Afhending Borgarstjórarnir tveir, Júrí Luzhkov og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, við afhendingu hestanna í Moskvu um síðustu helgi.
Afhending Borgarstjórarnir tveir, Júrí Luzhkov og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, við afhendingu hestanna í Moskvu um síðustu helgi.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Baldur Arnarson baldura@mbl.

Eftir Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

"EF RÉTT er á spöðunum haldið, eins og við erum að leggja upp með íslenska hestinn í Moskvu, held ég að gríðarleg tækifæri gætu falist í útflutningi á Rússlandsmarkað," segir Hörður Gunnarsson, annar knapanna tveggja sem riðu gæðingunum tveimur sem Júrí Luzhkov, borgarstjóri Moskvu, fékk að gjöf í opinberri heimsókn Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar borgarstjóra og viðskiptasendinefndar í síðustu viku.

"Þetta var meiri áhugi en okkur hefði nokkurn tímann órað fyrir," segir Hörður, sem er einkar bjartsýnn um góðar viðtökur í Rússlandi, þar gætu myndast sóknarfæri til jafns við Þýskalandsmarkað, þar séu vel yfir 70.000 íslenskir hestar.

Björgvin Þórisson dýralæknir fylgdi gæðingunum út til Rússlands.

Hann tekur undir með Herði að Rússlandsmarkaður bjóði upp á mikil tækifæri og að hann gæti jafnvel – innan tveggja til þriggja ára – orðið enn stæri útflutningsmarkaður fyrir hross en Þýskaland hefur verið.

Til að gefa dæmi um útflutninginn til Þýskalands voru þangað fluttir 1.127 hestar árið 1995 og hefur mikill fjöldi verið ræktaður ytra. Verði viðskipti við Rússa jafnumsvifamikil telja þeir óhætt að fullyrða að um milljarða króna sé að tefla.

Páll Bragi Hólmarsson reiðkennari valdi gæðingana fyrir Luzhkov. Hann segir óljóst hversu stór markaðurinn í Rússlandi geti orðið, hafa þurfi fæturna á jörðinni og sýna þolinmæði. Það gæti margborgað sig, enda taki Rússar hestinum fagnandi.

"Það fer enginn út í þetta sport eystra nema að hafa auðveldlega efni á því," segir Páll um markhópinn. Hörður tekur undir að hinn almenni viðskiptavinur eystra sé efnaður hestaáhugamaður sem eigi einn til tvo hesta. "Þetta eru leiktæki ríka fólksins, að því er virðist, þó maður geti ekki alhæft það."

Efnafólk kostar miklu til

Hörður telur hestabúgarð Luzhkovs í Moskvu ágætt dæmi um hversu miklu efnafólk er tilbúið að kosta fyrir þetta áhugamál. Þar séu þrjár reiðhallir, miðað við eina í Víðidal, þrjú æfingasvæði og sýningaraðstaða með stórri áhorfendastúku.

Yfir sjö metra há girðing loki búgarðinn af, ásamt því sem vopnaðir verðir gæti svæðisins. Dýralæknir sé þar á vakt allan sólarhringinn og hestarnir í þjálfun alla daga.

Spurður út í aðbúnað hesta í Moskvu segir Hörður uppi hugmyndir um að reisa búgarða eingöngu með íslenskum hestum, auk blandaðra búgarða, í landi þar sem sé að finna flest hestakyn. Rússar eigi sér langa sögu í brokkkappræðum og hindrunarstökki. Reiðmennskan þar sé fagmannleg og byggð á lengri hefð en hér heima.

Inntur eftir verðlagningunni á íslenskum hestum í Rússlandi segir Björgvin að selja verði dýra og vel tamda gæðinga sem kosti frá einni og hálfri milljón króna og upp úr. Hafa beri í huga að land í nágrenni Moskvu sé mjög dýrt, hektarinn sé á hálfa milljón Bandaríkjadala. Þessi kostnaður undirstriki hversu mikilvægt sé að eiga í samvinnu við rússneska aðila, enda þyrfti líklega að kaupa tíu hektara undir búgarð.

Spurður um helstu hindranirnar við slíkan útflutning bendir Björgvin á að bæta þurfi upplýsingaflæði milli ríkjanna, þannig að rússnesk tollayfirvöld geri sér grein fyrir því hvaða sjúkdóma íslenskir hestar hafi, svo koma megi í veg fyrir óþarfa einangrun og blóðprufur.

Töluverð fyrirhöfn skapaðist í kringum útflutning hestanna og vill Hörður sérstaklega þakka Guðrúnu Þorgeirsdóttur sendiráðsritara, útflutningsfyrirtæki Gunnars Arnarsonar og dýralæknisembættinu.

Í hnotskurn
» Gæðingarnir tveir, sem Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson borgarstjóri afhenti starfsbróður sínum Júrí Luzhkov í Moskvu, voru fyrstu íslensku hestarnir sem fá heimili í Rússlandi.
» Fyrstu íslensku hestarnir til að stíga á rússneska grund tóku þátt í sýningu í Pétursborg í maímánuði og komu þeir víðs vegar að.
» Auk Luzhkov og konu hans eru rússnesku forsetahjónin áhugafólk um hesta.