Vától? Porsche er meðal þeirra sportbíla sem eiga á hættu að verða bannaðir á vegum í ESB-löndunum frá og með árinu 2013.
Vától? Porsche er meðal þeirra sportbíla sem eiga á hættu að verða bannaðir á vegum í ESB-löndunum frá og með árinu 2013. — Morgunblaðið/Eyþór
Eftir Ágúst Ásgeirsson agas@mbl.is Yfirvöld Evrópusambandsins gætu senn gripið til þess ráðs í baráttunni gegn hlýnun andrúmsloftsins að banna sportbíla. Þar með færu Ferraribílar sjálfkrafa á lista sambandsins yfir vától.

Eftir Ágúst Ásgeirsson

agas@mbl.is

Yfirvöld Evrópusambandsins gætu senn gripið til þess ráðs í baráttunni gegn hlýnun andrúmsloftsins að banna sportbíla. Þar með færu Ferraribílar sjálfkrafa á lista sambandsins yfir vától.

Umræður hófust í vikunni á Evrópuþinginu tillögu og skýrslu sem felur í sér að bílar sem hægt er að aka hraðar en á 162 km/klst hraða, eða 25% yfir algengum hámarkshraða á evrópskum hraðbrautum, verði bannaðir á vegum í ESB-löndunum frá og með árinu 2013. Undanteknir banni verði lögreglu- og sjúkrabílar og herbílar.

Aðalflutningsmaður er breskur þingmaður, frjálslyndur demókrati að nafni Chris Davies. Þýskir þingmenn í umhverfisnefnd þingsins boða andstöðu við tillögur hans. "Við þurfum að framleiða hreinustu bílana, ekki þá hæggengustu," segir einn þeirra, Karl-Heinz Florenz, sem ekur um á Mercedes.

Hann gerir líka athugasemdir um undantekningar fyrir bíla sem framleiddir eru af litlum fyrirtækjum, sem smíða innan við 500 bíla á ári. Segir það hygla breskum bílsmiðum. "Hann vill kála Porsche en leyfa mönnum að keyra Bentley óáreittum," sagði Florenz við breska blaðið Financial Times.

Talið er að hinir 99 þýsku fulltrúar á Evrópuþinginu af alls 785 þingmönnum muni langflestir greiða atkvæði gegn tillögunni. Samþykkt hennar yrði ekki bindandi en fyrirséð er að framkvæmdastjórn ESB leggi fram lagafrumvarp um takmörkun gróðurhúsategunda frá bílum. Verður bílafyrirtækjum gert að smíða bíla sem gefa að hámarki frá sér 130 grömm af kolefni á kílómetra árið 2012 og að magnið náist niður í 120 g/km með notkun lífræns eldsneytis.

Til samanburðar gáfu bílar smíðaðir 2005 frá sér 160 g/km og rúmlega 10% alls gróðurhúsalofts í Evrópu er rakið til fólksbíla.

Að mati samtaka evrópskra bílaframleiðenda myndi það í mesta lagi minnka útblástur gróðurhúsategunda frá bílum að banna hraðskreiða bíla. Chris Davies, flutningsmaður tillögunnar, segir að það sé umhverfisleg vitfirring að aka á umræddum hraða, og ólöglegt að auki. "Þetta eru bara leikföng stóru strákanna," sagði hann um sportbílana.