhaldi og skógrækt á svæðinu, enda var lóðin orðin skógi vaxin þrátt fyrir að í byrjun hafi hún einungis verið urð og grjót.

Afi var rólyndismaður, vandvirkur og eljusamur. Hann gaf sér alltaf tíma fyrir þá sem þurftu á honum að halda, hvort sem var til að spjalla og gefa ráð eða vegna annarra hluta. Hann hafði sterkar skoðanir á hlutunum en leyfði þó öðrum að hafa sínar eigin! Undir það síðasta var hann orðinn heilsulítill en bar sig þrátt fyrir það vel og reyndi að hafa eins mikið fyrir stafni og hægt var. Hjá afa var alltaf stutt í brosið.

Við viljum með þessum fáu orðum þakka afa fyrir samfylgdina, hún var ekkert nema góð. Það verður skrítið að hafa hann ekki með okkur áfram. Við erum þó viss um að hann vakir yfir okkur og passar upp á okkur eins og hann hefur ávallt gert.

Fráfall afa verður þó erfiðast fyrir hana ömmu. Afi og amma höfðu verið gift í næstum 50 ár og áttu vel saman þrátt fyrir að vera mjög ólík. Þeirra styrkur var að okkar mati hvað þau bættu hvort annað upp og voru einstaklega gott lið. Sagt er að tíminn lækni öll sár, og þó hann geri það ekki þá hlýtur hann í það minnsta að deyfa þau. Minningin um yndislegan mann lifir í hjörtum okkar allra um ókomna tíð. Amma, þú veist að þú átt góða að og getur ávallt leitað til okkar sem og annarra í fjölskyldunni.

Adda S. Jóhannsdóttir,

Smári Freyr Jóhannsson,

Eva Sif Jóhannsdóttir.

Afi og langafi. Við minnumst þín nú og alltaf. Þessi hlýi og trausti maður, með bros á vör í sólbaði "á nærbuxunum" uppi í Kjós að dunda sér.

Er þú kveður okkur í síðasta sinn afi og langafi þökkum við þér fyrir að hafa verið svo stór partur af lífi okkar allra. Að hafa hjálpað okkur gegnum súrt og það allra besta að vera alltaf til staðar öll þessi ár. Þín á eftir að verða sárt saknað. En þá minnumst við þess að merkasti maður allra tíma var og verður (Árni Guðbergur Guðmundsson) þú, afi og langafi. Við hefðum viljað hafa þig lengur með okkur. Takk fyrir samveruna.

Guð geymi þig uns við hittumst á ný.

Gísli, Herdís og Karitas Rós.

Hinsta kveðja

Hinsta kveðja

Ég kveð þig nú, elsku afi minn, þó þú hverfir núna og komir ekki aftur, ég kveð þig nú. Þegar sólin skín inn um gluggann minn og sendir geisla á gömlu myndirnar af þér skal ég minnast þín, elsku afi minn. Þú verður á gangi á gullnum stígum, langt í fjarska. Nú verð ég bara að kveðja þig, þó að það sé sárt. Ástarsöknuður. Kveðja frá hríslunum hans langafa, Kristu Líf og Eriku Rós.

Vigdís Bára.

Hinsta kveðja