Útflutningur Fiskurinn er flokkaður um borð og eftir löndun í Grundarfirði er fiskikörunum staflað í gáma. Fiskur sem fer til Englands er vigtaður þar.
Útflutningur Fiskurinn er flokkaður um borð og eftir löndun í Grundarfirði er fiskikörunum staflað í gáma. Fiskur sem fer til Englands er vigtaður þar. — Morgunblaðið/ÞÖK
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Starfsmönnum í sjávarútvegi í Grundarfirði finnst gróflega að sér vegið og þeir eru reiðir og sárir vegna fréttaskýringar Agnesar Bragadóttur um kvótasvindl í Morgunblaðinu 4. júlí sl. og leiðara blaðsins daginn eftir. Steinþór Guðbjartsson tók púlsinn í Grundarfirði.

Sigurður Ólafur Þorvarðarson, skipstjóri á Þorvarði Lárussyni SH, segir að ekki sé hægt að svindla eins og fram hafi komið í Morgunblaðinu. "Það gengur ekki upp, þó ekki væri nema vegna eftirlitsins," segir hann. "Ef þetta er svona verða allir að vera meðvitaðir um það. Við sem setjum í gámana höfum engan akk af því að vera að stela undan fiski. Við viljum fá sem mesta verðmætið og sem mest fyrir okkar afla. Tegundasvindl hlýtur líka að vera harla erfitt vegna úrtaksvigtunar og annars eftirlits." Fjórir menn á Grundarfirði eiga skipið ásamt Samherja sem sér um útgerðina. Óli Siggi, eins og hann er kallaður, segir að hann verði að skila aflaskýrslu og skýrslu um innihald gáms og það fari ekki fram hjá yfirvöldum séu þær ekki í samræmi við tölur Fiskistofu og sölutölur. "Ef það er svindl í gangi þá hlýtur það að sjást."

Bílarnir vigtaðir tómir

Á síðasta ári fóru um 6,6 þúsund tonn af gámafiski frá Grundarfirði. Hafsteinn Garðarsson, hafnarvörður, segir að í 30 - 40% tilvika fylgist starfsmenn Fiskistofu með að rétt sé að verki staðið. Vigtarskýrslur verði að fylgja hverjum einasta bíl og án þeirra fái þeir ekki afgreiðslu hjá Eimskipi eða Samskipum, sem flytji gámana út. Hann verði síðan strax að faxa skýrslu um innihald gámsins ásamt vigtarskýrslu til Fiskistofu og því sé auðvelt að sannreyna hvort þessar upplýsingar stemmi ekki við útflutningsskýrslur. Auk þess bendir hann á að bílarnir séu vigtaðir tómir og svo aftur með gámnum með fiskikörum. "Bílarnir eru aldrei vigtaðir með tóm kör," segir hann og bætir við að þar með sé ljóst að frásögn af svonefndri vatnsaðferð við kvótasvindl eigi ekki við á Grundarfirði. "Það er ekkert smáræði sem er verið að væna okkur um," heldur hann áfram og vísar í umfjöllun í Morgunblaðinu. Segir jafnframt að fjölmiðlum sé frjálst að skoða allar skýrslur og allar upplýsingar séu á borðinu. "Ég var á sjónum frá 1974 til 2000, stýrimaður og skipstjóri í mörg ár, við settum mikið í gáma og svindl af þessu tagi hvarflaði aldrei að mönnum enda er þetta ekki hægt."

