TVEIR ungir piltar, Kristinn Steindórsson úr Breiðabliki og Sigurbjörn Hafþórsson úr Keflavík, reyndust liðum sínum mikilvægir í 16 liða úrslitum bikarkeppninnar í knattspyrnu í fyrrakvöld.

TVEIR ungir piltar, Kristinn Steindórsson úr Breiðabliki og Sigurbjörn Hafþórsson úr Keflavík, reyndust liðum sínum mikilvægir í 16 liða úrslitum bikarkeppninnar í knattspyrnu í fyrrakvöld.

Kristinn, sem er 17 ára gamall, jafnaði fyrir Breiðablik gegn erkifjendunum í HK, 1:1, þegar komið var fram yfir venjulegan leiktíma í Kópavogsslagnum en hann kom inn á sem varamaður.

Sigurbjörn, sem er 18 ára, var í fyrsta skipti í byrjunarliði Keflvíkinga þegar þeir sóttu Þróttara heim í Laugardalinn og hann skoraði sigurmarkið, 1:0, strax á 13. mínútu.

Piltarnir tveir eiga ekki langt að sækja markheppnina. Feður þeirra eru nefnilega í hópi mestu markaskorara í deildakeppninni hér á landi frá upphafi.

* Steindór Elíson, faðir Kristins, skoraði 138 mörk fyrir ÍK, Breiðablik, HK, Víking R., Leikni R., Fram og Selfoss á árunum 1985 til 1999. Hann er áttundi markahæsti leikmaðurinn í deildakeppninni frá upphafi.

*Hafþór Kolbeinsson, faðir Sigurbjörns, skoraði 124 mörk, langflest fyrir KS á Siglufirði en einnig fyrir KA, á árunum 1981 til 2001. Hafþór er í 13. sæti á markalistanum frá upphafi en hann lék tvo A-landsleiki fyrir Íslands hönd árið 1984.