Eftir Kristján Jónsson kjon@mbl.is HÆGT væri að koma í veg fyrir meira en 3.000 dauðsföll vegna hjarta- og æðasjúkdóma í Bretlandi ef lagður yrði virðisaukaskattur á fjölmargar tegundir matvara, að sögn vísindamanna í Oxford-háskóla.

Eftir Kristján Jónsson

kjon@mbl.is

HÆGT væri að koma í veg fyrir meira en 3.000 dauðsföll vegna hjarta- og æðasjúkdóma í Bretlandi ef lagður yrði virðisaukaskattur á fjölmargar tegundir matvara, að sögn vísindamanna í Oxford-háskóla. Í frétt á vefsíðu breska útvarpsins, BBC , kemur fram að um sé að ræða mat með mikilli fitu, salti og sykri og er fullyrt að 17,5% skattur myndi fækka áðurnefndum dauðsföllum um 1,7%.

"Fituskattur" var til umræðu í Bretlandi árið 2004 en þáverandi forsætisráðherra, Tony Blair, fannst hugmyndin bera of mikinn keim af því að menn vildu láta ríkisvaldið hafa vit fyrir fólki, ríkið yrði í "barnfóstruhlutverki", með nefið niðri í hvers manns koppi. Niðurstaðan gæti jafnvel orðið til að fæla fólk frá því að neyta hollustuvöru.

Vísindamennirnir notuðu hagfræðileg gögn til að reikna út hvaða áhrif verðhækkun vegna skattsins myndi hafa á neysluna og hvað fólk myndi þá borða í staðinn. Niðurstöðurnar voru síðan notaðar til að kanna hver áhrifin yrðu á heilsufar almennings í Bretlandi. Til að byrja með er gert ráð fyrir að vikulegur matarreikningur fjölskyldunnar myndi hækka um 4,6%.

Fyrst var kannað hvað myndi gerast ef eingöngu yrði lagður skattur á mjólkurafurðir sem innihalda mikið af mettuðum fitusýrum, smjör og ost, einnig bakaðar vörur og búðinga. En niðurstaðan var að þá myndi fólk einfaldlega skipta yfir í annan óhollan mat, þ. á m. vörur sem innihalda mikið af salti, og það gæti jafnvel aukið tíðni dauðsfalla vegna blóðrásarsjúkdóma.

Næst var notast við aðra tegund mælinga á hollustuáhrifum matvöru en þá eru gefin stig fyrir magn af alls átta tilteknum næringarefnum í hverjum 100 grömmum af fæðu. Með því að taka margar vörutegundir inn í dæmið var hægt að fækka dauðsföllunum um 3.200.

Einn vísindamannanna, Mark Rayner, mælti með því að varasami maturinn yrði skattlagður en einnig mætti beita niðurgreiðslum til að auka neyslu hollustuvöru.