Þekkingarleysi

Djúpiklettur ehf. er alhliða þjónustufyrirtæki við sjávarútveg og fiskvinnslu á Grundarfirði. Þjónustan felst m.a. í löndun og gámafrágangi. Þórður Áskell Magnússon, eigandi Djúpakletts, segir að umræðan sé út í hött og lýsi þekkingarleysi á greininni. Ef svindlið væri staðreynd væri um stærsta svindl Íslandssögunnar að ræða og nokkur þúsund manns yrðu að taka þátt í því, þ.e. skipstjórnarmenn, áhafnir, löndunarmenn, útgerðarmenn, vigtarmenn, Fiskistofa, erlendir fiskmarkaðir og erlendir kaupendur. Menn væru sakaðir um að hafa staðið að stærsta fjársvikamáli sögunnar, um að ræna íslenska þjóð, um að setja kvótakerfið á hliðina. Undir því væri ekki hægt að sitja. "Við ættum þá allir að sitja í gæsluvarðhaldi enda ef 40 þúsund tonnum er svindlað svona út þá eru upphæðirnar komnar yfir 10 milljarða á ári." Þegar Morgunblaðið leit við hjá Þórði var hann að vigta ísaðan fisk í körum fyrir uppboð hjá Fiskmarkaði Breiðafjarðar. "Við vitum ekkert hver kaupir þennan fisk á markaðnum og hann gæti vel endað sem gámafiskur, en skráningunni verður ekki breytt. Hvernig á kaupandinn að vita, ef það er þorskur undir þessu öllu saman? Þetta eru staðlausir stafir, bara rugl, og tölfræðilega gengur málið heldur ekki upp. Um 32 þúsund tonn fara beint út frá höfnunum á ári og þar af telur Fiskistofa um 8 þúsund tonn inn í gámana. Eftir standa því 24 þúsund tonn og fræðilega gengur svindl upp á 40 þúsund tonn, eins og ýjað var að í Morgunblaðinu, ekki upp þó svo öllu þessu magni væri svindlað út í heilu lagi. Ég fullyrði hins vegar að það er hvergi svindl í gámaútflutningi því það yrði svo gríðarlega flókið. Það þyrfti að gera upp við sjómenn og kaupendur, gera tollskjöl, skrá keilu sem þorsk og svo framvegis. Allt yrði þetta að passa saman og enginn mætti nokkurn tímann segja frá. Ég hef starfað við þetta í mörg ár og aldrei orðið vitni að svindli. Ég hef aldrei verið beðinn um að standa í slíku og ég hef aldrei heyrt um neitt slíkt." Þórður segir að sé einhvers staðar svindl í gangi sé ljóst að það sé ekki í þessu ferli. "Það væri miklu einfaldara að flytja inn eiturlyf heldur en að standa í svona rugli," segir hann og bætir við að auk þess hafi hann engra hagsmuna að gæta. "Ég fæ bara greitt fyrir kílóið og mér er alveg sama hvort það er karfi, keila, ufsi eða þorskur í þessum körum. Ef ég tæki þátt í svona svindli væri ég að brjóta tollalög, brjóta lög um vigtun og meðferð sjávarafla sem varða þriggja ára fangelsi, þiggja mútugreiðslur og svo framvegis. Svindl í útflutningi í gámum gengur einfaldlega ekki." Að mati Þórðar er eðlilegt að Morgunblaðið greini frá lögbrotum en blaðið eigi ekki að hafa eftir sögusagnir sem ekki sé fótur fyrir. "Talað er um að veitt sé allt að 40 þúsund tonnum meira af þorski en skráð sé og þó sagt hefði verið að um fjögur þúsund tonna svindl væri að ræða hefði ég líka sagt að þið væruð ekki í lagi. Hvernig á þetta að vera hægt? 40 þúsund tonn er svo yfirgengilegt og lýsir algjörri fáfræði á því hvernig þessi mál ganga fyrir sig. Manni dettur í hug blöð eins og Sun en ekki Morgunblaðið. Þetta er frétt eins og "Geimverur réðust á höfnina í Grundarfirði"." Umfjöllun um svonefnda vatnsaðferð segir Þórður að lýsi þekkingarleysinu vel. "Ég kannast ekki við að hafa séð bíl tara sig með tómum körum og ég er ekki viss um að það sé löglegt," segir hann. "Við keyrum körin niður á bryggju í þúsunda tali og törum bílana alltaf tóma. Annað væri einfaldlega ekki samþykkt. Körin eru aldrei vigtuð tóm. Samkvæmt Fiskistofu eru körin skráð 42 kíló og þegar kör með fiski eru vigtuð er sú tala dregin frá." Þórður segir umræðuna svipaða og þegar uppgangurinn hafi verið í bönkunum. Allir hafi verið tilbúnir að hlusta á fréttir um sukk og svínarí, "en hvað heldur þú að margir þeirra sem lásu dönsku blöðin hafi haft skilning á því hvernig bankar starfa? Fólk las þetta og trúði því en bankastarfsmenn hlógu að þessu. Þetta er einfaldlega ekki ásættanlegt. Eina sem við getum vonað að þið gerið nú er að þið skoðið málið frá öllum hliðum og ef þið komist að því að þetta sé ekki framkvæmanlegt væri afsökunarbeiðni afskaplega notaleg."

