Leikvöllurinn Mælt hefur verið fyrir Gröndalshúsinu við Grjótagötu í Grjótaþorpinu.
Leikvöllurinn Mælt hefur verið fyrir Gröndalshúsinu við Grjótagötu í Grjótaþorpinu. — Morgunblaðið/G. Rúnar
Eftir Silju Björk Huldudóttur silja@mbl.

Eftir Silju Björk Huldudóttur

silja@mbl.is

"EF rétt reynist þá er þetta er ótrúlegur yfirgangur af hálfu borgarstjórnar Reykjavíkur og afar ólýðræðisleg ákvörðun," segir Sverrir Guðjónsson, formaður Íbúasamtaka Grjótaþorps, sem í gær varð var við að arkitekt Minjaverndar væri að mæla upp garðinn á milli húsanna Grjótagötu 6 og 12. "Mér var tjáð að borgarstjóri hefði ákveðið að þarna ætti að koma Gröndalshúsinu fyrir," segir Sverrir og er afar ósáttur við að slík ákvörðun sé tekin innan borgarkerfisins án þess að samráð sé haft við íbúa Grjótaþorpsins. Bendir hann á að á umræddri lóð sé leikvöllur fyrir börn hverfisins og að garðurinn sé einn af fáum opnum svæðum innan Grjótaþorpsins.

Að sögn Sverris er þetta önnur tillagan um staðsetningu innan Grjótaþorpsins, en fyrr í vor var fundað með íbúum vegna staðsetningar Gröndalshússins á mótum Fischersunds og Mjóstrætis. Ekki náðist samstaða um þá staðsetningu og segir Sverrir síðan ekki hafa heyrt meira af málinu þar til starfsmenn borgarinnar hófu að mæla fyrir húsinu á fyrrgreindu leiksvæði í gær.

Í samtali við Morgunblaðið segir Kjartan Magnússon, formaður menningar- og ferðamálaráðs, til skoðunar hjá ráðinu hvar finna megi Gröndalshúsinu stað í Grjótaþorpinu. Segir hann ekki búið að taka neina ákvörðun um staðsetningu, en á von á því að málið skýrist í sumar eða með haustinu. Aðspurður segir hann verið að skoða ýmsa kosti og því ekki óeðlilegt að mæla fyrir húsinu á þeim stöðum sem til greina koma. Aðspurður segir hann ákvörðun um staðsetningu munu verða tekna í samráði við íbúa Grjótaþorpsins.

Í hnotskurn
» Gröndalshús var byggt árið 1882 en Benedikt Gröndal eignaðist það árið 1888 og bjó þar til dauðadags árið 1907.
» Áhugafólk um Gröndalshúsið barðist seint á síðasta ári fyrir því að húsið fengi að standa óhreyft á Vesturgötu 16 og mótmælti fyrirhuguðum flutningi þess á Árbæjarsafnið.
» Í framhaldinu ákváðu borgaryfirvöld að kanna möguleika þess að finna Gröndalshúsinu pláss í Grjótaþorpinu.