Albert Eiríksson fæddist á Fáskrúðsfirði 1966. Hann lauk matreiðslunámi frá HVS 1988 og sveinspr. í hárgreiðslu frá IR 1994. Albert vann sem matreiðslum., rak hársnyrti- og sólbaðsstofu, var framkv.stj.

Albert Eiríksson fæddist á Fáskrúðsfirði 1966. Hann lauk matreiðslunámi frá HVS 1988 og sveinspr. í hárgreiðslu frá IR 1994. Albert vann sem matreiðslum., rak hársnyrti- og sólbaðsstofu, var framkv.stj. Þjóðahátíðar Austfirðinga og stýrði Jólaþorpinu í Hafnarfirði. Hann hefur verið safnstjóri safnsins Fransmenn á Íslandi frá 2000 og starfar á vetrum sem þjón.fulltr. LHÍ. Sambýlismaður Alberts er Bergþór Pálsson söngvari og eiga þeir einn son.

Sérstakur hátíðarblær verður yfir Fáskrúðsfjarðarbæ á morgun, 14. júlí, en þá er þjóðhátíðardagur Frakka. Albert Eiríksson er safnstjóri safnsins Fransmenn á Íslandi: "Sú hefð hefur komist á í bænum að flagga þennan dag. Fer nærri að franski fáninn blakti á annarri hverri fánastöng í Fáskrúðsfirði en hinar skarta þeim íslenska, og sérlega skemmtilegt er um að litast í bænum," segir Albert.

Árið 2000 var opnað á Fáskrúðsfirði safn um veiðar franskra sjómanna á Íslandi: "Upphaflega var sett upp sýning á ljósmyndum og textum sem byggðu að mestu á bók Elínar Pálmadóttur, Fransí Biskví. Sýningin vatt upp á sig og stöðugt bættust við munir og er hún nú orðin að allveglegu safni sem enn fer stækkandi um leið og gestum fjölgar," segir Albert. "Með safninu viljum við heiðra minningu þeirra frönsku sjómanna sem sóttu sjóinn við Íslandsstrendur á tímabili sem spannar yfir 300 ár. Hingað komu, þegar mest var, milli 5.000 og 6.000 sjómenn á hverri vertíð, og eru til skráðar heimildir um að á þessum 300 árum hafi allt að 5000 franskir sjómenn látið lífið hér við land og 400 skútur farist."

Sjómennirnir komu að ströndum Íslands í febrúar/mars ár hvert og voru við veiðar í um 6-7 mánuði: "Í maí kom flutningaskip og sótti þann afla sem kominn var. Mæltu flutningaskip og skútur sér mót fjörðunum, m.a. Fáskrúðsfirði, og um leið og saltaður þorskurinn var ferjaður um borð í skipið var sjómönnunum fært salt, póstur og ýmis varningur frá heimaslóðum," segir Albert. "Notuðu Frakkarnir tækifærið og komu á land í firðinum og skiptust á vörum við heimamenn, en það var einkum prjónavarningur sem þeir sóttust eftir, enda mikil vosbúð á miðunum. Borguðu Frakkarnir með kartöflum, kexi og víni, sem Íslendingarnir kölluðu rauðvín eða koníak, en margt bendir til að hafi verið fábrotinn eplamjöður af einhverju tagi."

Finna má nánari upplýsingar um safnið Fransmenn á Íslandi á slóðinni www.fransmenn.net. Í sumar er safnið opið alla daga vikunnar frá kl. 10 til 17. Aðgangseyrir er 480 kr. fyrir fullorðna, en ókeypis er fyrir börn að 14 ára aldri.