Mikið eftirlit

Þórarinn Kristjánsson, fjármálastjóri hjá Guðmundi Runólfssyni hf., segir að umfjöllun Morgunblaðsins í liðinni viku um kvótasvindl sé ólíðandi, því saklausir menn séu sakaðir um ótrúlegustu hluti. "Þetta er stórt og mikið bull um mikinn þjófnað," segir hann. "Þetta er ekki hægt því eftirlitskerfið er það mikið. Í fyrsta lagi er enginn að svindla og það er heldur ekki hægt að svindla. Það gleymist líka að breska ríkið tekur toll af fiski, reyndar ekki af þorski og ýsu en allt upp í 4,5% toll af öðrum tegundum. Skattyfirvöld í hverju landi passa sitt og athuga þetta vel. Þess vegna verða allar skýrslur að standa eins og stafur á bók."

Í fyrra voru um 52 þúsund tonn af ferskum fiski flutt út frá Íslandi. Þórarinn segir að 20 þúsund hafi verið forvigtuð á mörkuðum, tæplega 7 þúsund tonn hafi verið flutt út frá Grundarfirði og Fiskistofa hafi tekið út um 8 þúsund tonn á bryggjunum. Tölurnar tali sínu máli og allt tal um svindl standist ekki. Alhæfingar eins og t.d. að allt að 90% í gámunum sé þorskur og 40 þúsund tonn af þorski fari þannig ólöglega út séu alvarlegar ásakanir. Miðað við 300 kr. á kílóið sé um 12 milljarða kr. á ári að ræða, sem þýði að fluttir væru út 52 gámar á viku með óskráðum þorski. "Þetta eru yfirnáttúrulegar ásakanir," segir hann og bætir við að ansi margir þyrftu að koma að málinu.

Í fyrsta lagi þyrfti skipstjórinn að falsa allar veiðiskýrslur. Í öðru lagi þyrftu allir sjómennirnir að taka þátt í glæpnum. Líka löndunaraðilarnir, hafnarstarfsmenn og hafnaryfirvöld, flutningaaðilar, allt skrifstofufólk hjá sjávarútvegsfyrirtækjunum og allir sem sjái um pappírsvinnu og uppgjör, Fiskistofa, erlendir eftirlitsmenn, opinberir starfsmenn erlendis og allur markaðurinn. "Svo má ekki gleyma því að fiskurinn er keyptur af stórum aðilum erlendis. Það gengur ekki upp að stór fyrirtæki, eins og til dæmis í Bretlandi, sem bjóða upp á fiskborð geta ekki eingöngu selt þorsk. Fyrirtækin kaupa ekki bara þorsk og selja síðan sem ýsu, flatfisk, steinbít, löngu og keilu. Það selur enginn dýrari fisk sem ódýrari fisk og neytandinn þekkir líka muninn á þorski og til dæmis steinbít." Ef verið væri að stela þorski af launum sjómanna þá segir Þórarinn að rangt sé að sjómenn þori ekki að tjá sig um svona mál. "Það er ekki rétt því sjómenn eru engir aukvisar. Þegar við gerum upp túrana stendur magn hverrar tegundar á launaseðlinum og hafi skip fiskað nokkur hundruð tonn af þorski yfir mánuðinn myndi ekki einn sjómaður líða það að enginn þorskur kæmi fram á launaseðlinum og fyrir vikið fengi hann helmingi lægri laun en hann ætti að fá. Sagt er að sjómenn þori ekki að segja neitt því þá séu þeir bara reknir. Tilfellið er að það eru stéttarfélög og sjómannasambönd í landinu og það þarf enginn að koma fram undir nafni. Sé um svindl að ræða taka þau þá líka þátt í glæpnum, allir hagsmunaaðilar sjómanna, skipstjórnarmanna, háseta og vélstjóra. Það stendur hvergi steinn yfir steini í þessum fullyrðingum og þetta eru einhverjar alvarlegustu fullyrðingar sem hafa komið fram og komu fram í Morgunblaðinu af öllum blöðum. Olíumálið spannaði mörg ár og var ekki talað um 6 milljarða þar? Þarna er verið að tala um 12 milljarða á hverju ári, miðað við 300 krónur á kílóið. Á 10 árum eru það um 120 milljarðar. Það er aðeins meira en stóra sláttuvélarmál Baugs." Að sögn Þórarins er erfitt að sitja undir ásökunum um svindl, en það sé í höndum fjölmiðla að kynna sér þessi mál og greina frá niðurstöðum sínum. "Menn eru ofboðslega reiðir yfir því að vera sakaðir um svona þjófnað og glæpastarfsemi og eins og þetta er sett upp í Morgunblaðinu er þetta eitt stærsta glæpamál Íslandssögunnar. Það hefði nú einhvern tíma þótt vert að kafa ofan í slík mál og að sjálfsögðu á Morgunblaðið að biðjast afsökunar á svona fréttaflutningi, því þetta er ekki boðlegt."

