Serbar Heldur hefur hallað undan fæti í serbneskum handknattleik undanfarin ártug eða svo, jafnt hjá landsliðinu sem félagsliðum. Hér eru tveir landsliðsmenn Serba í glímu við íslenska landsliðsmenn í Laugardalshöll í síðasta mánuði. Þá tókst Serbum reyndar vel til og voru nærri því að hafa betur.
Serbar Heldur hefur hallað undan fæti í serbneskum handknattleik undanfarin ártug eða svo, jafnt hjá landsliðinu sem félagsliðum. Hér eru tveir landsliðsmenn Serba í glímu við íslenska landsliðsmenn í Laugardalshöll í síðasta mánuði. Þá tókst Serbum reyndar vel til og voru nærri því að hafa betur. — Morgunblaðið/Golli
SÚ var tíðin að Metaloplastica Sabac frá gömlu Júgóslavíu bar ægishjálm yfir önnur félagslið í Evrópu. Liðið var gífurlega sterkt á níunda áratug síðustu aldar og hafði oft á að skipa kjarnanum úr hinu öfluga landsliði Júgóslava.

SÚ var tíðin að Metaloplastica Sabac frá gömlu Júgóslavíu bar ægishjálm yfir önnur félagslið í Evrópu. Liðið var gífurlega sterkt á níunda áratug síðustu aldar og hafði oft á að skipa kjarnanum úr hinu öfluga landsliði Júgóslava. Metaloplastica spilaði m.a. hér á landi og vann fjölda titla á sínum tíma, varð t.d. Evrópumeistari 1985 og 1986, og komst síðast í undanúrslit Evrópukeppni meistaraliða árið 1988.

Eftir Víði Sigurðsson vs@mbl.is

Metaloplastica var með fjölda handboltasnillinga í sínum röðum, Veselin Vujovic og þá kynslóð alla, og þótti færa íþróttina uppá nýtt plan með hröðum og skemmtilegum leik.

Lítið hefur farið fyrir félaginu á seinni árum, eftir að Júgóslavía liðaðist í sundur, en á komandi vetri verður það þó á meðal þátttakenda í Evrópukeppni, sem fulltrúi Serbíu. Ekki þó í Meistaradeild Evrópu, heldur í Áskorendabikarnum, sem er lægst skrifaða keppnin af þeim fjórum sem í boði eru og sterkustu handknattleiksþjóðir Evrópu senda ekki lið í hana.

Fara í forkeppni

Ekki nóg með það, heldur þarf Metaloplastica að fara í forkeppni Áskorendabikarsins og komast í gegnum undanriðil, áður en liðið fær tækifæri til að dragast gegn Fram eða öðrum hærra skrifuðum liðum sem taka þátt í keppninni.

Í riðlakeppninni spilar Metaloplastica ekki beint við bestu lið álfunnar. Mótherjarnir eru nefnilega tvö ensk lið, Oxford University og Great Dane. Ensk félagslið eru einhver þau allra lökustu í Evrópu, og tvö lið komast áfram úr riðlinum, svo Serbarnir ættu að vera allöruggir með sæti í 32-liða úrslitunum. Spurning hvort þeir dragist gegn Frömurum og mæti þeim í Safamýrinni í haust?

Serbar mæta Færeyingum

Þegar Júgóslavía var og hét var handknattleikslið þjóðarinnar jafnan í fremstu röð í heiminum. Eftir að hún liðaðist í sundur hafa Króatar verið fremstir í flokki í handboltanum af þeim sex þjóðum sem áður voru aðilar að ríkjasambandinu en Slóvenar og Serbar/Svartfellingar hafa líka náð langt. Eftir ósigurinn gegn Íslendingum í umspili EM í júní þurfa Serbar, sem nú standa einir eftir að Svartfellingar fengu sjálfstæði, að fara í forkeppni næsta heimsmeistaramóts.

Þar var dregið í riðla á dögunum og Serbar drógust gegn Færeyingum og Ísraelsmönnum. Þeir fara því til Færeyja í janúar á meðan íslenska landsliðið spilar meðal þeirra sextán bestu í álfunni í Noregi. Meira að segja fyrrum bandamenn þeirra, Svartfellingar, í hinu nýstofnaða lýðveldi, eru komnir framúr Serbunum og verða á meðal þátttökuþjóða í úrslitakeppni EM í Noregi. Þeir fengu hinsvegar heldur auðveldari mótherja en bræður þeirra Serbar og sigruðu Portúgali í umspilinu.