Kristján Guðmundsson, yfirvélstjóri hjá Guðmundi Runólfssyni hf. og einn aðaleigandi fyrirtækisins, segir að Grundfirðingar sitji eftir með sárt ennið. "Við erum ósáttir við þessar aðdróttanir, ásakanir um þjófnað," segir hann. "Við höfum unnið í þessu kerfi nánast frá barnsaldri og höfum ekkert verið að skoða hvort hægt sé að svindla í því. Það hefur ekki verið okkar vilji. Menn lifa ekki á þjófnaði, svindli og svínaríi. Þeir sem hafa ætlað sér að lifa á því hafa aldrei komist áfram í lífinu."

Aflinn öllum aðgengilegur

Rúnar Sigtryggur Magnússon, skipstjóri og stjórnarformaður hjá Soffanías Cecilssyni hf., segist ekki skilja hvatirnar á bak við það að ráðast á fjölda manns með svona ásökunum og ekki þurfi mikla rannsóknarblaðamennsku til að hrekja ummælin. Starfsmenn fyrirtækjanna hafi margir hverjir unnið hjá þeim í mörg ár og lagt sig fram af fremsta megni. Sama eigi við aðra sem hlut eigi að máli, jafnt innan lands sem utan. "Allir reyna að vinna sína vinnu eins vel og þeir geta og svo fá þeir svona á sig." Sóley SH, skip Soffaníasar Cecilssonar hf., landar á miðvikudögum og er aflinn boðinn upp á Englandi á mánudögum. Rúnar leggur áherslu á að allir geti boðið í aflann og aðgengi að afla skipa sem landi alltaf á sama tíma á sömu dögum sé almennt mjög gott. Það séu engin trúarbrögð hjá sér að senda fiskinn, sem sé að minnstum hluta þorskur, til Englands heldur sé ástæðan sú að þar hafi jafnbesta verðið fengist. Rúnar áréttar að venjulegt fólk geti ekki staðið í svindli eins og um sé rætt. Það hafi ekki heilsu í það. Hins vegar gjósi þessi umræða oft upp, einkum á haustin, þegar vanti fisk og ljóst sé að sumir innan sjávarútvegsins vilji koma í veg fyrir gámaútflutninginn. "Þessum mönnum er frjálst að bjóða í þennan afla. Ég vil bara fá hæsta verðið og við höldum áfram að vera stolt af því sem við erum að gera. Við erum heiðarlegt og venjulegt fólk, sem er stolt af sínu lifibrauði og hefur hvorki taugar né heilsu til að standa í svindli. Þó flest okkar höfum valið þá lífsleið að vinna við fisk í þessum litla bæ, höfum við metnað fyrir því sem við erum að gera og óréttlátar ásakanir í okkar garð stinga sárt. Afsökun frá Morgunblaðinu mundi tryggja því aftur áskrift mína."

Ómaklega vegið að mörgum

Guðmundur Ingi Gunnlaugsson, bæjarstjóri í Grundarfjarðarbæ, segir að Agnes hafi gengið of langt í grein sinni. Gefið hafi verið í skyn að stór hópur fólks hafi bundist samtökum um að svindla á öllu kerfinu, þegar fiskur sé fluttur út í gámum. Skilja hefði mátt greinina þannig að það væri skoðun blaðsins að þetta væri allt stórþjófar, þó lítið "ef" hafi staðið í henni. "Okkur þykir mjög ómaklega vegið að stórum hópi fólks," segir hann og vísar til þess að sé um svindl að ræða þurfi öll keðjan að vera með. Guðmundur Ingi segir vont að sitja undir því í blaði eins og Morgunblaðinu að vera þjófkenndur. "Fólk sem les svona grein og les þetta leggur engan ofurþunga á orðið "ef" í þessu samhengi. Fólki sárnar og gerir þá kröfu að blaðið finni þessum ummælum stað en sé ekki eingöngu með vísun í "ólyginn sagði mér". Okkur finnst því bera skylda til sem vandaður fjölmiðill að rannsaka málið og upplýsa þá hvar þessi stórfelldi þjófnaður sé." Bæjarstjórinn er jafnframt hafnarstjóri í Grundarfirði. "Ég hef aldrei haft veður af neinu slíku svindli við gámaútflutninginn og mér finnst skrýtið ef það fer fram án þess að við höfum hugmynd um það." Hann bendir á að höfnin vigti aflann, "og þar með yrðum við að taka þátt í svindlinu." Það leynir sér ekki að umfjöllunin hefur haft áhrif á Grundfirðinga og Guðmundur Ingi segir að menn verði fyrir áreiti vegna hennar. Eftirlitið sé mikið en hafnaryfirvöld og Fiskistofa verði hugsanlega að efla það enn frekar við gámaútflutninginn til að sýna fram á að þessar gömlu sögur eigi ekki við rök að styðjast. "Ég heyri ekki annað en að menn telji það sér ekki til framdráttar að stunda svindl eða svíkja afla undan," segir hann. "Með einhverjum hætti verður að reka ofan í þá menn sem halda því fram að þetta sé svona eða þeir að sýna fram á allt þetta svindl í gámaútflutningnum." Guðmundur Ingi segist alltaf hafa litið á Morgunblaðið sem málsvara sjávarútvegsins á Íslandi og aldrei upplifað annað en að Morgunblaðið hafi staðið vörð um hagsmuni greinarinnar, þó það hafi ekki alltaf átt samleið með öllum straumum og stefnum. "Maður hefði haldið að greinar af þessu tagi gætu frekar átt það til að birtast annars staðar," segir hann.

steinthor@mbl.is

Ferli gámafisks frá veiðum til kaupanda

Þórarinn Kristjánsson, fjármálastjóri hjá Guðmundi Runólfssyni hf., og Þórður Áskell Magnússon, eigandi Djúpakletts, lýsa ferli gámafisks frá veiðum til kaupanda með eftirfarandi hætti:

1. Þórarinn bendir á að skip félagsins veiði í troll. Þegar trollið sé híft upp sé gengið frá fiskinum í kör með ís og í veiðiskýrslu sinni greini skipstjórinn frá því hvar halið hafi átt sér stað, hvað það hafi tekið langan tíma og innihaldi halsins.

2. Síðan sé aflanum landað í körunum. Sá fiskur, sem fari til Englands, fari óvigtaður í gáma, en gámarnir séu brúttóvigtaðir. Oftast séu menn frá Fiskistofu á bryggjunni til að fylgjast með lönduninni og að allt fari að reglum. Fiskurinn sé ekki vigtaður sérstaklega því við umstöflun og endurísun minnki geymsluþolið og gæðin sem þýði lægra verð. Fiskur sem fari annað en til Englands sé úrtaksvigtaður. Á hafnarvigtinni sé hvert kar vigtað og hver tegund fyrir sig og síðan sé ákveðinn hundraðshluti vigtaður íslaus. Sé fiskur í sjö körum eða færri sé allur fiskurinn vigtaður og séu meira en 50 kör sé fiskur í 18 körum vigtaður.

3. Skipstjóri eða stýrimaður og háseti skrái kör og tegundir sem fari í hvern gám. Í 20 feta gám fari t.d. um 40 kör og um 60 kör í 40 feta gám. Ákveðið eyðublað frá Fiskistofu sé fyllt út og því skilað til hafnarvarðar.

4. Því næst segir Þórarinn að hann fái þetta eyðublað. Hann búi til útflutningsreikning og útflutningsskýrslu, svonefnda U1 skýrslu. Jafnframt beri sér að setja inn á skráningarvef Fiskistofu gámanúmerið, fjölda kara og þyngd í körum, en á þessu stigi sé ekki búið að vigta fiskinn upp á kíló.

5. Gámur með körum er innsiglaður á bryggjunni, fluttur til Reykjavíkur og þaðan með skipi til Englands. Á viðkomustað sé gámurinn opnaður í viðurvist fulltrúa Fiskistofu. Talið sé út úr gámnum, kassarnir taldir og hver einasta tegund vegin upp á kíló.

6. Síðan sé fiskurinn seldur og þá komi til baka nákvæm kílóatala af hverri tegund, þ.e. heildarinnihald gámsins. Þá sé fylltur út lokareikningur og búin til ný útflutningsskýrsla þar sem innihaldið komi fram upp á kíló.